10.02.1949
Neðri deild: 62. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 386 í B-deild Alþingistíðinda. (5503)

16. mál, áburðarverksmiðja

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Það, sem ég mundi hafa viljað við bæta í svari mínu til hv. 2. þm. Reykv., get ég nokkuð stytt, vegna þess að ég er þar mjög svipaðrar skoðunar og hv. þm. A-Húnv., eins og hann hefur talað um málið hér nú og eins og ég hef þegar tekið fram fyrr. Ég hef viðurkennt það og undirstrikað, að ef það hvort tveggja væri öruggt, að fyrir lægi fjárframlag eða líkur væru fyrir því, að fyrir lægi fjárframlag, þegar til þyrfti að taka, nægilegt til þess að koma upp stærri verksmiðju en í frv. er gert ráð fyrir eða eins og í brtt. hv. minni hl. landbn. er gert ráð fyrir, og enn fremur, ef nokkurn veginn örugg vissa væri fyrir því, að markaður væri vís fyrir það mikla áburðarmagn, sem sú verksmiðja framleiddi fram yfir það, sem við þurfum að nota innanlands, þá þætti mér mjög glæsilegt að ráðast í slíkt fyrirtæki. En eins og hér hefur verið tekið fram, skortir á um þetta hvort tveggja. Ég geri ráð fyrir, eins og nú er ástatt um fjárhagsafkomu okkar Íslendinga og aðstöðu til lána utanlands og innan til þessa fyrirtækis, þá verði okkur nægilega örðugt að koma hér upp 7.500–10.000 smál. áburðarverksmiðju, þó að við ekki ráðumst í margfalt stærra og dýrara fyrirtæki. Og þó að ég búist við því, eftir þeim fregnum, sem maður fær um þessa hluti, að nú fyrst um sinn megi gera ráð fyrir allmiklum áburðarskorti í heiminum og þar af leiðandi, að ef við komum fljótlega upp þessari verksmiðju, sem væri 7.500 eða 10 þús. smáI. verksmiðja, þá séu miklar líkur fyrir því, ef ekki vissa fyrir því, að við mundum geta fengið markað fyrir þá afgangsframleiðslu, sem þarna er gert ráð fyrir, að verði um að ræða fyrstu árin fram yfir það, sem við Íslendingar þurfum sjálfir að nota. Hins vegar er allt í of mikilli óvissu um markað fyrir köfnunarefnisáburð, er hugsað er lengra fram í tímann, til þess að ég álíti það nokkurt vit fyrir okkur að órannsökuðu máli, — og það þó að við gætum fengið fjármagn til stofnkostnaðar verksmiðjunnar, — að reisa slíka verksmiðju, sem í brtt. hv. minni hl. landbn. er gert ráð fyrir.

