27.10.1948
Neðri deild: 7. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 347 í B-deild Alþingistíðinda. (649)

16. mál, áburðarverksmiðja

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Þess verður að gæta, að við afgreiðslu þessa máls er tekin einhver veigamesta ákvörðun um það, hvort hér skuli rekin stóriðja eða ekki í framtíðinni. Það er ánægjulegt, að þetta frv. hefur komið fram, og það er einnig ánægjulegt hvað hin fyrirhugaða framleiðsla hefur aukizt frá því, sem var í frv. í fyrra, sem bendir til þess, að ekki sé aðeins gert ráð fyrir að fullnægja þörfinni innanlands, heldur verði hægt að flytja eitthvert áburðarmagn út. En það er tvennt athugavert í sambandi við þetta frv., sem vel þarf að aðgæta. Í fyrsta lagi er frv. hugsað án samhengis við raforkuframleiðsluna, og í öðru lagi er ekkert tillit tekið til framleiðslumöguleika Íslands sem stóriðjulands. Varðandi fyrra atriðið þá er það rétt í grg. verkfræðingsins, sem rannsakað hefur málið, þar sem hann segir, að á næstu 5–10 árum verði ekki til meiri raforka. en sem nægi til að framleiða 7500 tonn af áburði árlega. En það á að ræða þessi mál í samhengi og gera um þau sameiginlegar áætlanir, en ekki rafmagnsmálin annars vegar og áburðarverksmiðjumálið hins vegar. Ef sýnt þykir, að praktískara sé að byggja stærri verksmiðju en þá, sem nú er fyrirhuguð, þá verður að gera plan um stærri raforkuver. Það getur ekki gengið, að hæstv. ríkisstj. reikni með því sem einhverju óhjákvæmilegu fyrirbrigði, hversu mikil raforka sé til á hverju ári. Ef hæstv. ríkisstj. vill stækka verksmiðjuna, þá á hún að flytja till. um ný raforkuver. En sá galli er á frv. varðandi þetta atriði, að sú nefnd, sem á að samræma og stjórna heildarframkvæmdum ríkisins, hefur hér ekki starfað sem skyldi. Fjárhagsráð fékk það hlutverk að samræma heildarframkvæmdir næstu ára, en starf þess varðandi þetta mál er algerlega ófullkomið, því að alla heildarhugsun vantar. Ég hef t.d. orðið var við, að það hefur leyft fyrirtæki hér í Reykjavík, sem koma til með að gleypa mikið af raforkunni, og þetta er gert án þess jafnframt að ráðgera ný raforkuver, svo að ég er jafnvel hræddur um, að það sé engin trygging í því, þótt rafmagnsstjóri segi, að 1951–52 verði nægileg raforka handa 7.500 tonna áburðarverksmiðju, þegar þannig er búið að leyfa önnur fyrirtæki, sem gleypa mikið af raforkunni. Í nál. mínu um frv. til l. um fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit segir annars svo um þessi mál, með leyfi hæstv. forseta: „Einmitt vegna þess, hve fiskveiðar vorar geta verið stopular og auðlind sú, sem fiskimið vor nú eru, getur þorrið í framtíðinni, ef oss misheppnast að fá þau vernduð og meira eða minna einokuð fyrir sjálfa oss með milliríkjasamningum, þá er nauðsynlegt, að núlifandi kynslóð hagnýti þann auð, sem hún eys upp úr sjónum, til þess að skapa sem fullkomnast framleiðslukerfi á landi til hagnýtingar þeirra auðlinda, sem sjálf jörðin, fallvötnin og jarðhitinn er. Stóriðja á grundvelli ódýrrar raforku er raunhæft framtíðarmarkmið fyrir Íslendinga, sem nú þegar þarf að fara að gera að veruleika. Hún er lífsnauðsyn til þess að skapa jafnvægi í atvinnulíf vort og draga úr áhættum þess. Og stóriðja hér á landi á þessum grundvelli hefði einmitt nú á byltingatímum tækninnar því betri möguleika sem vér gætum byrjað með nýjustu og fullkomnustu tækni á hverju sviði. En skilyrði allra þessara framkvæmda er heildaráætlun um þær allar alllangt fram í tímann, ella getur farið svo, að óvænlegt þyki að ráðast í stærstu virkjanir af ótta við, að markað skorti fyrir raforkuna, og samtímis þori menn ekki að leggja í stóriðju, eins og t.d. áburðarverksmiðju, af því að rafmagnið sé of lítið og of dýrt eða markaðurinn of lítill fyrir það mikla magn, sem framleiða þyrfti til þess að fá ódýra áburðarframleiðslu. En hins vegar gæti rannsókn, miðuð við samfellda heildaráætlun, leitt í ljós, að með stórvirkjun, er tilbúin væri t.d. 1952–53, fengist nógu ódýrt rafmagn handa áburðarverksmiðju (og auðvitað fleirum stórfyrirtækjum), og að slík áburðarverksmiðja gæti verið samkeppnisfær, ef landbúnaðurinn hefði þá t.d. fimm eða tíu sinnum meira ræktað land en nú og garðyrkja og gróðurhúsarækt hefðu margfaldazt. Og með því að þessar framkvæmdir á öllum þessum sviðum fylgdust að, yrðu þær allar mögulegar, — en einangraðar hver út af fyrir sig yrðu þær hins vegar ef til vill alls ekki gerðar.“

