05.04.1949
Efri deild: 82. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í B-deild Alþingistíðinda. (617)

13. mál, ríkisborgararéttur

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Ég var ekki sammála meðnm. mínum um afgreiðslu þessa máls. Meiri hl. n. vildi samþ. frv. óbreytt, eins og það kom frá Nd. Þá lýsti meiri hl. fylgi við sérstaka reglu varðandi veitingu ríkisborgararéttar, að hann væri ekki veittur öðrum en þeim, sem fæddir eru á Íslandi og Norðurlandabúum, og taldi, að þessari reglu hefði verið fylgt undanfarið. En þetta er ekki rétt, og henni er sízt fylgt í því frv., sem hér liggur fyrir, því að þar er lagt til, að mönnum af öðru þjóðerni, t.d. Þjóðverjum, verði veittur ríkisborgararéttur. Meiri hl. n. vildi þó gera eina undantekningu og hún er sú, að nunnunum yrði veittur ríkisborgararéttur. (HV: Þarf þá ekki annað en verða nunna til að fá íslenzkan ríkisborgararétt?) Mér skilst, að það sé nægilegt. — Mín skoðun er sú, að allir, sem uppfylla víss skilyrði og eru nýtir þegnar, eigi að fá ríkisborgararétt, svo framarlega sem þeir ætla að setjast að hér á landi. Meiri hl. n. ber fyrir sig, að málinu sé teflt í tvísýnu, ef einhverjar breytingar væru samþ., en það getur ekki verið annað en tylliástæða, því að það er mikið eftir af þingtímanum, þó að segja megi, að þetta mál hafi tafizt að ástæðulausu.

Í Nd. virðist afgreiðsla málsins alls ekki hafa verið byggð á neinni reglu, en þó hefur einn maður, Heinz Karl Friedlander, verið tekinn út úr og ákveðið, að hann skyldi ekki öðlast ríkisborgararétt. Þessi maður er fæddur í Þýzkalandi, kvæntur og á börn. Hann hefur starfað hér sem vélamaður í mörg ár og getið sér gott orð, en honum hefur verið synjað, enda þótt hann vinni hér nytsamt starf í þágu þjóðfélagsins. Ég hef hér skjal, þar sem samstarfsmenn hans í vélsmiðjunni Héðni skora á Alþingi að endurskoða afstöðu sína og veita honum ríkisborgararétt. Það hljóðar svo, með leyfi forseta: „Við undirritaðir samstarfsmenn hr. Heinz Karls Friedhnders, vélamanns í vélsmiðjunni Héðni, leyfum okkur hér með að mótmæla harðlega þeirri afgreiðslu, er umsókn hans um íslenzkan ríkisborgararétt hefur nú á ný hlotið í Nd. Alþingis. Okkur er ljúft að votta, að téður Karl Friedländer er hinn vandaðasti maður í hvívetna, ágætur vinnufélagi og nýtur fyllsta trausts allra, er af honum hafa nokkur kynni. Við leyfum okkur hér með að skora eindregið á hv. Alþingi að taka þessa afgreiðslu til endurskoðunar að nýju og veita Heinz Karl Frledländer full og óskorin íslenzk ríkisborgararéttindi.“ — Þetta er bréf samstarfsmanna Karls, og undir það rita 139 menn. Ég bar þennan mann upp í nefndinni, en það var ekki við það komandi, að n. vildi taka hann upp, en um ástæðuna veit ég ekki, og væri fróðlegt að heyra, hver hún væri. Ég get nefnilega alls ekki séð, að þessi maður eigi minni rétt til þess að verða íslenzkur ríkisborgari en hinir, sem allshn. hefur mælt með, nema síður sé. — Hvað snertir aðrar till. þá mun ég fylgja öllum, sem sækja um þessi réttindi, ef þeir uppfylla þau skilyrði, sem telja verður réttmæt og nauðsynleg.