04.02.1949
Neðri deild: 58. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í B-deild Alþingistíðinda. (661)

16. mál, áburðarverksmiðja

Frsm. meiri hl. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Það er orðið langt um liðið síðan meiri hl. landbn. gaf út sitt nál. varðandi frv. til l. um áburðarverksmiðju. Hefur málið oft verið á dagskrá, en beðið hefur verið eftir, að minni hl. skilaði sínu áliti. Það var verið að útbýta því nú, á sömu stundu og hæstv. forseti tók málið til umr., en þar sem nál. minni hl. er alllangt og ýtarlegt, liggur það í hlutarins eðli, að ég get ekki rætt málið neitt út frá því á þessum fundi, þar sem enginn tími er til að kynna sér það, sem þar er fram tekið. Þetta vildi ég aðeins taka fram, en vil að öðru leyti lýsa störfum landbn. varðandi þetta frv. og lýsa þeim brtt., sem meiri hl. hennar flytur við frv. á þskj. 246.

N. kvaddi til viðtals við sig fyrst og fremst þá menn, sem stóðu að undirbúningi frv., eins og það var í fyrstu lagt fram af hæstv. ríkisstj., þ.e. þá Ásgeir Þorsteinsson forstjóra, Björn Jóhannesson jarðvegsfræðing og Jóhannes Bjarnason framkvæmdastjóra, en þeir hafa að mestu leyti starfað að samningu frv., og fylgir frv. álitsgerð þeirra, sem hv. þdm. hafa sjálfsagt kynnt sér. Í viðtölum landbn. við þessa menn kom ekkert nýtt fram, annað en dálítið fyllri upplýsingar, en annars aðeins nákvæmlega það sama og umsögn þeirra í frv. byggist á. Að vísu kom það fram, að það hafa orðið dálítil mistök við áætlun á raforkuþörf í einni áætlun þeirra, þar sem þeir áætla rekstrarkostnað við 5.000 smál. verksmiðju, en í raun og veru skiptir það ekki miklu máli, hvað þetta atriði snertir. Í öðru lagi kvaddi svo n. til viðtals við sig þá Jakob Gíslason raforkumálastjóra og Steingrím Jónsson rafmagnsstjóra. Ég sé, að í nál. minni hl. eru allýtarleg bréf og útreikningar frá þessum mönnum, en ég get vitanlega ekki rætt það nú né athugað, á hverju þetta byggist eða hvort í nál. eru nokkrar nýjar upplýsingar, umfram þær, sem þeir gáfu n. En það, sem þeir voru sérstaklega spurðir að í þessu sambandi, var, hvort þeir teldu, að hægt væri að tryggja áburðarverksmiðju með 5–10 þús. smálesta ársframleiðslugetu raforku með þeirri viðbótarvirkjun, sem nú er fyrir hendi hér við Sogið. Sérfræðingarnir svöruðu þessu játandi, en þó með þeim fyrirvara, að ef til vill yrði að fara fram viðbótarvirkjun, og því fyrr, þeim mun stærri sem verksmiðjan væri, eins og vitanlega gefur að skilja. Þeir bentu á það, sem landbn. var og sammála um, — ég hygg líka minni hl., — að ekkert vit væri í því að byrja á byggingu áburðarverksmiðju, af hvaða stærð sem væri, nema það sé algerlega tryggt fyrir fram, að nóg raforka fáist um eitthvert ákveðið árabil, sömuleiðis, að nógu snemma sé séð fyrir viðbótarvirkjun, þannig að aldrei þurfi að standa á því, að verksmiðjan geti starfað, vegna raforkuskorts, en jafnframt að hafa hitt í huga, að hún má ekki taka raforku frá nauðsynlegum iðnfyrirtækjum og almennum notum. Ég vil lýsa því yfir, að meiri hl. n. leggur á það megináherzlu við áframhaldandi undirbúning þessa máls, ef frv. verður samþ., að ríkisstj. gæti þess, að ekki verði ráðizt í að byggja áburðarverksmiðju, nema fyrir þessu sé séð. Hins vegar er meiri hl. landbn. samþykkur því, að mikil þörf sé hér fyrir iðjuver eins og þetta, og mundi viðhorf landbúnaðarins breytast geysimikið við það, einkum á þann hátt, að miklu öruggara yrði með því, að nægilegt áburðarmagn fengist til áframhaldandi ræktunar og til þess að hafa nægilegan áburð á hið ræktaða land, jafnvel þó að okkur sé það ljóst, að áburðarþörfinni er ekki fullnægt með köfnunarefninu einu, því að við þurfum einnig kalí og fosforsýru, en þó svo sé, þá er það þó bæði hvað stærð og verð snertir geysilega stórt atriði til þess að gera landið sjálfbjarga á þessu sviði, að framleiddur sé köfnunarefnisáburður hér innanlands. Ég vildi sérstaklega leyfa mér að taka þessi atriði fram varðandi þann grundvöll, sem þetta mál hlýtur að byggjast á, en það er raforkuþörfin, og að það liggi alveg ljóst fyrir, hvað vakir fyrir landbn. viðvíkjandi þessu atriði. Hitt kemur n. svo ekki inn á í þessu sambandi, hvort nægileg raforka fáist við viðbótarvirkjun Sogsins eða hvort jafnvel þurfi rafmagn annars staðar frá. Það er ekki verkefni n. út af fyrir sig, eins og gefur að skilja.

