17.05.1949
Sameinað þing: 75. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1228 í B-deild Alþingistíðinda. (5504)

42. mál, fjárlög 1949

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Frá því hefur verði skýrt opinberlega, að hinn 30. marz s.l., um eftirmiðdaginn, eftir að árásinni á Alþingishúsið var að mestu lokið, hafði hv. 8. landsk. þm., Ásmundur Sigurðsson, og blaðaljósmyndari frá Þjóðviljanum sézt læðast inn í eitt af hliðarherbergjum neðrideildarsalsins og dvelja þar nokkra stund. Þeir, sem næstir komu þarna að, sáu, að þar höfðu, eins og víða annars staðar í Alþingishúsinu þennan dag, orðið nokkur verksummerki. Hinni fögru marmaralíkneskju af Jóni Sigurðssyni forseta, sem stendur þar á hillu, hafði verið snúið til veggjar. Tveim dögum síðar birtist svo í Þjóðviljanum stór mynd á áberandi stað af þessu fyrirbrigði, og voru látin liggja orð að því, að hér væri um alldularfullt fyrirbrigði að ræða, — Jón Sigurðsson hefði snúizt til veggjar af andúð á þeirri samþykkt, sem gerð var á Alþingi þá um daginn, og er það raunar ekki í fyrsta skipti, sem þeir gera tilraun til að nota Jón Sigurðsson og saurga minningu hans með því að beita honum fyrir sinn pólitíska vagn.

Mér þykir þessi saga táknræn. Þeir láta fyrst snúa hlutunum við og birta síðan mynd af þeim í Þjóðviljanum. Þetta er ekkert einsdæmi. Þetta eru þeirra ær og kýr. Hvaða þátt sem hv. 8. landsk. þm., Ásmundur Sigurðsson, kann að eiga í því að snúa við mynd Jóns Sigurðssonar, — og um það skal ekki dæmt hér, en hann hefur mér vitanlega ekki mótmælt þátttöku sinni í þessum verknaði, — þá er það víst, eftir umræðurnar í gær, að hann getur snúið hlutunum við og virðist ekkert klígja við því, og skal ég nú nefna um það nokkur dæmi.

Hv. þm. valdi sér það vafasama hlutskipti að minnast á 30. marz og atburðina, sem þá gerðust. Okkur, sem vorum staddir í alþingishúsinu þennan dag, og aðra þá, sem á atburðina horfðu, getur hann ekki blekkt en ef til vill getur hann hugsað sér að véla um fyrir þeim, sem ekki sáu, einhverjum; og svo mikið er víst, að hér sneri hann hlutunum alveg við. Hann vildi láta líta svo út sem lögreglan hefði með aðgerðum sínum framkallað óspektirnar. Og hann sagði beinlínis, að það hefði fyrst verið við útrás varalögreglunnar, sem grjótkastið verulega hófst. Þetta er alveg öfugt við staðreyndirnar, hlutunum hefur verið gersamlega snúið við. Lögreglan réðst ekki til útrásar fyrr en alllöngu eftir að þingfundi var lokið, allir gluggar þinghússins brotnir, og grjóthrúgur og glerbrot þöktu gólf og sæti þingsalsins. Það er staðfest af öllum sanngjörnum mönnum, sem á horfðu, að lögreglan var seinþreytt til vandræða og lét ekki til skarar skríða fyrr en í fullt óefni var að komast. Eftir útrás lögreglunnar dreifðist mannfjöldinn og grjót- og aurkastararnir urðu frá að hverfa.

