27.10.1948
Neðri deild: 7. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í B-deild Alþingistíðinda. (654)

16. mál, áburðarverksmiðja

Einar Olgeirsson:

Það gleður mig, að hæstv. atvmrh. skuli a.m.k. ganga inn á það, að sjálfsagt sé að taka til athugunar og rannsaka þessar hugmyndir, sem ég kom með um stóriðju á Íslandi, en hann kvartaði undan því, að tíminn væri dýrmætur og ef við færum nú að undirbúa slíkar stórframkvæmdir, þá tæki það allt of langan tíma. Það hefði verið æskilegt, ef hæstv. stj. hefði séð þetta dálítið fyrr. Í mínum brtt. við frv. til. l. um fjárhagsráð 1947 lagði ég til, að þetta yrði höfuðverkefni fjárhagsráðs. Brtt. hljóðaði þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Fjárhagsráð skal undirbúa sem aðalverkefni sitt uppkomu stóriðju í landinu á grundvelli ódýrrar raforku og skal því leggja höfuðáherzlu á að láta fara fram nauðsynlegar undirbúningsrannsóknir og tilraunir, til þess að hægt verði á árabilinu 1950–55 að reisa slík raforkuver, er geti framleitt orkuna ódýrast og svo mikla, að hún nægi jafnt til sköpunar stóriðju hér sem til rekstrar vel rekins landbúnaðar og fiskiðju. Skal hvort tveggja athugað til hlítar: að reisa stærstu vatnsvirkjunarstöð, er völ sé á með tilliti til framleiðslu mikillar ódýrrar orku, sem og að hagnýta gufuhverina og jarðhitann í framleiðsluþarfir. Sérstaklega ber fjárhagsráði að sjá um, að viðkomandi ríkisstofnanir láti rannsaka til fulls virkjunarskilyrði við Urriðafoss í Þjórsá.

Þá skal ráðið annast rannsóknir á því, hverjum greinum stóriðju sé vænlegast að koma hér upp, bæði til framleiðslu fyrir innlendan markað (svo sem áburðarverksmiðju) og til útflutnings, og skulu í því sambandi einnig rannsakaðir möguleikar til innflutnings til þess að vinna úr hér, svo og vinnslu hvers konar efna úr sjó.“

Allar þessar tillögur voru kolfelldar af hæstv. ríkisstj. og fylgjurum hennar. Það var fellt, að láta fjárhagsráð fyrst og fremst rannsaka og undirbúa áætlanir um stóriðju á Íslandi, og ég er hræddur um, að fjárhagsráð hafi lítið unnið að þessu. Síðan er liðið hálft annað ár. Það er alveg eins og með togarana. Hæstv. stj. lætur tímann líða án þess að gera neitt. Svo kemur hún nú og segir, að það sé að tefja málið, ef á að fara að rannsaka það. Samt segir hæstv. ráðh., að rétt sé að rannsaka þetta mál nú, en það var hæstv. stj. ekki til í þá. Um það þýðir nú ekki að sakast, það er tapaður tími. En mig langar til að tala við þá, sem segja, að það þurfi að taka 10–15 ár að koma upp stóru raforkuveri og áburðarverksmiðju. Það þykir mér undarlegur hlutur. Það er auðvitað hægt að láta það standa yfir 20–30–50 ár með þeim seinagangi, sem er hér á hlutunum, en að það sé ekki tæknilega kleift að koma þessum framkvæmdum í kring á skemmri tíma en 20–15 árum, það þykir mér undarlegur hlutur. En fyrst hæstv. ráðh. vill láta þessar n. fjalla um málið, þá má ræða þá hlið betur síðar. Ég held, að það þurfi þá ekki að ræða málið miklu nánar nú. Ég vona, að n. rannsaki þessar hugmyndir, og svo má ræða málið nánar við 2. umr.