Ég mun svo koma að brtt. landbn., á þskj. 246. 1. brtt. n. er við 1. gr. frv., og er um það, að í staðinn fyrir, að í frv. ríkisstj. er gert ráð fyrir, að stærð verksmiðjunnar sé miðuð við það, að framleiðslugeta hennar sé 2.500–7.500 smál. af köfnunarefni, þá gerir n. það að till. sinni, að ársframleiðslan verði 5.000–10.000 smál. Við ræddum allmikið um þetta við þá sérfræðinga, sem við kvöddum á fund okkar, hvað verksmiðjan mætti vera minnst, til þess að hún gæti orðið samkeppnisfær miðað við verð tilbúins áburðar flutt erlendis frá. Og þó að þeir slægju þann varnagla, að ekki væri hægt að gefa ábyggilegar upplýsingar um þetta, þá hafa þeir þó í sinni greinargerð bent nokkuð á þetta. Það virðist liggja í augum uppi, að því stærri sem verksmiðjan er, þeim mun ódýrari verði hver eining af köfnunarefninu, sem hún framleiðir, og það voru allir sammála um, að það kæmi ekki til mála að byggja nokkurn tíma það litla verksmiðju, að hún væri aðeins miðuð við 2.500 smál. framleiðslugetu. Allt annað kemur fram, þegar verksmiðjan er komin upp í 5.000–10.000 smál. ársframleiðslugetu. Þá er sá munur, sem verður á framleiðslukostnaði hverra 1.000 t., mun minni. Við fáum því ódýrari áburð, því meiri sem ársframleiðslan er. Það er síður en svo, að allir nm. hafi litið sömu augum á þetta, jafnvel meiri hl. n. leit dálítið misjöfnum augum á, hvað rétt væri í þessu efni. Sumir nm. meiri hl. lögðu meiri áherzlu á það, en aðrir, að verksmiðjan yrði sem stærst, einmitt út frá því sjónarmiði, að rekstrarkostnaður á hverja einingu í lítilli verksmiðju yrði það mikill, að hætt væri við, að hún gæti ekki staðizt samkeppni við sömu vöru erlendis frá. Það varð því að samkomulagi í n. að leggja til, að þessi takmörk yrðu sett, frá 5.000–10.000 smál. Ég skal geta þess, og ég held, að það hafi verið álit okkar allra í meiri hl., að við óttumst það, að tilgangslaust muni vera, á þessu stigi málsins að gera ráð fyrir, að meginframleiðslan frá þessu iðjuveri verði til útflutnings. Við lítum svo á, að þessi verksmiðja eigi fyrst og fremst að fullnægja þörf Íslands fyrir köfnunarefnisáburð, eins og nú er og eins og sú þörf verður á næstu árum. Auk þess getur svo verið um nokkra umframframleiðslu að ræða, sem þá er hægt að nota til útflutnings. Við reyndum að afla okkur upplýsinga um það, ef byggð yrði verksmiðja með 3.000–7.000 eða 10.000 smál. ársframleiðslu, hvort ekki væri hægt að nota hana sem hluta af stærra iðjuveri, ef ákveðið væri að stækka verksmiðjuna síðar, t.d. upp í 20.000–30.000 eða jafnvel 50.000 smál. framleiðslugetu. Eftir þeim upplýsingum, sem við fengum, er hægt að nýta mjög mikið af verksmiðjuvélunum að fullu í stærri verksmiðju, þannig að ef það reyndist hagkvæmara að stækka þá verksmiðju síðar að fenginni reynslu, sem fyrst yrði byggð, þá er það síður en svo, að þeim peningum sé á glæ kastað, sem verksmiðjan yrði í fyrstu byggð fyrir. Meiri hl. n. vill leggja áherzlu á það, að þeir hlutar verksmiðjuvélanna, sem siður kæmu að gagni í stærri verksmiðju, yrðu að einhverju leyti miðaðir við meiri framleiðsluþörf. Meiri hl. n. þorði ekki, — það þykir kannske ekki karlmannlegt að segja svo, en stundum verður maður að láta þá litlu skynsemi, sem manni er gefin, stjórna því, sem maður segir, — hún þorði ekki að leggja til, að ráðizt yrði í að byggja áburðarverksmiðju með margra tuga þús. smál. ársframleiðslugetu köfnunarefnis. Þá yrði 70–80% framleiðslunnar byggt á útflutningi. Þekking meiri hl. landbn. og flestra hv. þm. er mjög takmörkuð á þessum hlutum, en hins vegar vitum við vel, hvernig yfirleitt hagar til í öðrum löndum um framleiðslu köfnunarefnis, hvernig sú framleiðslugrein er einokuð af stórum hringum, sem brjóta undir sig þá, sem vildu keppa við þá. Og eins og nú háttar um framleiðslu hér hjá okkur, þá óttuðumst við, að það gæti verið hættulegt að leggja svo geysimikið fjárframlag sem þarna um ræðir í verksmiðju til þess að hugsa um stórkostlegan útflutning á þessari einu vörutegund. Við miðuðum því okkar till. um stærð verksmiðjunnar við það, að hún fullnægði innanlandsmarkaðinum um nokkurt árabil, en yrði þó dálítill útflutningur á því, sem um fram væri. Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þessa fyrstu brtt., en þar sem það var einkum þetta atriði, sem mér virtist valda því, að hv. 8. þm. Reykv. skildi sig frá okkur, þá vildi ég taka okkar afstöðu fram eins greinilega og ég hef séð mér fært. Eins og ég tók fram, var skoðun meiri hl. dálítið skipt um þetta atriði, og verða hv. meðnm. mínir að gera grein fyrir sinni afstöðu, ef ég skyldi ekki að öllu leyti hafa farið rétt með sjónarmið meiri hl. almennt.