Mér er alveg ljóst, hvernig fara mundi um þær framkvæmdir, sem nú eru hafnar hér að stóriðju. Það fer þannig, að við kaupum dieselvélar, af því að raforkuframleiðslan er svo langt á eftir þörfinni og ekki eru gerðar nægilegar ráðstafanir af hálfu ríkisstj. til að flýta fyrir rafmagnsframleiðslunni.

Ég flutti þáltill. hér í fyrra ásamt hv. 6.landsk. þm. um viðbótarvirkjun Sogsins og Laxár, sem lokið skyldi við 1949. En við vitum, hvernig það er, það er jafnvel talað um, að þessar virkjanir komist ekki í kring fyrr en 1950 eða 1951. Við byggingu áburðarverksmiðju þarf að tengja aukna raforkuframleiðslu, annars verður rafmagnsskortur og við þurfum að kaupa dieselvélar. Við höfum nú reist rafmagnsstöð hér við Elliðaárnar, sem kostar 20 millj. kr., en framleiðir rafmagn með olíu. Og þetta hefur verið gert af því, að við erum of seinir á okkur með raforkuframleiðsluna og hugsum of lítið um að auka stóriðjuna með því að auka raforkuframleiðsluna.

Þá tek ég eftir því í þessu frv., að það miðast að langmestu leyti við áburðarframleiðslu handa íslenzkum landbúnaði. Það er í sjálfu sér eðlilegt, að hæstv. landbrh. hugsi frv. út frá íslenzkum landbúnaði fyrst og fremst. 2. gr. miðast við, að ríkið borgi það, sem á vantar, til þess að verð á íslenzkum áburði verði sambærilegt við erlendan áburð, og er þannig verið að tryggja kaupendur á kostnað ríkisins. En ég álít, að ekki eigi að hugsa út frá því, að verksmiðjan sé nálega eingöngu miðuð við þarfir íslenzks landbúnaðar. Ég álít, að þá fyrst sé gagn að verksmiðjunni, þegar ekki þarf að gefa með áburðinum. Að mínu viti þarf því að gerbreyta þessu frv. og rannsaka möguleikana á því að framleiða áburð í stórum stíl, svo að við græðum á framleiðslunni, en þurfum ekki að gefa með henni.