„Þetta voru aðeins nokkrir strákar, sem voru að glettast við lögregluna og kasta smásteinum og fúleggjum“, sagði hv. þm., og áhrifin af frásögninni áttu greinilega að vera þau, að hér hefðu verið nokkrir gáskafullir galgopar að skemmta sér. Einnig hér er hlutunum enn hatrammlega snúið við. Í þessum ljóta leik var greinilegt samspil milli blaðs kommúnista og aðstoðarmanna þeirra. Í Þjóðviljanum voru bornar fram bæði dulbúnar og opinberar hótanir um, að það mundi hindrað, að aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu yrði nokkurn tíma samþykkt. Þeir höfðu forustuna í undirbúningnum. Þeir og þeirra menn settu einnig allan svip á alla rás atburðanna um daginn, bæði innan þinghússins og utan þess, svo að það þýðir ekkert nú að koma og segja, að nokkrir strákagalgopar hafi verið hér með glettur, sem lögreglan hafi nánast framkallað. Nei, það, sem hér gerðist, var miklu alvarlegra. Það átti að þvinga alþingismenn, fyrst með hótunum og síðan með ofbeldi, til að ganga frá skoðunum sínum og greiða atkvæði öðruvísi, en sannfæringin bauð þeim. Þeir svifust einskis, köstuðu ekki einungis fúleggjum og smásteinum, eins og hv. þm. sagði, heldur hnullungssteinum, sem, ef þeir hefðu hæft rétt, hefðu vissulega nægt til að drepa menn, enda var hrópað, eins og lýst var hér í gær: „Grýtum, drepum“.

Þetta eru vissulega alvarlegir hlutir, og kannske þeir alvarlegustu, sem hér hafa komið fyrir í seinni tíð. Kommúnistar finna, að almenningsálitið hefur dæmt þá fyrir þetta athæfi, einmitt þá og aðstoðarmenn þeirra, og þeim dómi verður ekki haggað, þó að Ásmundur Sigurðsson, hv. 8. landsk. þm., reyndi að snúa hlutunum við. Undan þessum dómi sviður þá, og þess vegna hamast nú bæði þessi hv. þm. og aðrir flokksbræður hans við að reyna að snúa hlutunum við, — en það tekst bara ekki. „30. marz 1949 markar aldahvörf í íslenzkum stjórnmálum“, sagði hv. þm., og það var eitt af því fáa, sem hann sagði rétt. Eftir þann dag ætti Íslendingum að vera ljósara en áður eðli og innræti þessa flokks. Þeir geta frætt okkur um lýðræðið í Rússlandi og réttaröryggið í Tékkóslóvakíu og hina dásamlegu efnahagsafkomu þegnanna austan járntjaldsins á sinn hátt. Um þessa fræðslu er lítið hægt að segja, því að þangað fær nú nálega enginn að koma til að kynna sér hlutina, en þeir skulu ekki reyna að snúa við atburðum, sem gerast við þinghúsdyrnar fyrir augunum á okkur. En nokkra hugmynd gefur það um fréttaflutninginn, þegar svona atburðir, sem gerast hér hjá okkur, eru jafnherfilega rangfærðir og hér hefur verið gert. Ég skal svo láta útrætt um það.

Eitt af því, sem hv. þm., Ásmundur Sigurðsson, fræddi menn á, var það, að þegar fyrrv. stjórnarsamstarfi lauk, sem hann taldi verið hafa í sept.–okt. 1946, hafi raunar verið eftir tiltækt af gjaldeyriseigninni um 260 millj. kr. og þess vegna þurfi ekki að skrifa alla eyðslu gjaldeyrissjóða okkar á reikning fyrrv. ríkisstj.