Næsta brtt. n. er við 4. gr. Í frv. er gert ráð fyrir, að landbrh. skipi verksmiðjustjórnina þremur mönnum til 4 ára í senn. Landbn. gerir það að till. sinni, að þessir nefndarmenn verði ekki skipaðir af ráðh., heldur kosnir með hlutfallskosningu í Sþ. til sama tíma, 4 ára. Ég skal taka það fram, fyrir mitt leyti, að ég legg ekki mikið upp úr þessari brtt. Ég hef tekið eftir því, að í l. um sementsverksmiðju er gert ráð fyrir, að ráðh. skipi þrjá menn í verksmiðjustjórn.

3. brtt. er við 5. gr. Greinin er umorðuð lítils háttar, en í raun og veru er þar ekki um efnismun að ræða. Meiri hl. n. þótti heppilegra að orða gr. öðruvísi. Í frv. stj. er upphaf 5. gr. svona, með leyfi hæstv. forseta: „Fyrsta stjórn verksmiðjunnar ákveður, hvenær og hvar hún skuli reist, enda komi samþykki landbúnaðarráðherra til.“ Telur n. ástæðulaust að orða þetta svona, því að ekki sé hægt að vita með vissu, að fyrsta stjórn verksmiðjunnar mundi ákveða þetta, þar sem hún gæti verið úr sögunni, áður en að því kæmi, og þess vegna eðlilegra að orða þetta eins og gert er í brtt.

Loks er hér brtt. við 8. gr., síðari málsgr. Höfum við lagt til, að því verði breytt, sem í frv. stendur, en það er svo: „Skal áburðarsalan í byrjun hvers árs gefa verksmiðjustjórn til kynna áætlað áburðarmagn, sem framleiða þurfi það ár.“ Þetta er hugsunarvilla. Áburðarsalan á að gefa upplýsingar um áburðarþörfina innanlands, en ekki magnið, er framleiða skuli. Því er lagt til af okkur, að frv. sé komið í það horf, sem í brtt. segir: að áburðarsalan láti „verksmiðjustjórninni í té áætlun um áburðarmagn til innanlandsnotkunar það ár.“ Nefnilega á að gefa upp þörfina. Till. kom fram í n., að það mætti leggja niður áburðarsöluna. Yrði það heppileg ráðstöfun, því að skynsamlegt væri, að verksmiðjan sjálf annaðist söluna, þegar eigi þyrfti að flytja lengur áburðartegundir til landsins. En nm. voru sammála um að bera enga brtt. fram í þessa átt. Við vitum ekki, hve langt mun liða, þar til er svona verksmiðja er komin upp. En ég vildi geta þessa við umr., því að sumir nm. hafa hug á að fylgja till. eftir.

Ég hef þá lýst brtt. meiri hl. landbn. við frv., og viljum við að lokum láta í ljós, að hér er um mikið og merkilegt mál að ræða. Er sjálfsagt að reisa hér áburðarverksmiðju. Allt virðist benda til þess, að margar þjóðir muni reyna að tryggja sér næga áburðarframleiðslu í eigin landi, og samkv. upplýsingum, sem fengizt hafa, munu margar áburðarverksmiðjur verða byggðar í Evrópu, er mun vera orðin sjálfri sér nóg eftir 3–4 ár varðandi áburðarþörf sína, en ekki fyrr. En austur í Asíu eru fyrirhugaðar miklar nýræktarframkvæmdir, og mun því verða mikill markaður fyrir áburð þar, þó að þau lönd freisti framleiðslu áburðar sjálf. Mér virðist því litlar líkur vera til þess, að við getum selt viðskiptalöndum okkar í Evrópu. Ég held, að verði að leita lengra burt, þar til að iðjuverin eru komin upp, þau er fullnægja muni þörfinni.

Ég man nú ekki eftir fleiru í svipinn, sem ástæða er til að taka fram. Mun ég kynna mér nál. minni hl., en hann mun nú brátt skýra frá sérstöðu sinni.