22.02.1949
Neðri deild: 69. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í B-deild Alþingistíðinda. (694)

16. mál, áburðarverksmiðja

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. Ég hafði við 2. umr. þessa máls mælt með brtt. minni á þskj. 327. Ég hef nú ekki miklu að bæta við þær ástæður fyrir henni, sem ég gat þá. Hv. frsm. landbn. lét þau orð falla í gær, að þrátt fyrir það að hv. n. teldi brtt. eigi óeðlilega eða ósanngjarna, þá féllist hún á að koma til móts við hana með brtt. meiri hl. við 2. gr. frv. á þskj. 363. Sú till. nær eigi lengra en svo, varðandi innlend eða erlend lán til stofnkostnaðar verksmiðjunnar, að verksmiðjustjórninni er heimilt að taka það fé, sem á vantar, að láni innanlands eða utan með samþykki ríkisstj. og ábyrgð ríkissjóðs. En brtt. mín er þannig, að aftan við 2. málsl. 2. gr. bætist: „ef Alþingi samþykkir lánsfjárhæðina og lánskjörin.“ Hv. frsm. kvað eðlilegt að fela hverri ríkisstj. þetta hlutverk, að samþykkja ríkisábyrgðina eða synja hennar. Ég vil í þessu sambandi taka fram í fyrsta lagi, að þetta er rétt. Venjulegt er að bera undir Alþ., hvort ríkisábyrgð skuli veitt, og það er þá tekið fram, hver fjárhæðin skuli vera, og er eðlilegt, að þá sé einnig ákveðið um lánskjörin. Í öðru lagi er athugandi, að venjulega er um miklu minni fjárhæðir að ræða en hér í þessu efni. Venjulegast er, að ríkisábyrgð er veitt á fé til hafnargerða og lendingarbóta, og liggur þar fyrir kostnaðaráætlun um verkið. Sama máli gegnir um sveitarfélög, sem veitt er ríkisábyrgð. Þar liggur fyrir áætlun um not lánanna, og fylgja skýrslur frá lánþega um vonir hans varðandi verkið og jafnvel fulla vissu, hvernig framkvæmast muni. Og oftast er um litlar fjárhæðir að ræða í samanburði við það, sem hér er á ferðinni. Í þessu máli er um að tala lántökuheimild á kostnað ríkisins, og þegar slíkar heimildir eru margar, jafnvel svo að tugum milljóna króna skiptir, þá ber Alþ. að sýna fyllstu varúð í þeim efnum. Ýmsar skuldbindingar, sem ríkið hefur tekizt á herðar vegna ýmissa, eru farnar að sverfa svo fast að, þótt lítið sé e.t.v. um að ræða á hverjum stað, að þær eru þegar orðnar alvarlegur baggi á ríkissjóði. Í fjárlagafrv. því, sem nú liggur fyrir þ., er gert ráð fyrir því, að ríkissjóður verði að greiða 4 millj. kr. í vexti af lánum, og þó stafar meiri hætta af skuldbindingum. Þetta bendir á, að of óvarlega hafi verið farið og bjartsýni hafi ráðið of mildu og geri það einnig í þessu efni. Því er það skylda þ. að gæta nú fyllstu varúðar. Ég vil í þessu sambandi og vegna ummæla hv. frsm. meiri hl. landbn. minna á það, að það ríkisfyrirtækið, sem næst gengur þessu varðandi ríkisábyrgð á fé, teknu að láni, eru síldarverksmiðjur ríkisins, þar sem þörfin hefur reyndar verið miklu meiri en virzt hefur. Hefur verið komið aftur og aftur til þ. með beiðslur um viðaukafjárhæðir. Þetta sannar þá venju, að lántökuheimildir og ríkisábyrgðir eru venjulega bornar undir Alþ., jafnvel þótt um minni fjárhæðir sé að ræða. Raunar get ég varla búizt við, að brtt. mín verði samþ. En það verður ekki ámælislaust, að þ. veiti leyfi til skuldbindinga, sem eru enn ógætilegri. Okkur, sem setja eigum l., ber auðvitað að gæta varúðar í þessu og fylgja verjandi formum. Ég held ég segi ekki meira um þessa brtt.

Þá eru það önnur ummæli hv. frsm., sem gáfu mér tilefni til að kveðja mér hljóðs, en þau eru þannig, að ég mundi greiða atkv. gegn frv. og vegna þess gæti hann skilið afstöðu mína. Ég hefði sagt, að ég gæti fremur verið með 30–40 þús. tonna verksmiðju en þeirri, sem ákveðin er í frv., 7.500 tonna. Þetta er rétt að leiðrétta, því að ég lýsti því yfir, þegar ég talaði um málið, að ég gæti eigi treyst því, að okkur mundi takast að framleiða áburð fyrir mjög miklu lægra verð, en sá áburður mundi kosta, sem fáanlegur yrði frá erlendum verksmiðjum. Mér þykir reynslan ekki benda til þess, að við getum framleitt ódýrari áburð, en aðrar þjóðir. Ég lét þess og getið, að gæti ég trúað, að við gætum framleitt vöruna ódýrar en nágrannaþjóðir okkar, þá væri freistandi að fylgja till. minni hl. um miklu stærri verksmiðju, sem þá gæti framleitt miklu meira. Þetta sagði ég, þegar ég var búinn að greiða atkv. á móti stærri verksmiðjunni. Því er það af misgáningi mælt hjá hv. frsm. meiri hl., að ég mundi greiða atkv. með stærri verksmiðjunni og vildi drepa málið á þann hátt. Reyndar skiptir þetta ekki máli, en rétt þykir mér þó, að þessu sé eigi látið ómótmælt, því að þetta gæti bent til klækja af hendi minni. Mun ég greiða atkv. opinskátt og vafningalaust um málið í þessari hv. d.