21.02.1949
Neðri deild: 68. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í B-deild Alþingistíðinda. (691)

16. mál, áburðarverksmiðja

Frsm. meiri hl. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Það eru nokkur atriði, sem ég vil taka fram í sambandi við þær umr., sem fóru hér fram síðast um þessi mál. — Ég vil leyfa mér fyrst að minnast á brtt. hv. 5. þm. Reykv. á þskj. 327. Meiri hl. landbn. taldi, að hann hefði tekið upp í sína brtt. við 2. gr. frv. meginatriðið af því, sem vakti fyrir hv. 5. þm. Reykv. með sinni brtt. Nú virtist hv. 5. þm. Reykv. ekki sætta sig við þetta og óskaði eftir, að sin brtt. yrði samþ. Ég tók það fram þá, að meiri hl. landbn. liti svo á, að nægilegrar varúðar væri gætt og það væri í fullu samræmi við þá reglu, sem yfirleitt gilti í svipaðri löggjöf og þessari, að ríkisstj. hefði heimild til lántöku í löggjöf sem þessari. Ég geri ekkert mikið úr þessu atriði og fer ekki að deila neitt við hv. þm. um þessi atriði. Það skiptir frá mínu sjónarmiði tiltölulega litlu máli, hvort brtt. hans er samþ. eða ekki. Hitt var annað mál, að hv. 5. þm. Reykv. var á móti málinu — alveg. Mér skildist hann ætla að vera á móti frv., og ég ætla ekki að ræða það við hann. Það er búið hér við þessar þrjár umr. hér í d., bæði af mér og öðrum, að færa fram þau rök, sem við teljum vera fyrir því, að rétt sé að fá þessa heimildarlöggjöf samþ., og þarf ég ekki að endurtaka það, sem sagt hefur verið um það. En úr því að hv. 5. þm. Reykv. er á móti málinu, skil ég, að hann vildi heldur aðhyllast þá till. minni hl. n., að stærð verksmiðjunnar skyldi vera miðuð við 30 þús. smál. framleiðslu á ári, því að það er alveg víst, að ef slíkt væri sett í lög, þá væri það sama sem að stöðva þetta mál um ófyrirsjáanlegan tíma. Og úr því að meginsjónarmið hv. 5. þm. Reykv. er það, að hann er á móti málinu öllu í heild, þá skildi ég vel, að hann gæti fallizt á brtt. minni hl. landbn., ef hann á annað borð fylgdi frv., því að það væri sama sem að skrínuleggja þetta mál í bili.

Hv. þm. Ísaf. bar hér fram skrifl. brtt., síðast þegar þetta mál var rætt, og hefur þeirri brtt. nú verið útbýtt á þskj. 373. Sú brtt. er um það, að inn í 8. gr. frv. bætist, að auk þess, sem þar er talað um, að í hinu áætlaða kostnaðarverði sé reiknað með nauðsynlegum og lögákveðnum tillögum í fyrningarsjóð og varasjóð verksmiðjunnar, þá verði bætt þar við, að í hinu áætlaða kostnaðarverði skuli reikna með nauðsynlegum vöxtum og afborgunum samkvæmt 2. gr. Ég hygg, að þessi brtt. hv. þm. sé algerlega óþörf. Hvað vextina snertir er hún vitanlega alveg óþörf. Hins vegar var tekið fram í frv., eins og það var upphaflega, að heimilt væri að greiða vexti af lánum stofnkostnaðar verksmiðjunnar úr ríkissjóði, og þar með var þetta talið til kostnaðar. En með því að fella þetta úr 2. gr., eins og gert var og allir virtust vera sammála um, þá liggur í hlutarins eðli, að það er óþarfi að taka þetta fram. Þetta er í sjálfu sér aukaatriði og óþarfi að deila um þetta. Það sama virðist mér um afborganirnar. Það er ákveðið í frv., að það skuli leggja í fyrningarsjóð lögákveðið tillag, og skilst mér, að það ákvæði sé alveg nægilegt og jafngildi alveg því, sem hér er um að ræða um afborganir, þannig að ég hygg, að segja megi, að þessi brtt. sé óþörf, og sé ég af þeirri ástæðu ekki ástæðu til að samþ. hana. Eins og frv. er orðað, leikur ekki á tveim tungum, að þessa hluti, vexti og afborgun, á verksmiðjan að bera. Það er því óþarflega mikil varasemi hjá hv. þm. Ísaf. að vilja taka þetta sérstaklega fram. Hitt skal ég taka fram og undirstrika, sem hv. þm. kom inn á, að sjálfsagt væri að láta útlenda sérfræðinga rannsaka þetta mál. Hæstv. atvmrh. hefur líka lýst yfir, að það sé sjálfsagt. Ég hef líka lagt á það ríka áherzlu f. h. meiri hl. landbn.

