02.11.1948
Efri deild: 7. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í B-deild Alþingistíðinda. (6)

26. mál, happadrættislán ríkissjóðs

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. fjhn. fyrir afgreiðslu þessa máls. — Það vill vera svo, að sínum augum lítur hver á silfrið, og það má vera, að einhverjir séu sama sinnis og hv. 1. þm. N-M., sem talaði hér síðast og fordæmdi frv. með svo sterkum orðum, að varla verður sterkara að orði kveðið. En það er öllum kunnugt, að verðbólgan og þær niðurgreiðslur og uppbætur, sem ríkisstj. er að reyna að standa undir, hafa haft í för með sér yfirdrátt við Landsbankann, sem skiptir tugum millj. kr., og venjulegar tekjuöflunarleiðir hafa því ekki orðið nægilegar. Sú leið, sem hér er farin, hefur verið reynd bæði í Danmörku og Svíþjóð með góðum árangri, m.a. verður þetta til þess að draga úr seðlaveltunni, og það er ekki hvað sízt ríkissjóði til góðs. Það vita líka allir, að Háskóli Íslands er byggður upp fyrir fé, sem fengizt hefur með happdrætti, og engum hefur þótt þetta hneykslanlegt, þótt þar sé áhættan miklu meiri, en í sambandi við þetta lán ríkissjóðs, þar sem engin hætta er á því, að menn missi stofnfé sitt. Það er því fjarri því, að hér sé um nokkurt glæfrafyrirtæki að ræða, stofnféð er tryggt, og auk þess hafa menn mikla möguleika til þess að verða fyrir happi. Það er kannske líka vert að geta þess, að þjóðbankinn hefur hvatt til þessara aðgerða, og þau hvatskeytlegu orð, sem hv. 1. þm. N-M. lét sér um munn fara, stefna því jafnmikið að stj. bankans og ríkisstj. Það vita líka allir, að happdrætti, bæði þörf og óþörf, eru daglegur viðburður, en enginn mun efa það, að ekkert þeirra á eins tryggan grundvöll og þetta happdrætti ríkissjóðs. Ég ber ákaflega mikla virðingu fyrir áhuga hv. 1. þm. N-M. varðandi sálarheill almennings, en skýzt, þótt skýrir séu. Þótt menn í fljótræði reiði hátt til höggs, verður stundum lítið úr. Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta mál, en vil að endingu minna hv. 1. þm. N–M. á það, að ætli hann að gera þetta mál að hneykslunarmáli, þá hefur hann ekki bara ástæðu til þess að tala við ríkisstj., heldur líka við stj. Landsbankans.