Við hér á Alþ. höfum öðru hverju talað um stóriðju, sem þyrfti að vera risin hér upp á árunum 1950–1960. Við höfum fyrst og fremst fossana sem orku, en hvaða hráefni? Við vitum um hráefnin, sem sjávarútvegurinn og landbúnaðurinn hafa upp á að bjóða. En ef við bætum við framleiðslugreinum, er að mínum dómi og margra annarra bezt að bæta við áburðarframleiðslu, nóg er af hráefni til hennar í loftinu, en fara t.d. ekki í aluminíumframleiðslu, vegna þess að hráefni til þeirrar framleiðslu þarf að flytja inn í landið. Þá verðum við að ganga út frá áburðarframleiðslu í stórum stíl. Norðmenn hafa ráðizt í stórfelldar fossavirkjanir, af því að þeir vildu nota fossaaflið til áburðarframleiðslu. Ég held því, að þegar við tökum ákvörðun um áburðarverksmiðju, þá verðum við að gera það upp við okkur fyrir fram, hvort við ætlum að framleiða í stórum stíl til útflutnings, eða aðeins 7.500 tonna verksmiðju, sem eftir ein 10–12 ár gerir ekki betur en framleiða fyrir íslenzkan landbúnað einan, eins og við vonum, að landbúnaðurinn eigi fyrir sér að þróast á næstu árum, og eins og hæstv. landbrh. líka sagði. Verksmiðjan yrði þá svo að segja eingöngu fyrir þarfir innlends landbúnaðar, nema lítill hluti af framleiðslunni fyrstu árin. Hins vegar er það ekkert efamál, að miklu stærri verksmiðja framleiðir miklu ódýrari áburð, t.d. tífalt stærri verksmiðja, m.ö.o. áburðarverksmiðja, sem væri fyrst og fremst miðuð við það, að gera áburð eitt aðalútflutningsverðmæti okkar, næst á eftir sjávarútveginum.

Þjórsá er okkar dýrmætasta vatnsfall, og þar eru Urriðafoss og fossarnir við Búrfell langbeztu fossarnir til virkjunar, eins og oft hefur verið rætt um hér á hv. Alþ. Hvort tveggja Urriðafoss og Búrfellsfossarnir væru stórvirkjanir á erlendan mælikvarða. Og ef við ætlum að virkja Þjórsá, hvað ættum við þá að framleiða með þeirri virkjun? Varla færi allt það rafmagn til smáframleiðenda, það væri beinlínis ópraktískt, enda þótt slík virkjun yrði smáframleiðendum afar mikilsverð vegna hins ódýra rafmagns, sem þeir fengju frá henni. En hvaða verksmiðju ætti þá fyrst og fremst að reisa við Þjórsá? Auðvitað fyrst og fremst áburðarverksmiðju. Mundum við ekki reka okkur á það, svona tveimur árum eftir að búið væri að stækka Sogsvirkjunina, að við værum farnir að hugsa um Þjórsá? Þar á fyrst og fremst að reisa áburðarverksmiðju, þessa áburðarverksmiðju. Ef hún væri reist annars staðar, mundi fljótt reka að því, að skortur yrði á rafmagni, en jafnframt mundi slík verksmiðja óbeint verða þess valdandi, að frekar yrði tregðazt við að ráðast í að reisa nýja stóra áburðarverksmiðju, því að það yrði óbeint til þess að eyðileggja gömlu verksmiðjuna og starfrækslu hennar, sem ekki gæti framleitt nærri eins ódýrt og nýja verksmiðjan, og menn mundu af skiljanlegum ástæðum skirrast við að gera eldri verksmiðjuna þannig óstarfhæfa og eyðileggja vélar hennar.

Við verðum að hugsa þetta ofurlítið fram í tímann. Er ekki rétt í sambandi við þetta frv. að athuga um ráðstafanir til að ráðast í stærri framkvæmdir, en það gerir ráð fyrir og haga raforkuframleiðslunni í samræmi við það? Og þó að útkoman yrði sú, að við réðumst í að virkja Þjórsá samtímis viðbótarvirkjun í Soginu, þá get ég ekki séð, að það væri hundrað í hættunni, því að fossaaflið er okkar dýrmætasta afl og gengur næst sjónum umhverfis landið og sjálfri moldinni. Ég held því, að sú n., sem fær frv. þetta til athugunar, ætti að athuga þetta gaumgæfilega og láta Alþ. skera úr um það, hvaða höfuðstefna verði tekin upp í þessum málum, hvort reisa á verksmiðju við afgangsrafmagn frá Soginu, sem tiltölulega fljótt yrði skortur á, eða virkja Þjórsá. Til þess þarf mjög mikið fjármagn, það er rétt, og þá hlið málsins þarf að rannsaka sérstaklega. En ég bendi aðeins á í því sambandi, að ef ráðizt væri í tífalt stærri verksmiðju, sem framleiddi 75,000 tonn í stað 7,500 tonna, þá væri útflutningsverðmæti þeirrar framleiðslu um 150 millj. kr. Það er enginn vafi á því, að áburðarframleiðsla er fyrirtæki, sem borgar sig vel. Ég er andvígur því að hugsa þetta eingöngu sem gróðafyrirtæki. Hitt er þó vitað, að á erfiðleikatímum hafa auðhringar, sem verzla með áburð, beitt hörðum tökum, og í slíkum tilfellum er öruggast að hafa stóra verksmiðju, svo að við séum samkeppnisfærir við stórframleiðsluna í Evrópu.