Hv. frsm. minni hl. var úrillur, aldrei þessu vant, í þeirri ræðu, sem hann flutti hér síðast, því að þótt ekki yrði samkomulag um það í n. að fylgja frv. óbreyttu, þá hefur þar allt verið í fullri vinsemd, en mér fannst hv. frsm. minni hl. úrillur í ræðu sinni. Hann var svo stór upp á sig, að hann sagði um brtt. um fjölgun í verksmiðjustjórninni um tvo menn, að hann vildi ekki fara í slíka verksmiðjustjórn. Hv. frsm. hefur þá eingöngu borið fram till. í því skyni, að hann eða einhver annar úr hans flokki fengi sæti í verksmiðjustjórninni. Þetta er stórmennska í meira lagi. Einhvern tíma hafa kommúnistar lotið að minnu, en að vera í stj. fyrirtækis af þeirri stærð, sem hér er. Mér er spurn, hvort þessir stórbrotnu menn geta átt sæti á svona litlu Alþingi eins og hér er, miðað við hin stóru þing úti um heim.

Hv. þm. var svo umbrotasamur, að það, sem við höfum tekið upp úr hans till. í okkar, því var hann á móti. Við tókum upp 2. brtt., en hv. þm. var hinn versti út af því, að við hefðum tekið upp till. En hann virðist ekki hafa veitt athygli, að þetta ákvæði er í 5. gr. frv. Þar stendur svo, með leyfi hæstv. forseta: „enda hafi þá fengizt trygging fyrir nægri raforku og nægilegu fé til greiðslu stofnkostnaðar.“ Það er því algerður óþarfi að hafa sömu ákvæði í 2. gr. frv.

Hv. 2. þm. Reykv. hefur flutt fimm eða sex ræður í d. um þetta mál. Ég hef aldrei svarað honum neinu og mun ekki gera það, af því að mér leiðast alltaf ofsatrúarmenn. Ég get að vísu þolað ofsatrúarmenn í trúmálum og líka í pólitík, eins og hann er. En þegar verið er að ræða um hagnýt atvinnumál, þá á ég bágt með að skilja ofsatrúarmenn. Hann hefur alltaf talað í þessu máli eins og ofsatrúarmaður, en aldrei reynt að færa fram sannanir. Því meir sem hann hefur þynnt út sína ræðu með því að flytja hana aftur og aftur með breyttu orðalagi, því sannfærðari hef ég orðið um, að það er ekkert nema orðagjálfur. Fyrir nokkrum árum var um það að ræða að kaupa 30 togara. Allir virtust sammála um, að það ætti að endurbyggja togaraflotann. En hv. 2. þm. Reykv. talaði þá þannig eins og það væri allt hans verk. Hv. þm. hélt þá margar ræður í sama anda og nú. Hann vildi ekki láta sér nægja að byggja 30 togara, heldur 75 eða 90. Þar kom sama ofsatrúin fram, að horfa aldrei nema á einn hlut, til þess að hægt væri að bjarga landi og þjóð í einu átaki. Hitt vita allir, að fjárhagur þjóðarinnar var þannig, að ekki hefði verið hægt að útvega þessa 90 togara, eins og hann vildi. Og svo leyfir hann sér að brigzla þeim, sem eru á annarri skoðun, um, að þeir starfi í þessu máli á móti betri vitund og það sé ljótur dómur, sem þingið muni fá vegna afgreiðslu þessa máls og þetta sé lakasta afgreiðsla á Alþingi Íslendinga. Þetta er alveg það sama og alltaf kemur fram hjá honum, þegar hann talar um eitthvert mál. Það gripur hann eitthvert æði og ofsatrú, svo að það er ekki hægt þrátt fyrir hans miklu greind að ýmsu leyti að taka mark á því, sem hann segir. Ef hann hefði leyft hv. 8. þm. Reykv. einum að tala í málinu, hefði verið tekið meira mark á því, sem hann sagði, því að hann talaði af miklu meiri þunga og alvöru.

