19.04.1949
Efri deild: 85. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 447 í B-deild Alþingistíðinda. (711)

16. mál, áburðarverksmiðja

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Ég vildi segja nokkur orð í tilefni af ræðu hv. frsm. minni hl., þó að það verði í aðalatriðum efnislega það sama og ég sagði við 1. umr. Báðir frsm. gátu þess, að n. væri öll samþ. því, að frv. yrði samþ., ágreiningur væri aðeins um stærð verksmiðjunnar. Mér þykir þetta að sjálfsögðu gott, en af orðum hv. 8. landsk. að dæma, virtist allt frekar „negatívt“ við málið, eins og hann væri að draga úr möguleikum þessa fyrirtækis, þó að hann í öðru orðinu vildi herða sóknina. Hann sagði upphaflega í ræðu sinni, að nauðsynlegt væri að hugsa um fleiri áburðartegundir, og það er rétt, en köfnunarefnisáburðurinn er langdýrastur og kostar mestan gjaldeyri, þó að við flyttum allar tegundir inn í réttum hlutföllum, og af þeim ástæðum er sjálfsagt að byrja á þessari tegund. Ef það tækist að spara þann gjaldeyri, hefðum við þeim mun meiri möguleika til að kaupa aðrar tegundir, er við ekki getum framleitt. Það er að vísu hugsanlegt að koma upp fosforsýrugerð, en hún ætti að koma næst, eftir að köfnunarefnisþörfinni hefur verið fullnægt.

Þá minntist hv. þm. á ýmis atriði, er ég skal drepa á lítils háttar. Hann talaði um, hversu stærð verksmiðjunnar væri mikilsverð. Það er rétt, að litlar verksmiðjur eins og þær, sem áður var hugsað um að byggja, standa illa að vígi, en það er augljóst mál, að ekki er hægt að stækka verksmiðjuna ótakmarkað til þess að fá ódýrari áburð. Munurinn er mestur frá litlu verksmiðjunni og upp í það stóra verksmiðju, að allur mannafli verksmiðjunnar sé fullnotaður. Ég rengi ekki niðurstöður Björns Jóhannessonar, að framleiðslukostnaður 10 þús. smál. verksmiðju sé þrisvar sinnum meiri, en 90 þús. smál. verksmiðju, en þetta er byggt á reynslu frá Noregi, og hún er ekki tæmandi sönnun þess, að sömu hlutföll verði hér, því að hinar nýju verksmiðjur eru svo miklu meira „mekaníseraðar“, að það þarf bara brot af því mannafli, er áður var, til að framleiða sama magn. Hitt er enginn vafi, að betra er að hafa stóra verksmiðju en litla, og þó að ég efi, að útreikningar hv. minni hl. landbn. varðandi framleiðsluverð 10 þús. smál. verksmiðju og 30 þús. smál. séu öruggir, dettur mér ekki í hug að neita því, að nokkur hagur er að því að hafa verksmiðjuna stærri.

En það, sem hv. þm. ræddi mest, var, hvort Sogsvirkjunin mundi geta fullnægt rafmagnsþörf 7.500–10.000 smál. verksmiðju. Hv. þm. segir í nál., og hann endurtók það í ræðu sinni: „Samkvæmt einróma áliti áburðarverksmiðjunefndarinnar er útilokað, að nokkurn tíma fáist nægilegt rafmagn frá Soginu til að knýja 10.000 tonna verksmiðju.“ Þetta er rangt, og hlýtur að byggjast á misskilningi hv. þm. Eins og ég hef minnzt á, er áætlað, að þegar næsta virkjun og virkjunin þar á eftir eru fullbúnar, 1955, og viðbótarvélasamstæður komnar, verði öll framleiðsla Sogsveitunnar 500 millj. kílówattstundir. Það er álit rafmagnsstjóra, að ef gert er ráð fyrir því, að almenn neyzla haldi áfram með sama hraða, þá verða þrátt fyrir það eftir 1955 hægt að taka 10.000 smál. verksmiðjuna í fulla notkun. Ef almenn notkun á að ganga fyrir, verður að miða við 7.500 smál. framleiðslu, þangað til virkjuninni 1955 hefur verið bætt við, en þá er hægt að taka 10.000 smál. verksmiðjuna í notkun, þegar Sogið er fullvirkjað. Rafmagnið frá Soginu mundi nægja til 1964, þó að almenn rafmagnsnotkun væri hin sama, en þá þyrfti viðbót til almennrar aukningar. Það er því rétt, að við yrðum að virkja í áföngum, en það er hægara að taka þetta í áföngum, en að ráðast í eins tröllslegt fyrirtæki og virkjun Urriðafoss. Það kom fram hjá hv. þm., og líka í sambandi við umr. í Nd., að ætla mætti, að almenn notkun mundi aukast meira í framtíðinni, en undanfarin ár. Í því sambandi má benda á, að orkuaukningin undanfarin ár er svo tröllsleg, að þess verður að vænta, að einhver stöðvun verði þar á, annars verður allt landsfólkið komið til Reykjavíkur eftir fá ár, en með eðlilegri aukningu er sízt þörf á meiri orku. Á þessu tímabili er búið að byggja allt rafveitukerfi Reykjavíkur og leiða rafmagnið út um byggðir landsins. Það er því ekki lítið stökk, sem tekið hefur verið. Ef við getum haldið sama hraða, tel ég, að við getum vel við unað. Þetta er álit rafmagnsstjórans í Reykjavík, og mér finnst öll rök mæla með því. Ef aukningin heldur áfram eins og verið hefur, verður því nægilegt rafmagn fyrir 10.000 smál. verksmiðju 1955, er síðasta virkjunin hefur verið gerð. Það er tiltölulega skaðlaust að byggja fyrst 7.500 smál. verksmiðju, því að þá mætti láta þann hluta, er býr til kolvetni, bíða, en byggja hina tvo, sem eru ódýrari. Rafmagnsstjóri heldur því að vísu fram, að ekki verði nægilegt rafmagn eftir næstu virkjun fyrir 10.000 smál. verksmiðju, en hann heldur því ákveðið fram, að eftir 1955 verði það nægilegt. Ég held því, að það sé ástæðulaust fyrir hv. þm. að óttast það, að þetta frv., ef að l. verður, verði bara að gagni á pappírnum vegna rafmagnsskorts.