Nú urðu stjórnarskiptin síðustu að vísu ekki fyrr en í febrúar 1947, en um áramótin áður, 1946–47, segir í skýrslu Landsbankans, sem er hin traustasta heimild, sem til er um þessa hluti, að gjaldeyriseignin hafi að vísu verið nokkuð yfir 200 millj. kr. á þessum tíma, eða 223 millj. kr. En vel að merkja, af þessum 223 millj. kr. var búið að ráðstafa 191 millj. kr. rúmum á nýbyggingarreikning og í ábyrgðarskuldbindingar. Eftir var þá til frjálsrar ráðstöfunar — ekki sú upphæð, sem hv. þm. lét liggja orð að, heldur aðeins ca. 32 millj. kr. Og það er óendanlega mikill munur fyrir eina stjórn, hvort hún tekur við gjaldeyriseign upp á tæpar 600 millj. kr. eða einum 32 millj. kr., sem kalla má, að sé aðeins til brýnustu augnabliksþarfa, eins og nú er orðið högum háttað með gjaldeyrisþörf þjóðarinnar. Ég hef átt sæti í báðum þessum ríkisstjórnum, og munurinn hefur ekki leynt sér. Fyrrv. ríkisstj. gat byrjað með því að setja fastar 300 millj. kr. til nýsköpunarframkvæmda og gerði það, vegna þess að Alþfl. setti það að skilyrði fyrir þátttöku sinni í stj. Kommúnistar settu þá engin slík skilyrði fyrir sinni þátttöku, en hafa síðar sagt, að þeir hafi viljað hafa þessa upphæð miklu hærri; en auðvitað er það ósatt, því að vissulega gátu þeir sett skilyrði fyrir þátttöku sinni, alveg eins og Alþfl., ef þeir hefðu meint nokkuð með hjali sínu, en það gerðu þeir ekki.

Það hefur stundum verið deilt á fyrrv. ríkisstj. fyrir gjaldeyriseyðslu, en þeir, sem það gera, ættu nú að athuga, hvað nýsköpunartækin hafa gefið okkur í gjaldeyristekjur síðan þau komust í gagnið, en það hafa þau þó ekki komizt öll enn þá. Hitt er svo annað mál, að eyðsla kommúnista, þar sem þeir gátu komið henni við, var gífurleg, og eigum við eftir að súpa seyðið af því enn þá. Núverandi ríkisstj. tók hins vegar ekki við neinum gjaldeyrissjóðum, sem heitið gat, en hefur þó getað að mestu forðazt skuldasöfnun erlendis og þrátt fyrir það haldið nýsköpunarframkvæmdunum áfram. Á árinu 1948 náðist í fyrsta sinn um langan tíma jöfnuður í viðskiptunum við útlönd, og fyrstu 4 mánuði þessa árs hefur einnig verið jöfnuður í þessum viðskiptum.

Það er annars lærdómsríkt að líta á gjaldeyrisviðskiptin þessa 4 mánuði, sem af er þessu ári, þrátt fyrir togarastöðvun í rúman mánuð, sem kommúnistar gerðu sitt til að yrði sem lengst, og þrátt fyrir, að engin Hvalfjarðarsíld veiddist s.l. vetur, og bera þessi viðskipti saman við sömu mánuði undanfarin ár.

Á tímabilinu jan.-apríl 1946 var

útflutt fyrir ................ 86 millj. kr.

Innflutt ...................... 109 — —

Halli 23 millj. kr.

Jan.–apríl 1947:

Útflutt ........................58 millj. kr.

Innflutt ......................159 — —

Halli 106 millj. kr.

Jan.–apríl 1948:

Útflutt ......................119 millj. kr.

Innflutt ....................128 — —

Halli 9 millj. kr.

Jan.–apríl 1949:

Útflutt ......................108 millj. kr.

Innflutt .....................108 — —

Halli 0

Þó að núverandi ríkisstj. hefði ekkert gert annað en þetta, að koma jöfnuði á í viðskiptunum við útlönd, þá er það eitt út af fyrir sig svo merkilegur hlutur, að þeirri mynd tekst 8. landsk. þm., Ásmundi Sigurðssyni, né myndatökumönnum Þjóðviljans aldrei að snúa við.

Vitaskuld hefur þetta átak kostað nokkur óþægindi og fórnir, og vegna þess að innflutningur neyzluvarnings hefur af þessum sökum verið takmarkaður meir en áður, hafa kommúnistar reynt að slá sér úr því pólitíska mynt.

„Tryggt hefur verið, að vöruinnflutningur væri minni en eftirspurnin,“ sagði hv. 8. landsk. þm., Ásmundur Sigurðsson, hér í gær. „Vöruskorturinn hefur verið skipulagður,“ sagði hv. 4. landsk., Brynjólfur Bjarnason, í síðustu útvarpsumræðum, fyrir 11/2 mánuði, og allir láta þessir ræðumenn kommúnista á sér skilja, að þetta sé aðeins gert af illri stjórn, þjóðinni til bölvunar. Einnig í þessu tilfelli hefur myndinni verið snúið við, — en þjóðin er farin að þekkja aðferðina og sér við henni.

