20.04.1949
Sameinað þing: 66. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 941 í D-deild Alþingistíðinda. (5494)

948. mál, skilnaður Íslands og Danmerkur

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson):

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. gat þess, að hann hefði ekki vitað um þessa fsp., og var dálítið úrillur út af því. Annars er ég eftir atvikum ánægður með þau svör, sem ég fékk hjá hæstv. ráðh., en vissan formála hefði hann mátt grunda betur. Ef hæstv. ráðh. væri dálítið eldri, mundi hann vita, að það, sem Benedikt Sveinsson og Bjarni frá Vogi óttuðust mest varðandi sjálfstæðismálið 1918, var einmitt fiskveiðiréttindin og hinn sameiginlegi þegnréttur. Það var hins vegar ekki von, að hæstv. ráðh. vissi þetta, og fyrirgefst honum því þetta sökum æsku sinnar. Mér finnst bara, að þeir menn, sem tóku að sér að ræða þessi mál við Dani, hafi ekki verið nógu skeleggir við að bæta okkar málstað svo sem unnt hefur verið. Því fer mjög fjarri, að þegnréttindin séu þýðingarlítið atriði. Á stríðsárunum streymdu hingað Danir svo þúsundum skipti. Sumt af þessu fólki var gott fólk, en sumt aftur á móti lélegt, og hygg ég að enginn ráðh. hefði þá getað komið hinu óæskilega fólki burtu, hversu feginn sem hann hefði viljað. Ég vil svo enda þessi orð mín með því að segja, að ég tel ekki, að um fullkominn hjónaskilnað sé að ræða, þótt hjón séu skilin að borði og sæng og gengið hafi verið frá fjárhagsatriðum, ef börnunum hefur ekki verið ráðstafað.