11.02.1949
Neðri deild: 63. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í B-deild Alþingistíðinda. (675)

16. mál, áburðarverksmiðja

Frsm. meiri hl. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Þessi umr. er nú búin að dragast lengi, og ætla ég ekki að bæta miklu við, en víl þó segja örfá orð út af því, sem fram hefur komið.

Aðaldeilan í þessu máli hefur staðið um það atriði, hversu umrædd verksmiðja skuli vera stór. 2. þm. Reykv. hefur lagt áherzlu á það í umr., að sjálfsagt sé, að stærð verksmiðjunnar sé miðuð við 30–50 þús. smál. framleiðslu af köfnunarefni, og miðar við stórkostlegan útflutning á þessari vöru. Það er enginn skoðanamunur um það, að æskilegt væri að reisa svo stóra verksmiðju, ef það væri hægt og öryggi fengið um markað fyrir framleiðsluna. En hitt verður vafamál, hvort skynsamlegt er að ráðast í slíkar framkvæmdir undir þeim kringumstæðum, sem fyrir hendi eru, og í algerri óvissu um markaði. Þessi sami þm. vildi gera grín að okkur í meiri hl. landbn. og orðaði það á þá leið, að meiri hl. n. hefði ekki þorað að leggja til að byggja stærri verksmiðju, en sem miðuð væri við 10 þús. smál. afköst, og í sama strenginn tók blað þessa hv. þm. Ég læt mér slíkt litlu skipta, en hins vegar vil ég benda 2. þm. Reykv. á, að það er meira en hugrekki, sem þarf til að reisa 30 þús. smál. áburðarverksmiðju. Það þarf til þess kapítal, hvorki meira né minna en nokkur hundruð millj. Þetta fjármagn er ekki til í landinu, og til þess að nokkurt vit væri í því að leita eftir þessu fjármagni erlendis, þarf að minnsta kosti að vera einhver trygging fyrir, að hægt verði að selja framleiðslu umræddrar verksmiðju. Það er enginn vafi, að við mundum lenda í harðri samkeppni við þá, sem þegar framleiða köfnunarefni. Í þeirri samkeppni er mjög hætt við, að við yrðum að sæta óhagstæðari mörkuðum, þó svo að sala væri möguleg, því að þær þjóðir, sem nú framleiða þessa vöru, hafa þegar tryggt sér markaði og mundu að öllum líkindum halda þeim. Þetta gæti leitt til þess, að við værum neyddir til að leita markaða í Asíu, en margir örðugleikar væru á slíkri verzlun, þó að ekki væri nema vegalengdin.

Þeir frsm. minni hl. landbn. og 2. þm. Reykv. hafa mjög haldið á lofti ummælum rafmagnsstjóra og raforkumálastjóra um það, að raforka frá hinni fyrirhuguðu Sogsvirkjun muni ekki nægja fyrir áburðarverksmiðju, þó að hún væri ekki stærri en 5–7 þús. smál. framleiðsla af köfnunarefni. Ég verð að segja, að það er ekki samhljóða því, sem þessir sömu sérfræðingar héldu fram, er þeir mættu á fundi landbn., og hafa þeir þá skipt um skoðun síðan. Annars er enginn ágreiningur um það, að verksmiðjan verður að fá nægilega raforku, og ef það rafmagn, sem fæst frá Soginu, þegar það hefur verið fullvirkjað, nægir ekki, þá verður það að koma annars staðar frá, svo að ég sé ekki, að þessar upplýsingar breyti neinu. Þá sé ég ekki, að það kæmi á nokkurn hátt í veg fyrir, að við getum aukið þessa framleiðslu, ef sölumöguleikar reyndust góðir, þó að við hæfum þessa framleiðslu í verksmiðju eins og meiri hl. landbn. leggur til, að verði reist, því að alltaf eru möguleikar til að færa út kvíarnar. Hins vegar er ég á þeirri skoðun, að með því að samþ. nú að reisa áburðarverksmiðju, sem miðuð væri við að framleiða 30–60 þús. smál., þá mundi það hafa sömu afleiðingar og ef við legðum málið algerlega á hilluna, a.m.k. fyrst um sinn. Af þessum ástæðum tel ég rétt að samþ. þá till., sem meiri hl. landbn. leggur fram. Og fari svo, að draumar 2. þm. Reykv. elgi eftir að rætast, sem við óskum allir eftir, þá ætti slík verksmiðja að geta orðið liður í stærra kerfi. Ég hef svo ekki fleiri orð um þessa hlið málsins, en get að sjálfsögðu ekki fallizt á brtt. minni hl. landbn. af þeim ástæðum, er ég hef þegar greint.

Um 2. brtt., við 2. gr. frv., frá minni hl. landbn. og sömuleiðis brtt. frá 5. þm. Reykv. við sömu grein, er það að segja, að meiri hl. landbn. vill gjarna ræða þær og freista samkomulags um þau atriði, sem þar er drepið á, og þess vegna vil ég fara þess á leit við hv. flm., að þeir sjái sér fært að draga þessar brtt. til baka til 3. umr.

Þá er 3. brtt. frá minni hl. landbn., við 4. gr., þess efnis að fjölga nefndarmönnum í stjórn verksmiðjunnar úr 3 í 5. Þessi till. hefur ekki verið rædd í nefndinni, en hins vegar get ég tekið það fram nú, að ég tel ekki ástæðu til að fjölga í þessari nefnd, og má benda á, að ekki er gert ráð fyrir nema 3 mönnum í stjórn fyrirhugaðrar sementsverksmiðju, enda mun vera nægur kostnaður við stjórnina, þó að nefndarmenn séu ekki nema 3. Þetta er afstaða mín til þessarar brtt., en hins vegar ræður frsm. minni hl., hvort hann tekur þessa brtt. aftur til 3. umr.

Um 4. brtt., við 9. gr. frv., varðandi útsvarsskyldu verksmiðjunnar er öðru máli að gegna, því að fleiri nefndarmenn hafa rætt um, að þörf væri að athuga ákvæði 9. gr. Þess vegna vildi ég leyfa mér að óska eftir, að flm. tæki hana aftur til 3. umr., svo að öll nefndin gæti rætt þetta atriði. — Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða þetta frekar.