05.04.1949
Efri deild: 82. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í B-deild Alþingistíðinda. (624)

13. mál, ríkisborgararéttur

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Hv. þm. Dal. er strangur og að hans eigin dómi eflaust réttlátur. — Með tvöfalda borgararéttinn skal ég upplýsa, að hann er ekkert einsdæmi. Það eru margir Íslendingar, sem hafa íslenzkan borgararétt og enskan jafnframt. Menn, sem fæddir eru í Bretaveldi, mega halda rétti sínum þar, þó að þeir síðar gerist borgarar í ættlandi sínu. Ég sé því ekki, að það komi að neinni sök, þó að sami maður sé um stund borgari í tveim löndum. Um konu þá, sem ég bar fram, er það að segja, að mjög vafasamt er, hvort hún fær skilnað frá manni sínum, nema hún fái fyrst borgararétt hér, og ef hún fær ekki réttinn, eru líkur til, að hún verði að halda áfram að vera gift manni sínum. Út af því, sem hv. frsm. sagði um skjöl þessarar konu, er mér sagt, að öll nauðsynleg skjöl hafi þegar borizt, og er andstaða n. því ekki byggð á því, heldur á því, að hún hefur ekki fengið skilnað við mann sinn. Hv. frsm. n. vildi láta skína í, að það gæti orðið milliríkjamál, ef þessar konur fengju ríkisborgararétt. Ég er ekki hræddur um, að slíkt komi fyrir. Ég veit, að Íslendingar lenda ekki í vandræðum út af því, enda eru margir svona staddir. Við verðum að gera okkur grein fyrir því, að þegar íslenzkar konur skilja við menn sína erlendis, þá eru þær um leið orðnar einstæðingar og eðlilegt, að þær leiti sér skjóls hér í ættlandi sínu. Og ef heimalandið vill ekki rétta þeim hjálparhönd, — hvar fá þær þá hjálp? Það vita allir, að mörg af þeim hjónaböndum, þar sem íslenzkar konur hafa gifzt út úr landinu, hafa ekki farið vel, og mér finnst sjálfsagt að rétta þessum konum hjálparhönd, ef þær vilja snúa heim aftur. Ég er ekki á sama máli og margir þeirra manna, sem hér hafa talað, um það að ávíta nefndina fyrir að veita nunnum ríkisborgararétt. Það gerir engan mismun, hvers konar atvinnu fólk stundar og hvort það vinnur fyrir kaupi eða ekki. Nunnur þessar vinna hér að mannúðarmálum, og ég hygg, að þær gætu fengið ríkisborgararétt í hvaða landi sem væri. Mér finnst því ekki ástæða til að benda á þetta sem dæmi upp á vinnubrögð nefndarinnar. Annars álít ég, að hér verði að setja skýrar reglur, sem hægt sé að fara eftir. Ég álít, að það eigi ekki að gera útlendingum auðvelt fyrir með að fá hér ríkisborgararétt, en ég álít, að um allt annað sé að ræða, þegar um er að ræða að veita ríkisborgararétt konum, sem eru íslenzkar í báðar ættir og eru fæddar hér og uppaldar, þótt þær svo hafi gifzt erlendum mönnum.