27.10.1948
Neðri deild: 7. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í B-deild Alþingistíðinda. (650)

16. mál, áburðarverksmiðja

Steingrímur Steinþórsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. landbrh. fyrir flutning þessa frv. Það var flutt hér í fyrra, en er nú flutt aftur í dálítið breyttri mynd. Og frá því að málið lá hér fyrir Alþ. í fyrra, hefur hæstv. ráðh. beitt sér fyrir ýtarlegri rannsókn í sambandi við það, bæði með því að senda sérfróða menn til Ameríku til að kynna sér þar nýjungar á þessu sviði og hafa samráð við þá menn hér heima, sem mesta þekkingu hafa á þessum efnum. Allt hefur þetta leitt til þess, að mér virðist við standa allmiklu fastari fótum nú en í fyrra í þessu máli. Nú er t.d. nokkurn veginn vitað, að framleiðsla fljótandi ammóníaks (hálfframleidds ammóníaks) sé ekki komin á það stig, að málið tefjist af þeim sökum, en um þetta leyti árs í fyrra leit svo út, að þessa nýjung þyrfti að taka með í reikninginn í sambandi við byggingu áburðarverksmiðju.

Ég ræði ekki mikilvægi áburðarverksmiðju fyrir landbúnaðinn, það er öllum svo kunnugt og almennt viðurkennt. Það vantar tilfinnanlega áburð, eins og hæstv. landbrh. sagði, og því miður er ég hræddur um, að það hefði litla þýðingu að senda hv. 2. þm. Reykv. út af örkinni til að ná í nokkra skipsfarma af áburði, þó að hann talaði digurbarkalega um, að það væri hægt að útvega meiri áburð, en gert er. Það duga ekki eingöngu stór orð hér á Alþ. Við þekkjum hér þennan hv. þm., sem einn þykist vita allt betur en aðrir og slær um sig hér á öllum tungum með miklum bægslagangi. En það versta er, að enginn trúir því, sem hann segir, það er sett þannig fram, að ómögulegt er að trúa því.

Þá ætla ég að víkja að stærð verksmiðjunnar. Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að nákvæm rannsókn þyrfti að fara fram á því, hvort ekki ætti að reisa miklu stærri verksmiðju, en hér er ráð fyrir gert, og sagði, að málið væri hugsað án samhengis við raforkuframleiðsluna. En það er nú ekki rétt, því að byggingin er ákveðin í sambandi við aukningu Sogsvirkjunarinnar, og stærðin einmitt miðuð við það, að rafmagn til verksmiðjunnar megi fá á þennan hátt. En ég er sammála 2. þm. Reykv. um það, að sjálfsagt sé að athuga möguleika á stærri verksmiðju og þá í sambandi við stærri virkjun, en ég tek það skýrt fram, að það má ekki verða til þess að slá málinu á frest um langan tíma. En eigi að fara að tala um að láta áburðarverksmiðjuna bíða eftir virkjun, sem væri svo stór, að enginn hefði hugsað raunhæft um hana enn þá, þá óttast ég, að það mundi slá málinu á frest um marga áratugi jafnvel. Þetta vil ég taka skýrt fram. Hitt er sjálfsagt, að sú n., sem fær þetta mál, athugi alla þessa hluti, þó að sú athugun megi ekki verða til þess að fresta framkvæmd málsins.

Það er tiltölulega auðvelt að stækka þessar verksmiðjur. Það er því ekki rétt, að vélar 7.500 lesta verksmiðju yrði svo til að afskrifa, ef framleiða ætti áburð í miklu stærri stíl síðar meir. Það má hafa fleiri samstæður undir sama kerfi, svo að full not yrðu að þeim vélum, sem fyrir væru, þó að verksmiðjan yrði síðar stækkuð. Mér skildist á hv. 2. þm. Reykv., að við ættum ekki að ráðast í áburðarframleiðslu nema í mjög stórum stíl væri, það væri ekki hagkvæmt. En rannsóknir þær, sem liggja að baki þessa frv. ríkisstj., sýna, að það er hagstætt að reisa 7.500 lesta verksmiðju, en alls ekki minni verksmiðju. Hitt er náttúrlega alveg rétt hjá hv. þm., að sú stóra verksmiðja mun hafa meiri afkastagetu, en um leið minni framleiðslukostnað að einhverju leyti, en það er vert að athuga, að þessi stærð verksmiðjunnar, sem gert er ráð fyrir í frv., er talin heppileg að dómi sérfræðinga og að með henni munum við verða komnir upp á erfiðasta hjallann, hvað þetta atriði snertir, enda þótt stærri verksmiðja yrði ódýrari, hvað framleiðslukostnaðinn snertir. Það, sem ég vil leggja áherzlu á í þessu sambandi, er, að sá grundvöllur, sem nú er fundinn í þessu máli, verði ekki eyðilagður með hugmynd um miklu stórkostlegri framkvæmdir, því að ég hygg, að það mundi draga málið á langinn um langt árabil.

