18.02.1949
Neðri deild: 67. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 408 í B-deild Alþingistíðinda. (686)

16. mál, áburðarverksmiðja

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Eins og mál þetta er í sjálfu sér nauðsynlegt og gott, þá sýnast mér allar horfur á, að afgreiðsla þess hér á Alþ. verði algerlega blekking gagnvart þjóðinni. Og ef svo fer, verður það hv. þm. sjálfum að kenna, að svo verður, því að þeir hafa haft tækifæri til þess að gera þetta mál þannig úr garði, að það gæti staðið á raunhæfum grundvelli. — Ég hafði búizt við því, að hæstv. ráðh. mundi gefa dálítið skýrari yfirlýsingar viðvíkjandi fjárspursmálinu, en hann hefur gert, sökum þess að við 2. umr. þessa máls, þá var það notað sem ein aðalröksemd á móti því að reisa 30 þús. smál. áburðarverksmiðju, að það mundi ekki verða hægt að fá fé. Nú bendir hæstv. ráðh. á það, að auðvitað sé það eina vonin, sem hann hafi um fé til litlu verksmiðjunnar, að það fáist Marshalllán.En þá lægi sú spurning fyrir honum og hæstv. ríkisstjórn, ef það væri í raun og veru svo, að ríkisstj. ætlaði að taka t.d. 200 millj. kr. að láni sem lán eða gjöf, á hvern hátt hún gæti hagnýtt það fé sem bezt, hvort hún gerði það með því að setja upp fyrirtæki hér innanlands, sem væru tapfyrirtæki, af því að þau væru svo smá, eða hvort hún gerði það með því að setja upp fyrirtæki, sem sköpuðu verulegan útflutning og væru þannig grundvöllur fyrir lífsafkomu þjóðarinnar. — Ég ætla að skjóta því hér fram einu sinni enn þá, fyrst hæstv. ráðh. minntist á þann möguleika, og spyrja hann að því, hvernig hann héldi, að honum mundi verða svarað, ef hann kæmi til einhvers bankastjóra erlendis eða ríkisstj. eða fulltrúa eða forstjóra Marshallhjálparinnar og ætlaði að ræða mál eins og þetta á venjulegum grundvelli og hann kæmi með tvær uppsetningar, annars vegar áætlun um byggingu verksmiðju fyrir 44 millj. kr., sem ætti að gefa af sér samkvæmt þessum útreikningi um 4 millj. kr., ef bændur væru látnir borga fullt útsöluverð fyrir áburðinn, en þar væri það ákvæði sett inn í, að bændur skyldu fá áburðinn fyrir kostnaðarverð og þeir mundu fá meiri hluta framleiðslunnar til sín, og þá mundi þessi reikningur, sem þessi ráðh. legði fyrir t.d. forstjóra Marshallhjálparinnar, líta svo út, að það ætti að reisa áburðarverksmiðju fyrir 44 millj. kr., sem ætti að skila sem ágóða, — ef helmingur framleiðslunnar væri seldur á frjálsum markaði, en hitt til bænda, — sem svaraði 1 millj. kr. á ári. Setjum svo, að hæstv. ráðh. legði slíka áætlun þannig fram, en samtímis kæmi sami ráðh. með áætlun um að byggja verksmiðju fyrir 125 millj. kr., sem með sama útreikningi og lagður væri til grundvallar fyrir hinni verksmiðjunni mundi gefa 30 millj. kr. í gróða á ári, og þar með gæfi hún einnig um 60 millj. kr. í erlendum gjaldeyri. Ég ætla ekki að eyða orðum að því, hvernig hver einasti maður, sem hefði með fjármál að gera, mundi dæma um tvær svona tillögur frá því sjónarmiði að tryggja, að féð verði ávaxtað, og þá ekki aðeins, hvort fyrirtækið bæri sig, heldur væri hægt að borga vexti af fengnum lánum. Hvaða bankastjóri mundi vilja leggja fram fé í svo litla verksmiðju? En ef um stærra fyrirtæki væri að ræða, væri öðru máli að gegna. En ef bankastjórinn væri hluthafi í De Pond, gæti farið svo, að hann segði, að við skyldum aðeins byggja litla verksmiðju og Íslendingar ættu ekki að vera að keppa við aðrar þjóðir á þessu sviði og við skyldum láta okkur nægja með verksmiðju, sem fullnægði þörfum okkar sjálfra. En þau ráð mundu ekki vera okkur holl né verzlunarlega skynsamlegt að fara eftir þeim. Ég vildi aðeins taka þetta fram til að segja mína skoðun á því, hversu óforsvaranleg afstaða d. var við 2. umr.

