05.04.1949
Efri deild: 82. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 332 í B-deild Alþingistíðinda. (620)

13. mál, ríkisborgararéttur

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég held, að veiting ríkisborgararéttar fari aldrei vel, nema fylgt verði fastri reglu. Ég mundi t.d. fella mig við, að engum yrði veittur ríkisborgararéttur, nefna hann hefði dvalið hér 10 ár í einu og ætlaði sér að dvelja hér áfram. Og auk þess tel ég, að það yrði að vera ófrávíkjanleg regla, að umsækjandinn gerði fulla grein fyrir sínum högum og legði fram vottorð um það, hvernig þegn hann hefði reynzt. Nú virðast ýmsar reglur vera notaðar í þessu efni, og telur allshn. eða meiri hl. hennar sig hafa farið eftir, hvar viðkomandi umsækjendur væru fæddir, en frá því hafa þó verið gerðar undantekningar um nunnur. Þessa aðferð get ég ekki fellt mig við. Mér finnst ekki hægt að láta það ráða úrslitum um veitingu ríkisborgararéttar, hvort umsækjandinn er fæddur í Danmörku eða Þýzkalandi. Ég tel, að allt önnur sjónarmið eigi að ráða í þessu efni.

Ef við svo athugum afgreiðslu Nd. á þessu máli, þá er allt annað upp á teningnum, því að þar er ekki farið eftir fæðingarlandi umsækjanda. Nei, þvert á móti, það virðist alls ekkert hafa verið farið eftir því. Af þeim 53 umsækjendum, sem Nd. mælir með, eru 3 Austurríkismenn, 17 Þjóðverjar, 1 Pólverji og 1 Javamaður, með öðrum orðum, það er nærri helmingur þessara manna fæddur annars staðar en á Norðurlöndum. Það virðist því harla einkennilegt, ef allt aðrar reglur eiga að gilda um veitingu ríkisborgararéttar hér í Ed. en í Nd., og er alveg merkilegt, að meiri hl. í þingnefnd skuli halda slíkri fásinnu fram. Þá vil ég sérstaklega benda á umsóknirnar á þskj. 459. Þar er um að ræða konur, sem fæddar eru í Reykjavík, en hafa gifzt erlendum mönnum. Þessar konur vilja nú flytja heim aftur, en allshn. virðist ekki vilja taka við þeim. Það hefði ekki verið tekið þannig á móti karlmönnum, sem fæddir væru hér, þó að þeir hefðu gerzt ríkisborgarar annars staðar, en komið svo heim aftur og viljað verða íslenzkir ríkisborgarar á ný. Nei, af því að hér er um konur að ræða, og ekki nunnur, þá leggur nefndin á móti þessum umsóknum. Ég get ekki séð neitt réttlæti í slíkri afgreiðslu.

Varðandi Heinz Karl Friedländer, þá vildi ég gjarna fá upplýsingar um, hvort hann hefur dvalið hér 10 ár og hvort nokkuð sérstakt geti valdið synjun á umsókn hans. (BrB: Ég get upplýst strax, að þessi maður er búinn að dvelja hér síðan 1936 og hefur beztu meðmæli allra, sem honum hafa kynnzt.) Hvers á þessi maður þá að gjalda? Því hefur ekki verið svarað, og er því sýnilegt, að hér er um handahófsafgreiðslu að ræða eftir meginreglum siðspillingar kunningsskaparins á Íslandi.