22.02.1949
Neðri deild: 69. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í B-deild Alþingistíðinda. (699)

16. mál, áburðarverksmiðja

Frsm. minni hl. (Sigurður Guðnason):

Herra forseti. Það er aðeins út af því, sem hv. frsm. meiri hl. landbn. sagði um 5. gr., að hann álítur, að þar sé tekið fram það sama, sem var í 2. gr. Nú er í frv. svo ákveðið, að ríkissjóður leggi til allan stofnkostnað áburðarverksmiðjunnar. En þegar talað er um stofnkostnað, þá hefur ekki þótt fært að telja raforkuþörfina eða fullnægingu hennar með stofnkostnaði. Og þess vegna er þetta frámunaleg skýring að segja, að 5. gr. taki þetta fram. Ég er ekki lögfróður maður. En ég get hugsað, — þrátt fyrir allan góðan skilning hv. framsóknarmanna, — að það sé vafasamt, að þar sem stofnkostnaður er nefndur í 5. gr. frv., þá sé það svo, að sú setning nál til raforkunnar, því að þar sem minnzt er á þessa hluti í 5. gr., stendur svo, með leyfi hæstv. forseta: „enda hafi þá fengizt trygging fyrir nægri raforku og nægilegu fé til greiðslu stofnkostnaðar“. Hér í þessari gr. er greinilega sett fram, að um tvo hluti sé verið að ræða. Og hér í umr. hefur verið talað um stofnkostnað verksmiðjunnar sem aðeins það, sem kostar að koma henni upp, en um fullnægingu raforkuþarfarinnar hefur verið talað sem kostnað við rekstur. En trygging nægrar raforku til verksmiðjunnar er samt, hvað sem hver segir um það, stofnkostnaður, hvað sem öllum yfirlýsingum liður hér á fundum Alþ. En hér hefur í öllum áætlunum, sem fram hafa komið frá hæstv. ríkisstj. og hennar stuðningsmönnum um stofnkostnað verksmiðjunnar, aðeins veríð talað um byggingu verksmiðjunnar og áhöld hennar og tæki sem stofnkostnað verksmiðjunnar.