Hv. 5. þm. Reykv. lýsti vantrú sinni á, að íslenzkur iðnaður stæðist samanburð við iðnað annarra þjóða, en ég vil segja honum það, að sá iðnaður, sem stenzt samkeppni nú, er stóriðjan, sem rekin er með véltækni, og slík stóriðja drepur smáiðjuna. Þess vegna er viðbúið, að stóriðjan í heiminum eyðileggi okkar litlu verksmiðju, en við getum þó a.m.k. frekar staðið á móti, ef við höfum stóra verksmiðju. Það er stundum verið að tala um dýrleika vinnuaflsins, en slíkt kemur ekki til greina í þessu tilfelli. Í litlu verksmiðjunni verða um 50 manns, en í hinni, sem framleiðir fyrir um 60 millj., munu verða um 100 manns. Við erum sem sagt að flytja út raforku, eins og hæstv. atvmrh. sagði. Þess vegna verðum við að leggja í nógu stórt, svo að við getum staðizt samkeppnina. Og hvað snertir hættuna við að taka erlent lán, þá er ég óhræddur við það, ef það er í svo skynsamlegt fyrirtæki, sem gefur góðan arð og erlendan gjaldeyri, því að þá getum við hæglega greitt upp lánin. En hættan liggur í því að taka lán til fyrirtækja, sem ekki borga sig og ekki skapa gjaldeyri. Það er glapræði að leggja 45 millj. í fyrirtæki, sem engan gróða eða gjaldeyri gefur, en nær að leggja í verksmiðju, sem kostar 125 millj., en gefur 60 millj. kr. gjaldeyri og 30 millj. kr. gróða.

Ég vil spyrja hæstv. atvmrh. og hv. frsm., hv. 1. þm. Skagf., hvort gengið sé út frá því, að tryggt sé, að vara sú, sem seld er á innlendum markaði, sé ekki dýrari en sú, sem flutt verður út. Og ég vil einnig spyrja þá, hvort þeir skilji 8. gr. svo, að áburðarsala ríkisins sé skyld að greiða kostnaðarverð fyrir áburðinn, sem hún kaupir af ríkinu, hvort sem verðið er hærra eða lægra, en markaðsverð erlendis. Ég vil, að það komi fram, hvort meiningin sé, að íslenzkir bændur séu skyldaðir til að kaupa þennan áburð, þó að hann sé dýrari, en erlendur áburður, og auðvitað kemur ekki til greina, að ríkið borgi undirballans af slíkum rekstri, eða vonandi dettur engum hv. þm. slíkt í hug. Þetta verður að koma ótvírætt fram nú, hvort áburðarsalan sé skyld til að kaupa þennan áburð, þótt hann verði dýrari, en gerist á erlendum markaði, svo að engin eftirmál verði, þegar verksmiðjan er komin upp. Ég vil taka það fram, að sá varasjóður, hvað verðið snertir, sem litla verksmiðjan hefur upp á að hlaupa, ef verðlækkun verður, nemur ekki nema 4 millj. kr. Og ef hún selur tonnið á 1.541 kr., sem er það lægsta, sem hún getur staðizt við án þess þess að tapa, verður erfitt fyrir hana að keppa við hina erlendu auðhringa. Stóra verksmiðjan getur aftur á móti selt tonnið á 1.133 kr. án þess að tapa. Það er rétt hjá hæstv. atvmrh., að því fer fjarri, að núverandi söluverð á áburði sé kostnaðarverð, og ég gæti trúað, að álagningin væri um 100%. Ágóði hringanna er því ekkert smáræði. Ég álít því, að það væri svo mikill munur fyrir okkur Íslendinga, hvort við þyldum að selja vöruna á 1.133 kr. tonnið eða hvort það væri 1.541 kr., að það gæti riðið baggamuninn. Ég vonast til að fá ótvírætt svar um það, hvort ætlunin er að neyða íslenzka bændur til að kaupa þennan áburð, hvað sem verðið verður hátt.

Varðandi 9. gr., þá held ég, að áburðarverksmiðjan hefði átt að vera þannig, að hún gæti gefið ríkinu ágóða, en annað sjónarmið virðist ríkjandi hjá hv. meiri hl. landbn., en ég vil spyrja þessa hv. þm. Á hverja ætla þeir að leggja skattana, ef á að sleppa tækifærinu til að skapa fyrirtæki, sem getur borið sig og gefið góðar tekjur? Ef á að taka 45 millj. og setja í fyrirtæki, sem ætla má, að taprekstur verði á, og þar að auki að taka rafmagn frá Soginu, sem hægt hefði verið að selja háu verði annars staðar, á hverja ætla þeir þá að leggja gjöldin? Er ætlunin að leggja þau á þjóðfélagsþegnana? Ég verð að segja þetta vegna þess, að ég tel afgreiðslu þessa máls einhverja þá lökustu, sem átt hefur sér stað hér á Alþ. á stórmáli, og var eins gott, að ekki þurfti að leggja undir hv. deild kaupin á 30 togurunum fyrr en eftir á, og ég held sannarlega, að sú till. hefði farið sömu leið og stóra verksmiðjan. Það er annað, sem hv. meiri hl. hefur meiri áhuga á, en það er að útunga n. til að ákveða stað fyrir verksmiðjuna auk þeirrar n., sem á að koma verksmiðjunni upp. Það nægði ekki, að fjárhagsráð og verksmiðjustjórnin hugsuðu um þetta, heldur þurfti að skipa eina n. enn. — Ég veit, að það er ekki til neins að bera fram brtt. við frv. eins og nú er. En mér segir þungt hugur um, að afgreiðsla þessa máls verði ljótur dómur um skammsýni Alþ. í þessu þýðingarmikla máli.