11.02.1949
Neðri deild: 63. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í B-deild Alþingistíðinda. (595)

13. mál, ríkisborgararéttur

Einar Olgeirsson. Herra forseti. Ég vil leyfa mér að mæla mjög eindregið með því, að þær brtt., sem fyrir liggja hér um veitingu ríkisborgararéttar, verði allar samþ. Ég tel, að um það sé að ræða, hvort við eigum að láta þessa menn, — sem allir hafa jafnan rétt til að fá ríkisborgararétt, eftir okkar reglum, — öðlast bókstaflega jafnrétti fyrir l. Ég álít, að farið sé inn á fordæmanlega braut, ef gera á upp á milli manna, sem eru orðnir Íslendingar að öllu öðru leyti en að hafa ríkisborgararétt, ef veita á sumum hann, en öðrum ekki. Ég sé, að í frv., eins og það liggur fyrir, er lagt til að veita öllum nunnunum í Landakoti ríkisborgararétt, þó að þær séu fæddar í Þýzkalandi. Hins vegar eru allmargir menn, sem fæddir eru í Þýzkalandi og hafa verið landflótta, ekki teknir upp í frv. Nú hafa ýmsir hv. þm. úr n. bætt úr því og lagt fram till. um, að þessir menn fái einnig ríkisborgararétt. Ennfremur með tilliti til þess, að hér í d. hefur nýlega eftir ósk ríkisstj. verið samþ. að veita Þjóðverjum ríkisborgararétt, sem ekki höfðu fullnægt þeim reglum, sem farið er eftir um búsetu og íslenzkukunnáttu, þá álít ég það algerlega órétt gagnvart þeim mönnum, sem eiga kröfu á að fá þennan rétt, ef ekki gildir sami réttur um þá við veitingu ríkisborgararéttar. Ég vil mjög eindregið skora á hv. þm.samþ. allar þær brtt., sem hér liggja fyrir, vegna þess að ég tel ekki annað fært, eins og við höfum afgr. þessi mál undanfarið.