07.02.1949
Neðri deild: 59. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í B-deild Alþingistíðinda. (668)

16. mál, áburðarverksmiðja

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Ég vildi gera eina fyrirspurn til hæstv. atvmrh. í sambandi við þetta frv. Það er varðandi 3. gr., þar sem gert er ráð fyrir, að verksmiðjan verði sjálfseignarstofnun með sjálfstæðri stjórn. Mig langar að fá upplýsingar um, hvað er átt við með því, að verksmiðjan verði sjálfseignarstofnun, hvort hér er um að ræða, að verksmiðjan beri sjálf ábyrgð á rekstri sínum, eða ber ríkissjóður eftir sem áður ábyrgð á rekstrinum? Í l. um síldarverksmiðjur ríkisins var ekkert ákvæði um það, hver bæri ábyrgð á rekstri þeirra. En svo var sett ákvæði um það í l. frá 1938, 7. gr., að ríkissjóður bæri ekki ábyrgð á rekstrinum eftir 31. des. 1937, nema slíkt væri heimilað af Alþingi. Þar þótti ástæða til að setja sérákvæði um þetta atriði, og má af því skilja, að ella væri álitið, að ríkið bæri ábyrgð á rekstrinum. Nú virðist mér nokkur munur gerður á atvinnuvegunum eftir þessu frv., því að hér segir í 2. gr., að ríkið leggi fram óafturkræft fé, enn fremur, ef lán yrði tekið, þá skal það að vísu endurgreiðast á 15 árum, en vexti greiði ríkissjóður, ef þörf krefur, til að verðið verði sambærilegt við verð á erlendum áburði. Aftur er í 11. gr. l. um síldarverksmiðjur, að eigendum skuli greiða söluverð afurða þeirrar síldar, sem tekin er af þeim til vinnslu, að frádregnum þeim kostnaði, sem hér segir. 1. Stjórnarkostnaði og öðrum venjulegum rekstrarkostnaði, þar með taldir vextir af stofnkostnaði eins og hann er á hverjum tíma. 2. Afborgun af stofnkostnaði síldarverksmiðjanna, svo sem um er samið á hverjum tíma við lánveitendur eða ríkissjóð. 3. Ekki minna en 2% fyrningargjöld af húsum og mannvirkjum og 5% af vélum og áhöldum. 4. 5% gjald í varasjóð. Mér finnst á sama hátt og hér er gert að minnsta kosti þurfa að gera ráð fyrir þeim kostnaði, sem áburðarverksmiðjunni er ætlað að greiða, og þar sem hér í frv. er hvorki gert ráð fyrir endurgreiðslu stofnkostnaðar né vöxtum, þá finnst mér verið að binda ríkissjóði bagga, sem enginn veit, hversu þungir eru, en það tel ég mjög varhugavert og blátt áfram óhyggilegt, eins og hagur ríkissjóðs er nú. Nú kann að vísu að vera hér um svo mikið gróðafyrirtæki að ræða, að það sé ekki þörf á neinum ákvæðum um þessi atriði, en allur er varinn góður.

Ég ætla þá að víkja dálítið að frv. og þeim umr., sem fram hafa farið um málið. — Ég vil taka undir með 2. þm. Reykv., að það væri mjög mikilsvert, að við gætum framleitt útflutningsvöru, sem ekki væri bundin við sjávarafurðir. Útflutningsvara okkar er allt of einhliða og þess vegna mikils virði, ef við gætum komið gjaldeyrisöfluninni á breiðari grundvöll. Norðmenn, sem mikið lifa á fiskveiðum, eru þrátt fyrir það ekki bundnari þeim en svo, að fiskverðmætið er ekki nema 15% af norsku þjóðartekjunum Það má því segja, að það væri mjög heppilegt fyrir okkur Íslendinga, ef við gætum komið upp stóriðnaði eða einhverjum rekstri, sem gæfi okkur gjaldeyri. Þar sem litlar líkur eru fyrir námugrefti hér, a.m.k. eins og nú háttar, þá er það helzt fossaaflið, sem gæti leitt okkur inn á iðnaðarsviðið, auk þess sem jarðhitinn gæti líka orðið góð stoð og er það að vísu nú þegar. Í sambandi við það að reisa áburðarverksmiðju, sem rekin væri með rafmagni frá nýju Sogsvirkjuninni, þá er rétt að gefa gaum að orðum rafmagnsstjóra, en hann segir, að það muni verða mjög lítill afgangur til verksmiðjurekstrar. Rafmagnsnotkun er alltaf að aukast, og nú hafa verið lagðar linur suður með sjó og nokkuð um Suðurlandsundirlendið og full vissa er fyrir, að rafmagnsnotkun á þessum stöðum mun mjög aukast á næstunni. Það er því full ástæða til að rafmagnsnotkunin muni vaxa meira en rafmagnsstjórinn í Rvík tiltekur. Ég er ekki að leggja dóm á það, hvort byggja beri 30 þús. tonna verksmiðju, og vil í því sambandi taka undir orð atvmrh., að það mál þurfi rækilegrar rannsóknar við og það miklu rækilegri rannsókna,r en öll venjuleg mál.

