05.04.1949
Efri deild: 82. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í B-deild Alþingistíðinda. (614)

13. mál, ríkisborgararéttur

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég hef borið fram brtt. við frv. á þskj. 456, en hv. n. hefur ekki séð sér fært að mæla með henni, en þessi till. mín var send henni til athugunar áður en hún skilaði áliti sínu. N. hefur tekið þá afstöðu að veita ekki öðrum ríkisborgararétt en þeim, sem fæddir eru á Íslandi, og Skandinövum, sem verið hafa hér samfleytt síðustu tíu ár og ekkert er athugavert við. Við þessu er ekkert að segja, ef n. hefði haldið þessa reglu meira en í orði, en það hefur hún ekki gert. Ef n. vildi hafa þessa reglu, hefði hún átt að leggja til, að allir aðilar, sem ekki eru fæddir á Íslandi eða Norðurlöndum, væru felldir burt. Í stað þess hefur hún lagt blessun sína yfir að brjóta þessa meginreglu og samþ., að aðrir aðilar væru teknir inn. Ég get því ekki séð, að ástæða sé til þess fyrir n. að vera á móti þeirri brtt., sem ég hef tekið upp í hv. d. Eins og ávallt hefur verið, er hér um glundroða að ræða, og farið er eftir því, hve marga kunningja menn eiga, en ekki því, hvar þeir eru fæddir. Það er öllum kunnugt, að nýlega var drifið gegnum báðar d. Alþ. — með öllum hugsanlegum afbrigðum — að veita tveimur þýzkum fjölskyldum ríkisborgararétt, sem aldrei höfðu séð Ísland. Ég sé því ekki, að rök n. fái staðizt, og vænti þess, að hún falli frá stefnuleysi sínu og samþ. þessa till. mína. (LJóh: Það lá ekki fyrir formleg umsókn frá öðrum aðilanum.) Það er heldur ekki upplýst, að fyrir lægju formlegar umsóknir frá þessum fjölskyldum, sem ég gat um áðan. Þm. vissu varla, hvað þær hétu fyrr en eftir á. Hvað skal þá segja um þennan eina mann, þó að formleg umsókn hafi ekki komið í tæka tíð, vegna þess að hann býr ekki í Reykjavík? Þessi maður hefur verið hér 1930–36 og reynzt prýðilega sem þegn, auk þess sem hann er tengdur íslenzkri fjölskyldu. Ég sé því ekki ástæðu til þess að neita honum.