Sannleikurinn í þessu máli er sá, að vissulega er hér ekki hægt að fullnægja eftirspurn eftir sumum vöruflokkum, sem almennt teljast til neyzluvarnings. Er þar helzt að nefna vefnaðarvöru ýmiss konar, skófatnað, ávexti o.þ.h. Ýmsar aðrar neyzluvörur eru að vísu einnig skammtaðar, svo sem kaffi, sykur, kornvörur, smjör og smjörlíki, benzín o.fl., en flestar það riflega, að á þeim getur ekki talizt skortur.

Ekki eru þessar ráðstafanir þó upp teknar til að gera mönnum bölvun — heldur þvert á móti. Ástæðurnar fyrir þessum ráðstöfunum eru fyrst og fremst þessar:

„1. Gjaldeyrisforðinn var þrotinn, og jöfnuður þurfti að nást í viðskiptunum við útlönd, ef ekki áttu að safnast þar skuldir.

2. Kapítalvöruinnflutninginn varð að stórauka, ef ekki átti að skapast hér atvinnuleysi. 3. Síldarvertíð hefur brugðizt, eins og alkunnugt er, 4 s.l. ár, sem hefur vitaskuld haft í för með sér rýrnun í gjaldeyristekjum. Hvernig hefur svo gengið með þessi atriði, sem vöruskömmtunin var sett á til að bæta úr? 1. Gjaldeyrisjöfnuður hefur náðst í fyrsta sinn um langan tíma á árinu 1948, þannig að ef ekki er talið með það fé, sem fyrir fram hafði verið bundið til skipakaupa, náðist fullkominn jöfnuður í viðskiptunum við útlönd á því ári.

2. Sennilega hefur aldrei verið flutt inn meira af kapítalvörum, efnivörum til bygginga, vélum, skipum og öðrum vörum til framleiðsluaukningar en síðustu ár, og með þeim árangri, að þrátt fyrir það að störfin fyrir hið erlenda lið, sem dvaldi hér á styrjaldarárunum, hafi horfið og þrátt fyrir vonbrigði í sambandi við síldveiðarnar hefur verið hér á þessu árabili nokkurn veginn nægileg atvinna handa öllum.

Það er þess vegna ekki óeðlilegt, þegar bæði þurfti að takmarka innflutningsmagnið í heild vegna gjaldeyrisskorts og þegar auka þurfti vöruinnflutning til verklegra framkvæmda, að þurft hafi að takmarka innflutning á neyzluvarningi um leið.

En hve mikið hefur þá þessi neyzluvöruinnflutningur verið takmarkaður? Ég hef látið taka saman skrá yfir þennan innflutning, fyrir nokkrar vörutegundir, árin 1938, 1947 og 1948, miðað við magn, til þess að verðlagsbreytingar hefðu þar ekki áhrif, og útkoman er þessi:

1938 1947 1948

Kornvörur ..........17165 21551 31402 tn.

Sykur ................ 5050 4469 5560 –

Kaffi .................. 643 1283 777 –

Ávextir .............. 356 3674 2184 –

Smjör................ 0 250 450—

Vefnaðarvara ......1002 1311 1136 Skófatnaður, leður .. 69 152 118 –Gúmmískófatnaður …… 83 90 204 –

Þessi skýrsla sýnir, að yfirleitt hefur innflutningur þessara vörutegunda vaxið mjög mikið að magni frá því fyrir styrjöldina, þrátt fyrir það að ekki hefur tekizt að fullnægja eftirspurn. Það, sem hefur skeð, er það, að neyzla þessara vörutegunda hefur vaxið örar en hægt hefur verið að fullnægja, og það þrátt fyrir að innflutningur ávaxta t.d. hefur 6—10- faldast, smjörinnflutningur vaxið úr engu í 450 tonn, og þrátt fyrir mjög aukna innlenda framleiðslu á t.d. skófatnaði, íslenzkum ullardúkum og prjónlesi.