Hv. 2. þm. Reykv. gaf upplýsingar um það, að útþensla iðnaðar Norðmanna á þessu sviði væri stórkostleg og þeir væru að undirbúa að stækka sínar verksmiðjur á sömu árum og við værum að hugsa um að koma þessari verksmiðju upp. Og með þetta fyrir augum er varla á það treystandi fyrir okkur, að það yrði leikur fyrir okkur að selja okkar framleiðslu í þessu efni í samkeppni við Norðmenn. Hv. 2. þm. Reykv. lét að vísu orð falla um það, að vatnsaflsstöðvar hér væru betri og mér skildist auðveldara að koma þeim upp hér en í Noregi. (EOl: Það sagði ég ekki.) En þetta er þvert á móti því, sem sérfræðingar hafa gefið mér upp um þetta atriði. (EOl: Ég minntist ekki á þetta, heldur vatnsmagnið.) Það er miklu meira hjá þeim en okkur. Ég hef leitað upplýsinga sérfróðra manna um þetta, aðstöðu okkar til þess að virkja og aðstöðu Norðmanna til þess, og þeir sérfróðu menn hafa látið það uppi sem örugga vissu, að fyrir utan það, hvað mannaflið er miklu ódýrara hjá Norðmönnum, en okkur Íslendingum, þá sé aðstaðan til vatnsvirkjana í Noregi sú langsamlega bezta í öllum þeim löndum, sem vatnsföll eiga, að þar komi ekkert til samanburðar. Aðstaða okkar til virkjunar fallvatna er sú, að Norðmenn standa okkur þar langsamlega miklu framar um alla aðstöðu, þannig að það er nokkurn veginn öruggt, að um þá framleiðsluvöru, sem Norðmenn framleiða og þurfa að keppa um markað fyrir og byggist á raforku, standa Norðmenn flestum eða öllum þjóðum betur að vígi um samkeppni um markaðinn. En ég tel, að þessi aðstöðumunur okkar og Norðmanna í sambandi við það að keppa um markað fyrir áburðinn sé ekki það mikill, að við Íslendingar ættum samt sem áður, álít ég, að geta verið samkeppnisfærir við Norðmenn um framleiðslu á þeim áburði, sem við notum sjálfir og þessi fyrirhugaða áburðarverksmiðja á að framleiða, því að flutningskostnaður á þessum áburði frá Noregi er það mikill, að hann gerir allmikinn mun á kostnaði við að koma vörunni á markað. Þess vegna tel ég það höfuðrök þessa máls, að við Íslendingar verðum bráðlega sjálfir færir um að hagnýta allan þann áburð, sem við bindum okkur við að framleiða með þeirri stærð á verksmiðjunni, sem hér er nefnd. Ég geri ráð fyrir, að ef áframhald verður á þeirri ræktunaraukningu, sem hafin er og búast má við, að fram undan sé, þá líði ekki margir áratugir þangað til við þurfum sjálfir að nota alla þá framleiðslu, sem búizt er við, að verksmiðja af þessari stærð, sem meiri hl. n. leggur til, framleiði. Og í þessu er höfuðöryggi. — Um leið mætti geta þess, að enda þótt þessi framleiðsla að mestu eða öllu leyti færi til notkunar innanlands, þá er þetta stórt gjaldeyrisspursmál, því að ef við ættum ekki slíkt framleiðslutæki, yrðum við að flytja til landsins að sama skapi þessa vöru fyrir erlendan gjaldeyri.

Ein aðalgagnrýni hv. 2. þm. Reykv. um það, að þetta fyrirtæki, eins og það er hugsað að framkvæma það í sambandi við Sogsvirkjunina, viðkomandi því, að það sé rétt hugsað um framkvæmd, var það, að hann taldi, að ekki mundi nægilegt rafmagn fást til þess frá Sogsvirkjuninni til þess að reka það með öðruvísi en að það gengi út yfir aðra notkun rafmagnsins. Meðan þetta mál var í undirbúningi, var einmitt rætt um þetta við þá sérfræðinga, sem hafa haft rafmagnsvirkjunarathuganir með höndum sérstaklega í sambandi við Sogsvirkjunina og víðar. Og töldu þeir öruggt, að verksmiðja af þessari stærð gæti fengið rafmagn