Viðvíkjandi því, sem hv. 2. þm. Rang. minntist á, að ég hefði sagt, að það væri hægt að útvega nógan áburð nú, þá tók ég eftir, þegar hæstv. atvmrh. gaf sína skýrslu, að reynt hefði verið að afla nógu mikils áburðar, með hverjum hætti það var gert. Aðaltilraunin var sú, að ákveðinn diplomatískur starfsmaður hjá sendiráðinu í Washington talaði við menn á skrifstofu þar vestra, sem úthlutaði öllum áburði heimsins. Er hæstv. stj. viss um, að allri áburðarframleiðslu heimsins sé ráðstafað gegnum þessa skrifstofu? Hefur hæstv. stj. gert ráðstafanir til að reyna að fá áburð keyptan hjá öðrum þjóðum, sem eru stórir áburðarútflytjendur? Mér er kunnugt um, að Sovétríkin framleiða mikinn áburð og flytja hann út í stórum stíl. (Atvmrh.: Ekki köfnunarefnisáburð.) Er hæstv. ráðh. viss um það? (Atvmrh.: Já.) Það skyldi þó ekki vera, að flutt hafi verið þaðan 40 þús. tonn til Þýzkalands. Það ætti að rannsaka vel og fá lagt fyrir þingið, hvaða tilraunir hæstv. stj. hefur gert til að fá slíka samninga. Ég skal ekki fullyrða, hvað út hefur verið flutt af hverri tegund, en hitt er vitað, að Sovétríkin hafa flutt stórkostlega mikið áburðarmagn til annarra landa.

Það má einnig á það benda, að Vestur-Þýzkaland framleiðir nú þegar mikið af áburði. Það má mikið vera, ef ekki er hægt að fá samninga við Þjóðverja um slíkan útflutning, þó að nokkur skortur sé þar á áburði nú á þessu ári. Það fer eftir því, hvað mikil viðskipti við höfum við þessar þjóðir, en bágt á ég með að trúa því, að ekki sé hægt að útvega þessi 2–3 þús. tonn, sem við þurfum, ef verzluninni væri hagað með það fyrir augum að ná í það. Ég veit, að hæstv. ráðh. vill gefa skýrslu um þær tilraunir, sem hafa verið gerðar til að kaupa þennan áburð. Mér þætti vænt um að fá upplýst, hvaða tilraunir hafa verið gerðar til að fá þennan áburð keyptan hjá Sovétríkjunum, en ég er hræddur um, að það hafi verið látið nægja að tala við þessa einu skrifstofu í Bandaríkjunum.

Annars álít ég það undarlega pólitík hjá Bandaríkjunum, að úthluta Íslandi svo litlum áburði. Ég veit, að það er sérstök pólitík, sem Bandaríkin fylgja með því að takmarka áburðarsölu til Evrópu. Það er til þess að minnka kornframleiðslu þessara landa, svo að samkeppnin við Ameríku verði þar minni. En hér á Íslandi er engu slíku til að dreifa. Íslendingar framleiða ekkert korn, svo að áburðarútflutningur hingað verður ekki til að auka samkeppnina á kornmarkaðinum við Bandaríkin eða Kanada, svo að það er aðeins af skriffinnsku, ef ekki er gengið inn á þessa málaleitun Íslands.

Ég álít, að ef áburðarverzlun á Íslandi væri frjáls, væri hægt að útvega þann áburð, sem þarf. En meðan stj. einokar áburðarverzlunina, er hægt að segja við bændur: Það er ekki hægt að fá þetta. En svo má deila um það hér í þinginu, hvort þetta hefði ekki verið hægt með því að stjórna landinu öðruvísi eða með því að gefa verzlunina frjálsa.

Út af orðum hv. 1. þm. Skagf., núverandi hæstv. forseta, vil ég segja það, að ég hef reynt að gera samninga fyrir Íslands hönd, og ég hef getað sannað með staðreyndum, að það hefur verið hægt að gera slíks samninga. Það þýðir því ekkert að koma með það fram fyrir þm., að það sé ekki hægt að gera slíka samninga. Ég hef sýnt, að það er hægt, og ég álít, að það ætti eins að vera kleift með áburð eins og aðrar vörur.