Ef litið er aftur á móti á innflutning framleiðslutækja, verður aukningin ekki síður áþreifanleg:

1938 1947 1948

Sement ..........................20055 63688 58428 tn.

Járn og stál .................... 4869 11648 12549 –

Brennslu- og smurn.olía 19758 101736 127062 –

Blaða- og bókapappír.. 554 1150 1713 –

Svo að ekki séu nefndar vélar, skip, rafmagnstæki o.þ.h., þar sem innflutningsaukningin hefur orðið geysileg.

Á yfirstandandi ári er enn gert ráð fyrir aukningu á innflutningi nokkurra vörutegunda, sem teljast til neyzluvarnings, eins og t.d. vefnaðarvöru og skófatnaðar. Þá er og gert ráð fyrir að athuga, hvort ekki verður unnt að aflétta skömmtun á nokkrum vörutegundum, t.d. á kaffi, kornvöru og e.t.v. nokkrum fleiri. Benzínskömmtun verður sennilega afnumin bráðlega.

Þegar um það er að ræða, hvort auka skuli innflutning einhverrar vöru, verður að gera sér ljóst, að það tekst ekki nema á þann hátt að draga úr hjá annarri, ef ekki á að kaupa meira en fé er til fyrir, og verða að sjálfsögðu alltaf skiptar skoðanir um það, hvað skuli ganga fyrir, en stj. hefur fylgt þeirri stefnu að láta þær vörur hafa forgangsrétt, sem yrðu til að örva og efla atvinnulífið, þegar um það væri að ræða, hvað kaupa skyldi, eftir að brýnustu þörfum hefði verið fullnægt.

Í sambandi við vöruflutninga til landsins hlýt ég loks að minnast hér á eitt atriði til viðbótar og það er þátttaka okkar Íslendinga í efnahagssamstarfi því, sem kennt er við Marshall.

Eftir styrjöldina hefur sótt í sama horf og áður um viðskipti okkar við Bandaríkin. Útflutningurinn þangað er lítill, en hins vegar mikil þörf fyrir vörur frá því landi, sumpart ófáanlegar annars staðar og sumpart betri og ódýrari en hægt er að fá annars staðar að. Vegna skorts á dollurum hefðu viðskipti við Bandaríkin nálega stöðvazt eða að minnsta kosti dregizt mjög saman, ef ekki hefði notið við þessarar efnahagssamvinnu. Í gegnum hana höfum við fengið greiddar í dollurum vörur, sem við höfum selt til Evrópulanda fyrir 5.2 millj. dollara. Enn fremur höfum við fengið efnivörur, vélar og skip, aðallega til síldar- og fiskimjölsverksmiðja, að láni fyrir 2.3 millj. dollara með mjög hagkvæmum kjörum, 21/2% vöxtum til 35 ára og afborgunarlaust fyrstu árin. Loks höfum við fengið 21/2 millj. dollara sem framlag án endurgjalds, en jafnvirði upphæðarinnar verður eingöngu varið til að koma upp fyrirtækjum, sem gert er ráð fyrir í 4 ára áætlun þeirri, sem gerð hefur verið í sambandi við efnahagssamvinnuna.

Höfum við því á þennan hátt fengið samtals 10 millj. dollara eða 65 millj. kr., sem gert hafa okkur kleift að halda áfram hinum hagkvæmu viðskiptum við Bandaríkin og halda áfram þeirri nýsköpun, sem tryggja á atvinnuöryggi okkar í framtíðinni.