Við minntumst á þetta mál hér í fyrra, og ég veit, að hæstv. landbrh. hefur hugsað mikið um það. Ég held, að það sé kominn tími til að reyna að gera þetta mál upp. Ég er nefnilega hræddur um, að á vissan hátt sé verið að kippa möguleikunum undan væntanlegri stóriðju hér, sem ég tel hiklaust bundna við áburðarframleiðslu, ef ekki verður ráðizt í stærri framkvæmdir en þetta frv. gerir ráð fyrir. Við Íslendingar höfum verið á fáum en stórum sviðum í útflutningi okkar, sbr. fiskveiðar okkar, togaraútgerð og síldarverksmiðjur, og við höfum reynt að vera svo stórir í okkar tækni til þess að vera samkeppnisfærir á mörkuðum Evrópu, og ef við ætlum að hagnýta fossaflið, þá verðum við einnig að vera stórir á því sviði, við verðum að vera stórir á heimsmælikvarða á fáum sviðum, útflutningssviðum. Hins vegar mundi slík stórvirkjun fossaflsins gera okkur mögulegt að tryggja nóg og ódýrt rafmagn til landbúnaðarins og annarra neytenda hér á landi. — Ég vildi nú mælast til þess, að hæstv. landbrh. léti í ljós, hvort hann hefur nokkuð á móti því, að sú n., sem fær þetta mál, athugi um leið möguleika á að ráðast í stærri áburðarverksmiðju, en hér er ráðgert. En ég vil taka það skýrt fram, að með slíkri athugun, eða ósk eftir athugun, er ég ekki eða vil ekki tefja fyrir því, að áburðarverksmiðja komist upp. Þótt ráðizt yrði í að byggja stærra, en þetta frv. gerir ráð fyrir, ætti sú verksmiðja að vera komin álíka snemma upp, ef rannsókn væri hraðað og settur kraftur í þetta. En hvað snertir innflutning nauðsynlegs áburðar á meðan verksmiðjan kemst ekki upp, þá er hægt að kaupa hann utan Ameríku og utan við „Combined Foodboard“ ef í það fer og lögð er á það aukin áherzla.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir, að stofnkostnaður verksmiðjunnar verði 45 millj., og auk þess, að ríkissjóður borgi undirballans vegna framleiðslu dýrari áburðar, en kemur erlendis frá. Hér er því um stórt fjárhagsmál að ræða, og ég álít, að fjhn. eigi a.m.k. að fjalla um þetta frv. Mál, sem gera ráð fyrir jafngífurlegum fjárframlögum úr ríkissjóði, geta ekki farið í gegnum þingið án þess að koma til kasta fjhn. Hitt er rétt hjá hæstv. landbrh., að iðnn. og landbn. hljóta einnig að láta til sín taka. Ég teldi rétt að vísa frv. til fjhn. og hún hefði síðan samvinnu við landbn. og iðnn. um afgreiðslu þess, en án slíkrar samvinnu er óhugsandi að afgreiða slík stórmál.

Ég ætla auðvitað ekki að fara að ræða einstakar greinar frv. hér við 1. umr., en ég vil, að sú nefnd, eða nefndir, sem fær málið til meðferðar og afgreiðslu, athugi það og ræði mjög vel og ákveði stefnu Alþ.