Hv. 2. þm. Rang. mælti eindregið með frv., og erum við þar algerlega sammála. En hann eyddi alllöngum tíma í að ræða um staðsetningu verksmiðjunnar, sem ég tel ekki rétt að ræða mikið á þessu stigi málsins. Hv. þm. virtist vera búinn nú þegar að taka ákveðna ákvörðun um, hvar sé sjálfsagt að reisa áburðarverksmiðjuna, og vill láta reisa hana í Þorlákshöfn. Mér dettur ekki í hug að neita því, að komið geti til athugunar, hvaða skilyrði eru þar fyrir hendi, þótt ég viti ekki, hve fljótt gengur með örugga höfn þar. Mér þykir líklegt, að áburðarverksmiðjan komi einhvers staðar á hinu stóra og fagra Suðurlandsundirlendi. Þar eru sjálfsagt góð skilyrði og kannske beztu skilyrði fyrir hendi, og þar er mikill áburður notaður, þó að hins vegar það sé alveg ofmælt hjá hv. 2. þm. Rang., að langmestur hluti tilbúins áburðar sé notaður þar, því dettur engum í hug að halda fram, sem hefur litið í áburðarskýrslurnar. Það má þess vegna ekki koma með slíkar fullyrðingar sem rök fyrir því, hvar áburðarverksmiðjan eigi að rísa. Mig undrar þessar fullyrðingar hv. þm.

Ég tel það algerlega rétt í frv., að staðsetja ekki verksmiðjuna, því að við getum gert okkur grein fyrir, hvílík togstreita gæti risið upp milli einstakra þm. um það, hvar verksmiðjuna ætti að reisa, ef ætti að fara að ákveða það nú, en það verður vitanlega að taka það faglega, reikna það út með sérstöku tilliti til, hvernig hægast er að fá raforku og hráefni til verksmiðjunnar o.fl. því viðkomandi, t.d. að taka tillit til, eftir því sem mögulegt er, að þægilegt sé að dreifa áburðinum út um landið. Þetta er vissulega það, sem ber fyrst og fremst að taka til greina, og málið er vissulega ekki svo rannsakað enn, að ég eða aðrir hv. þm. geti fullyrt, að neinn staður sé sjálfsagðari, en annar. Það hefur verið talað um Eyjafjörð í sambandi við Laxárvirkjunina, en nú er búið að tengja hana við Sogsvirkjunina væntanlegu, og tel ég víst, að það samband verði ekki slitið, a.m.k. með þessari stærð af verksmiðju, og geri ég ráð fyrir, að því verði ekki breytt og hún verði reist á hinu svokallaða umráðasvæði Sogsvirkjunarinnar, en þó svo nærri hafnarstað, að það valdi ekki erfiðleikum við dreifingu áburðarins. Þetta fannst mér ég mega til að taka hér fram við 1. umr. málsins. Ég held, að þessu máli sé ekkert gott gert með því að fara að þrefa hér á Alþ. um, hvar áburðarverksmiðjuna skuli reisa. Við verðum að treysta þar á sérfróða menn, sem munu taka allt slíkt til athugunar, þegar hafinn verður undirbúningur að þessum miklu framkvæmdum. Þótt hins vegar það geti verið ósköp eðlilegt, að einstakir hv. þm. setji fram sínar skoðanir og eftirlanganir í þessu efni, þá má það ekki tefja fyrir afgreiðslu þessa mikilsverða máls hér á hæstv. Alþ.

Hv. 2. þm. Rang. óskaði eftir, að málinu yrði vísað til iðnn., sem hann á sæti í, en þessu hefur alltaf verið, eins og hæstv. landbrh. tók fram, vísað til landbn. þingsins, og tel ég það í raun og veru eðlilegast, þó að hins vegar það gæti verið rétt, eins og hv. 2. þm. Reykv. minntist á, að eðlilegt væri að fjhn. fengi þetta mál til athugunar. Ef á að fara að vísa slíkum málum sem þessu til iðnn., sem hafa verið hjá landbn., þá væri einnig eðlilegast, að mál eins og síldarverksmiðjumál færu einnig til iðnn., en ekki til sjútvn., en það dettur engum í hug, að slík mál eigi að fara til iðnn. að öðru leyti en því, að hún hefur fjallað um það líka. En það er ekki hægt að segja annað en það spái góðu fyrir málinu hér í þinginu, hvað hv. þm. virðast sækjast eftir því að fá málið í sína n.

Það er ósk mín og von, hver svo sem niðurstaðan verður með n., að þetta mál verði rannsakað og undirbúið af fullri alúð og gætni, án þess að inn í það verði sett nokkur hreppapólitík hér á Alþ., og reynt verði að afgr. það í heild án þess.