Á móti þessari efnahagssamvinnu hafa kommúnistar barizt eins og þeir hafa verið menn til og hafa enn einu sinni sýnt þar þann hug, sem þeir bera til uppbyggingar atvinnulífsins á Íslandi og afkomu fólksins. Þeir hafa metið meira að haga sér í samræmi við flokksbræður sína erlendis, sem allir reka svipaða eða sams konar pólitík, að því er virðist eingöngu til að þóknast allsherjarsamtökum kommúnista, vegna þess að þeir telja, að efnahagssamvinna þessi sé þrándur í götu útbreiðslustarfsemi og yfirráða þeirra.

Hvað þessi efnahagssamvinna hins vegar þýðir fyrir okkur Íslendinga, sést einna gleggst á því, að á þeim 4 mánuðum, sem liðnir eru af þessu ári, höfum við keypt og flutt til landsins 21.541 tonn af vörum frá Bandaríkjunum, en þar af á vegum efnahagssamvinnustofnunarinnar 16.755 tonn, eða um 77,78% af öllum innflutningnum.

Sýna þessar tölur kannske greinilegar en nokkuð annað, hvar við hefðum verið staddir, ef þessarar efnahagssamvinnu hefði ekki notið við.

Þegar Englendingar stóðu einir í baráttunni við nazismann síðari hluta ársins 1940 og fyrri hluta árs 1941 og ekki var annað sýnilegt, en að þeir yrðu ofurliði bornir, kannske fyrst og fremst vegna gífurlegs skorts á ýmsum tækjum, sem nauðsynleg voru til styrjaldarrekstrarins, beitti Roosevelt, hinn frjálslyndi Bandaríkjaforseti, sér fyrir því, að Englendingum væri veitt hjálp með láns- og leigulögunum, sem kostaði Bandaríkin þúsundir millj. dollara. Einangrunarsinnar og afturhald Bandaríkjanna beittu sér hatrammlega gegn þessu, og munaði oft mjóu, að sú stefna yrði þá ekki ofan á, — hvernig sem styrjöldin hefði þá farið. En þessir andstæðingar láns- og leigulaganna áttu þá einn öruggan stuðningsmann í baráttu sinni, — það voru kommúnistar Bandaríkjanna. Alls staðar og ávallt börðust þeir eins og þeir máttu gegn þessari aðstoð — til 21. júní 1941, að Rússar fóru í stríðið, þá kom annað hljóð í strokkinn. Og eftir það fannst þeim aldrei nógu mikið að gert í aðstoð með lánsog leigukjörum. Það var ekki baráttan við Hitler, sem fyrir þeim vakti, eða aðstoð við frelsisbaráttuna í heiminum fyrst og fremst, nei, það var afstaðan til Rússlands og ekkert annað.

Þegar hjálparstofnun sameinuðu þjóðanna, UNRRA, var sett á stofn eftir styrjöldina með aðalfjárframlagi frá Bandaríkjunum, höfðu kommúnistar ekkert við það að athuga, því að hún kom til góða vinum þeirra og félögum í Austurvegi.

En þegar efnahagssamvinnan, sem kennd er við Marshall, var sett á stofn, berjast þeir á móti, ekki vegna þess, að þeir viti ekki, að hér er um þann eina möguleika að ræða, sem við höfum til að fá bráðnauðsynlegar vörur frá Bandaríkjunum með vægast sagt mjög hægu móti, og eina möguleikann, sem við höfum til að halda áfram nýsköpun atvinnuveganna, heldur einasta vegna þess, að þeir eru að vinna fyrir erlent vald, sem ekki hefur velþóknun á þessum aðgerðum.

Flokkurinn hefur þess vegna sýnt hér —eins og annars staðar, að það eru ekki hagsmunir þjóðar sinnar, sem þeir bera fyrir brjósti fyrst og fremst, heldur hagsmunir erlendrar þjóðar. Þess vegna dæmdu þeir sjálfa sig úr leik um áramótin 1946–47, og þess vegna eru þeir enn óhæfir til að hafa áhrif á málefni íslenzku þjóðarinnar, enda sagði foringi þeirra á Siglufirði fyrir 11/2 ári, svo sem frægt er orðið: „Hvað varðar okkur um þjóðarhag?“ Og mætti það gjarna vera kjörorð þessa flokks.