Í sambandi við hið svonefnda Marshalllán fyndist mér mjög vel athugandi, hvort ekki væri rétt að nota þá aðstoð, ef samningar tækjust, til þess að virkja Þjórsá. En með slíkri virkjun fengist mikill grundvöllur fyrir stóriðju í landinu. Ég vil sérstaklega beina því til atvmrh., hvort ekki væri hægt að fá erlenda sérfræðinga í sambandi við Marshallaðstoðina til að rannsaka aðstæður hér til slíkrar virkjunar. Það mun hafa verið ákveðið að verja allmikilli upphæð af Marshallaðstoðinni til slíkrar sérfræðingaaðstoðar. Ég er ekki með þessu að bera brigður á hæfni okkar sérfræðinga, en vegna hinnar miklu þróunar í Ameríku á sviði tækninnar, mættu það vera miklir sérfræðingar, sem ekki gætu lært af Ameríkumönnum í þessu efni. Ég vildi þess vegna mjög beina því til hæstv. ríkisstj. að athuga, hvort ekki væri rétt að leita eftir sérfræðilegri aðstoð einmitt í gegnum Marshallaðstoðina í þessu efni. Það er því meira áríðandi fyrir okkur að leita eftir sérfræðilegri aðstoð sem allra víðtækastri og gera okkur fulla grein fyrir, hvernig þessum málum er háttað, af því að við höfum á undanförnum árum rekið okkur talsvert á í því, sem við höfum lagt út í að reisa sjálfir. Ég skal ekki fara út í það atriði hér, en dæmin um það eru því miður deginum ljósari og öllum kunn. Við þurfum áreiðanlega í þessu efni að gera okkur allt ljóst, áður en út í fyrirtækið verður ráðizt, hvað fyrirtækið á að kosta, hvað við þurfum að hafa á hendi til þess að greiða kostnaðinn, og við þurfum að gera okkur ýtarlega grein fyrir rekstrarkostnaði verksmiðjunnar. Ég ber mikið traust til hæstv. atvmrh., að hann láti rannsaka þetta mál, og ég vildi mjög ítreka það, að athugað yrði um sérfræðinga í því efni og í sambandi við Marshallaðstoðina.

Að öðru leyti vildi ég segja það, að það er ákaflega ánægjulegt að heyra það frá hv. 2. þm. Reykv., hve mikið hann leggur upp úr samstarfi vesturveldanna og hve miklum árangri hann býst við, að hægt sé að ná út úr þeirri aðstoð og þeirri samvinnu, ef ríkisstj. leggur sig fram í þeim efnum. Það er sannarlega meira en bjartsýnustu menn í þessum efnum hafa gert sér grein fyrir, ef hægt væri að ná svo stórkostlegri fossavirkjun og reisa slíkar verksmiðjur vegna Marshallaðstoðarinnar. Mér skilst, að það sé í raun og veru eina leiðin til þess að koma fram þeim till., sem hér eru á dagskrá, að reyna að fá þar bæði meiri og minni hl. þingsins með. En í sambandi við útlendan áburð er gott, að menn geri sér það ljóst, að áburður er það, sem kallað er dollaravara, við verðum að borga áburðinn nú að mestu leyti í dollurum, og ef við höfum áburð til útflutnings, þá mundum við selja hann í þeim gjaldeyri, sem við gætum keypt fyrir vörur í hvaða landi sem væri. Þetta er enn eitt atriðið, sem gerir það nauðsynlegt, að þetta mál verði rannsakað sem allra rækilegast.