22.03.1949
Efri deild: 81. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í B-deild Alþingistíðinda. (611)

13. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Lárus Jóhannesson):

Herra forseti. Þetta mál hefur dregizt nokkuð, vegna þess að ég hef verið lasinn undanfarið. Eins og mönnum er kunnugt, þá hefur verið talsvert mikið sótt á, bæði af hendi erlendra og íslenzkra manna, um að fá íslenzkan ríkisborgararétt, og má að sjálfsögðu nokkuð um kenna ástandinu eins og það er nú. Undanfarið hefur það þó verið þannig, að mönnum hefur fundizt, að það ætti að fara varlega í sakirnar fyrst um sinn um að veita ríkisborgararétt og helzt að reyna að fá einhverjar fastar reglur til þess að fara eftir. Þetta hefur ekki tekizt nema að nokkru leyti, því þótt n. þær, sem hafa fengið málin til meðferðar, hafi haft slíkar reglur, sem hægt er að fara eftir með nokkru öryggi, þá hefur það þó orðið svoleiðis í framkvæmdinni, að deildirnar hafa tekið málin í sínar hendur og greitt atkv. um hvern einstakan mann, og mörg dæmi eru til þess að ýmiss konar ósamræmi hefur komið fram. Í frv. því, sem stjórnin lagði fram, er svo að sjá sem það hafi verið farið eftir þeim reglum að taka íslenzka menn fædda af íslenzku foreldri og Norðurlandamenn. Við þetta hefur Nd. haldið sér að mestu leyti og hefur að því leyti gengið lengra en stjórnin í þessum efnum, að hún tók út úr stjfrv. fjórar konur, sem eru af íslenzku faðerni, en hafa misst íslenzkan ríkisborgararétt við giftingu sína, en hafa ekki skilið við menn sína, í þrem tilfellum virðist maðurinn vera fjarverandi, en í einu tilfelli virðist maðurinn vera einnig hér á landi.

Í allshn. þessarar d. varð nokkur ágreiningur. Að vísu voru 4 nm. á fundi, þegar þetta mál var afgreitt, og eins og segir í nál., sem er dags. 9. marz og er á þskj. 445, þá leggja 3 nm., þm. Dal., 7. landsk. þm. og ég, til, að haldið verði fast við fyrri reglur n. um að veita ekki ríkisborgararétt að sinni öðrum en mönnum fæddum á Íslandi og Skandinövum; sem verið hafa hér samfleytt síðustu 10 ár og ekki er hægt út á að setja. Eins og ég tók fram, hafði Nd. komið inn með nokkra menn, sem ekki uppfylla þau skilyrði, sem meiri hl. n. telur, að eigi að fara eftir, en við sáum okkur ekki fært, eins og málin stóðu og með tilliti til þess, hvernig þessum málum hefur reitt af á undanförnum þingum, að leggja til, að þeir verði teknir út úr, og í samræmi við það höfum við lagt til, að bætt verði inn þessum tveimur mönnum, sem getur á þskj. 445 og uppfylla þessi skilyrði. Að öðru leyti hafa nm. óbundnar hendur um atkvgr. við fram komnar brtt. og verða að fara eftir sínu áliti um hvern einstakan, og ég segi það ekki fyrir hönd n., heldur fyrir mína hönd, að ég álít, að við eigum að vera mjög svo íhaldssamir í þessum efnum og fara helzt ekki út fyrir Skandinaviu, nema það sé alveg sérstaklega varið í að fá annarra þjóða menn og láta þá hafa íslenzkan ríkisborgararétt. Við höfum viljað komast hjá að fara að ræða einstaka menn í sambandi við þessar brtt., og ég vil því leiða það hjá mér nú, og ef til vill væri rétt, vegna þess að við nm. höfum ekki talað saman lengi vegna lasleika míns, að tillöguflytjendur vildu taka brtt. sínar aftur til 3. umr. Ég vil aðeins benda á það í sambandi við brtt. hv. 4. landsk. þm. á þskj. 447, að sá maður hefur verið felldur í Nd. - Um brtt. 453, frá hv. 1. þm. Reykv., vil ég segja það, að ég get ekki séð, að það liggi fyrir nein formleg umsókn frá þeirri konu eða þau vottorð, sem þurfa að liggja fyrir. — Varðandi brtt. 456, frá hv. þm. Barð., veit ég ekki til, að nein formleg umsókn liggi fyrir varðandi b-lið, og ég hef ekki séð þau fylgiskjöl, sem nauðsynleg eru fyrir þennan mann. Viðvíkjandi fyrri manninum er það að segja, að það liggur hér fyrir bréf frá vinnuveitanda hans, Sigurjóni Péturssyni, og eftirrit af vottorðum, en frumritin, segir hann í því bréfi, að verði send og lögð fyrir Alþ. bráðlega. — Viðvíkjandi brtt. 459 vil ég taka það fram, að konan, sem getið er um í a-lið, er, að því er ég hygg, samningsbundin með manni sínum hér á landi, og konan í b-lið er ekki í samvistum við mann sinn, en er óskilin, og hið sama mun vera með hinar konurnar tvær. Þessar konur voru teknar upp í stjfrv., en n. taldi ekki rétt, og allshn. Nd. ekki heldur, að taka þær upp, enda voru þær teknar út í Nd.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta, en vil leyfa mér fyrir hönd n. að leggja til, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem hún leggur til á þskj. 445.