Hv. 2. þm. Reykv. hefur engan rétt til að halda fram, að við, sem erum hér á öðru máli en hann, förum eftir öðru en því, sem við teljum réttast og bezt að gera, en því dróttaði hann að okkur, þegar hann kom upp á hátind ofsatrúar sinnar, eins og hann trúði fyrir nokkrum árum, að það eitt yrði til að bjarga þjóðinni, að togararnir yrðu 75 eða 100, en nú trúir hann, að það eitt bjargi þjóðinni, að byggð verði áburðarverksmiðja, 30–60 þús. tonn að stærð. Ég hef ekki trú á þessu. Ég álít, að hvorki togarafloti geti einn út af fyrir sig né heldur geysistór áburðarverksmiðja ein bjargað okkar þjóð. Við verðum að beita meira skynsemi og rólegri yfirvegun og líta á, hverju er hægt fjárhags- og atvinnulega að koma í framkvæmd. Hv. 2. þm. Reykv. hlýtur að vita, að skraf hans, að ná á næstu árum mörg hundruð milljónum króna, ef plan hans um áburðarverksmiðju verður samþ., er út í bláinn.

Það kann að dragast lengur en menn óska, að þessi verksmiðja verði byggð. En ég hef fylgt þessu máli fyrst og fremst vegna þeirrar vissu, að ég veit, hversu geysilega það er mikilsvert fyrir landbúnaðinn, að við getum fengið áburðinn innanlands og tryggt þannig grundvöllinn fyrir landbúnaðarframleiðsluna. Og ég fylgi því, að verksmiðjan verði af þessari stærð, af því að það má telja nokkurn veginn víst, að verksmiðja af þessari stærð er samkeppnisfært fyrirtæki, því að annars hefðu ekki verið byggðar á síðustu árum verksmiðjur af þessari stærð. Og ég er jafnsannfærður um, að útreikningar hv. 2. þm. Reykv., þar sem hann vill sýna, að áburður frá 30–40 þús. smál. verksmiðju verði ódýrari, en frá 5–10 þús. smál. verksmiðju, eru út í bláinn. Hv. þm. hristir höfuðið, og ég get ekki að því gert. Ég hef sýnt fram á þetta áður hér á þingi, og það hefur ekki verið hreyft við þeim rökum. Það er eitt að framleiða hlutinn og annað að afsetja hann. Nú er sú breyt. að verða á um áburðarframleiðsluna, að framleiðslan er orðin svo mikil, að á næstu árum þrengist greinilega um markaði í heiminum. Framleiðslan hefur aukizt afar mikið í þeim löndum, þar sem hagkvæmast væri fyrir okkur að afsetja áburð. Það getur verið, að markaður fengist einhvers staðar langt í burtu, kannske austur í Asíu, þar eru geysilegir ræktunarmöguleikar, en sennilega yrði erfitt að selja áburð á markaði, sem væru svo langt í burtu.

Ég hef fylgt þessu frv. af því, að mér virðist það eini möguleikinn til, að hægt verði að framkvæma þetta mál fljótlega. Og allir sérfræðingar, sem ég hef heyrt tala um þetta mál, segja, að þessi verksmiðja geti orðið liður í stærri verksmiðju, ef það sýndi sig síðar, að hagkvæmt væri að stækka hana og hafa hana af þeirri stærð, sem hv. 2. þm. Reykv. vill. Þetta vil ég segja út af þeim miklu ræðum, sem hv. 2. þm. Reykv. hefur flutt hér.

Ég skal ekki fara mörgum orðum um þær brtt., sem liggja hér fyrir. Meiri hl. hefur ekki rætt till. hv. þm. Ísaf. og ekki till. hv. 5. þm. Reykv., síðan hann mælti síðast fyrir henni. En ég tel þó, að n. sé á móti till. hv. 5. þm. Reykv. Hins vegar veit ég ekki um afstöðu hennar til till. hv. þm. Ísaf., en sjálfum finnst mér hún óþörf og tel af þeirri ástæðu alveg ástæðulaust að samþ. hana, því að það, sem tekið er fram í till., er alveg ákveðið, eins og frv. er nú orðað.

Ég vil stuðla að því, að frv. komist til Ed., og skal ekki orðlengja um málið frekar, en láta máli mínu lokið.