frá þeirri nýju virkjun. Nú er vitanlegt, að eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja frá hv. minni hl., þá er sýnt, að það er ekki mikil raforka afgangs af hinni næstu Sogsvirkjun, ef verksmiðjan á að fá alla sína raforku þaðan, en þó nokkur. Og ég hef nýlega rætt þessi mál við rafmagnsstjóra ríkisins. Hann telur, að þó að 7.500 smál. áburðarverksmiðja fengi sitt rafmagn frá nýju Sogsvirkjuninni, þá yrði samt allmikill afgangur af rafmagni þaðan. Hv. 2. þm. Reykv. vefengir það og byggir sína útreikninga á hinni miklu aukningu á rafmagnsnotkun, sem orðið hefur hér á undanförnum árum. En ég held, að það sé óþarfi að reikna með jafnmikið aukinni rafmagnsnotkun á næstu árum eins og átt hefur sér stað á undanförnum árum, vegna þess að útþensla Reykjavíkur hefur verið svo fram yfir öll takmörk á undanförnum árum, þannig að ef við mættum reikna framvegis með þeirri aukningu á þörf rafmagns eins og aukningin hefur verið á notkun þess á undanförnum árum, þá verðum við að reikna með því, að mestur hluti þjóðarinnar komi til Reykjavíkur. En ef reiknað er með því, að þessi mikla fólksfjölgun í Reykjavík, sem verið hefur, stöðvist, og að hér í Reykjavík verði ekki um nema eðlilega fólksfjölgun að ræða, sem hin árlega viðkoma alls staðar að sjálfsögðu leggur til, og ef gengið er út frá því, — því að það er ekki til góðs fyrir höfuðstaðinn eða landið í heild sinni, að fólkið hrúgist til Reykjavíkur eins og á undanförnum árum, — ef maður gerir ráð fyrir, að það takist að koma í veg fyrir það, þá verður ekki fólksfjölgunin hér í Reykjavík eins gífurleg og verið hefur. Og takist það, verður aukningin á rafmagnsþörfinni heldur ekki eins gífurleg og sumir halda fram, að hún verði. —En jafnframt því sem undirbúningur hefur verið gerður undir aukningu Sogsvirkjunarinnar,þá er verið að mæla fyrir enn nýrri virkjun, sem gefur raforku á við tvo þriðju hluta af því, sem næsta Sogsvirkjun mun gefa. Og ef þörfin krefur, þá er að snúa sér að því fyrr heldur en gert hefur verið ráð fyrir að fullvirkja Sogið og ná viðbótarraforkunni, sem ekki hefur verið hugsað sér að ná í þeim næsta áfanga. Og væri þá fyllilega séð fyrir þeirri orku, sem Reykjavík í næstu framtíð og Suðurlandsundirlendið krefst, til viðbótar því, sem sú væntanlega áburðarverksmiðja mundi þurfa að nota.

Ég vil svara nokkrum orðum því, sem hv. þm. Ísaf. kom inn á í umr. og beindi til mín, fyrst hvernig ætti að skilja það, að sagt væri, að verksmiðjan væri sérstök stofnun, sem lyti sérstakri stjórn, og spurði hann, hvort ætti að skilja það þannig, að hún bæri sjálf ábyrgð á skuldbindingum sínum. Ég hef lagt þann skilning í þetta orð, að verksmiðjan ætti að bera ábyrgð á skuldbindingum sínum, á sama hátt og síldarverksmiðjur ríkisins eiga að gera um sinn rekstur. — Þá minntist þessi hv. þm. á það, að í 2. gr. er gert ráð fyrir því, að verksmiðjan verði byggð fyrir fé, sem ríkissjóður leggur henni til. Þetta er nú tekið hér upp í áframhaldi af þeim sams konar ákvæðum, sem hafa verið í þeim frv., sem legið hafa hér fyrir Alþ. á undanförnum árum. Þá var nú hugsað, að verksmiðjan yrði minni og álitið hægara fyrir ríkissjóð að koma henni upp af eigin rammleik. En þetta hefur breytzt og verksmiðjan stækkað í sniðum og orðið dýrari. En vitað er nú um getu ríkissjóðs til þess að leggja fé í stofnun slíks fyrirtækis sem þessa, að hún hefur ekki vaxið að sama skapi og verksmiðjan hefur vaxið í þeirri áætlun, sem sett er fram í frv. Þess vegna er gert ráð fyrir því, að meiri hl. af því fé, sem þetta fyrirtæki yrði reist af, yrði tekinn að láni. Hins vegar þótti rétt að láta þetta ákvæði standa í lögunum, ef svo skyldi fara, að ríkissjóður á einhverju stigi málsins væri álitinn fær um að leggja þarna fram stærri eða minni upphæð. En þar er sleginn varnagli við, að það skuli því aðeins gert, að það verði samþ. á fjárl. frá Alþ. Hins vegar geng ég út frá því, ef ráðizt verður í þetta fyrirtæki og tekst að koma því í framkvæmd, að til þess verði notað mest lánsfé. — Hv. þm. var að tala um það, að verksmiðjan yrði að standa undir greiðslu lánsins, og ætti að geta það, ef þetta væri heilbrigt fyrirtæki. Og í raun og veru er líka gert ráð fyrir því í frv., því að þar er gert ráð fyrir, að hún greiði til fyrningarsjóðs 21/2% af kostnaðarverði húsa, lóðar og annarra mannvirkja og 71/2% af kostnaðarverði véla og annarra áhalda, auk þess sem hún leggur í varasjóð. Og þessar greiðslur eru einmitt ákveðnar með tilliti til þess, að fyrirtækið leggi þannig fyrir á eðlilegan hátt það verðmæti, sem yrði í það lagt. Og verði ekki unnt að greiða það lán, sem tekið væri til byggingar verksmiðjunnar, öðruvísi, þá er sjálfsagt, að það verður að grípa til þess fjár, sem verksmiðjan á í fyrningarsjóði. Og þessar fjárgreiðslur eru ákveðnar með það fyrir augum, að verksmiðjan greiði á eðlilegum tíma það fé, sem í hana hefur verið lagt. — Ákvæðið um vextina, sem ég sé, að hefur orðið ýmsum hv. þm. þyrnir í augum, var sett þarna til samræmis við þær till., sem áður höfðu legið fyrir í þessu máli, sem sé það, að ríkissjóður legði fram sitt eigið aflafé í þessa verksmiðju. En í þessu efni var breytt til og gert ráð fyrir, að ríkissjóður tæki lán, og þótti í áframhaldi af því ekki óeðlilegt, að ríkið styrkti fyrirtækið með greiðslu vaxtanna, ef til kæmi. En ég segi það fyrir mig, að enda þótt ég væri með í að setja þetta ákvæði inn í frv., þá held ég ekki svo fast í það ákvæði, að það eigi að verða að neinum ásteytingarsteini, og er ég til víðtals við þá hv. þm., sem óska eftir, að þetta ákvæði verði ekki haft í lögunum, því þó að allur sé varinn góður, hef ég þá trú á þessu fyrirtæki, eftir þeim gögnum, sem fyrir liggja, að þetta ákvæði geti verið óþarft, og þá skal ég viðurkenna það, að það er leiðinlegra að vera með það í lögunum, ef ekki þarf til þess að taka. Og ég vil, að hv. landbn. taki þetta til athugunar fyrir 3. umr. — Og í sambandi við brtt., sem hér liggur fyrir frá hv. 5. .þm. Reykv., þá vildi ég aðeins óska þess, að hann vildi taka þessa brtt. aftur til 3. umr. og ræða við landbn. og sömuleiðis við mig um þessar till. og orðalag á þeim.

Þá er víst komið að lokum þessa fundartíma. Út af fyrirspurn hv. þm. Ísaf. um það, hvort ríkisstj. muni hafa óskað eftir að fá sérfræðinga samkvæmt Marshallaðstoðinni til athugunar á ýmsum fyrirtækjum og öðru hér innanlands í sambandi við Marshallaðstoð, þá mun nú ekkert hafa verið ákveðið um það hér enn þá. En vitanlega getur það fyllilega komið til greina og er ekki óeðlilegt, áður en hafizt yrði handa um framkvæmdir í þessu máli. Og þá verður leitað fyrir sér til frekara öryggis um upplýsingar og ráðleggingar frá mönnum eða stofnunum, sem vitað er, að hafa miklu meiri reynslu og þekkingu á þessum efnum heldur en við Íslendingar af skiljanlegum ástæðum.