Ef hægt er að afla fjár til framkvæmdanna, munu þær ekki stranda á rafmagnsskorti. Það er að vísu rétt, að mikil eftirspurn er á rafmagni í sveitunum, en ef við verðum svo lánsamir að hafa fjármagn til að leiða rafmagnið út í byggðirnar á næstu árum í svipuðum hlutföllum og undanfarið, þá megum við vera þakklátir.

Þá kom hv. þm. inn á brtt. sína um stóra verksmiðju. Eins og ég sagði í Nd., get ég tjáð mig fylgjandi þeirri hugmynd, en ég álít, að enn sé hún ekki tímabær. Það er mál þeirra, er mesta þekkingu hafa á þessum málum, rafmagnsstjóra og raforkumálastjóra, að þótt við hæfumst handa við Urriðafoss, væru engar líkur til þess, að framkvæmdum yrði lokið fyrr en eftir tíu ár, þó að við hefðum peninga í handraðanum og allt væri í lagi með hina „finansiellu“ hlið málsins. Ef horfið yrði að þessu ráði, má því slá því föstu, að engin áburðarverksmiðja yrði komin upp fyrr en um 1960. Ef minni verksmiðjan er valin, gæti hún verið tilbúin 1953 eða 1954, og því búin að starfa í fimm, sex eða sjö ár af fullum krafti, áður en stóra fyrirtækið risi upp. Nú er gert ráð fyrir því, að framleiðsluverðmæti 7.500 smál. áburðarverksmiðju nemi 16 millj. kr. á ári með svipuðu verðlagi og nú er. Á sjö árum mundum við því spara 112 millj. kr. í erlendum gjaldeyri beint og óbeint, ef þessi leið yrði farin í stað þess að velja „stóra planið“. Ef bara er miðað við fimm ár, næmi beinn og óbeinn sparnaður 80 millj. kr. á því tímabili. Þar sem innkaupsverð véla og tækja, er greiða verður með erlendum gjaldeyri, er áætlað 20 millj. kr., mundi það hafa borgað sig fjórfalt eða sexfalt, er stóra fyrirtækið væri að byrja framleiðslu sína. Við eigum að leggja stund á það að koma okkur upp stórvirkjunum við fossana okkar. Það er rétt, sem hv. frsm. sagði, að okkur er nauðsynlegt að fá sem flesta fætur undir útflutningsverzlun okkar, því að innflutningsþörfin er mikil, og enginn vafi er á, að fá sjávarútvegsframleiðslufyrirtæki eru það, sem komið gætu í staðinn fyrir þetta. En ég er ekki sannfærður um, að við ættum að leggja stund á áburðarframleiðslu fremur en t.d. aluminiumframleiðslu o.fl. En allt þetta þarf mjög mikillar rannsóknar með. Hugsanlegt er líka með magnium. Það er rannsóknarefni, hvernig við eigum að beita okkur. Getur verið, að komi á daginn, að köfnunarefnisáburður sé okkur hentugastur til útflutnings. En við getum stefnt að aukningu framleiðslu hans, þótt við byrjum á þessari verksmiðju nú, þó að hún gefi engan tröllslegan útflutning. Og kærkomið reynslutímabil fengjum við með rekstri hennar sem undirbúning undir stærri framkvæmdir seinna, og vissum við þá, hvar við stæðum, þegar við legðum út í stórt. Aðalatriðið er þetta: Ég veit, að það verður nægilega erfitt fyrir okkur Íslendinga — ekki meiri karlar en við nú erum — að koma þessu fyrirtæki á laggirnar. Hef ég satt að segja áhyggjur um, að okkur gangi fullerfiðlega að koma þessari verksmiðju upp, og sé eigi annað, ef við ættum að hlaupa frá þessari og til fyrirtækis, sem kostaði 100–200 millj. kr., en það væri hrein útópía. Það eru engar líkur til, að við gætum aflað þess fjár. Þannig yrði, ef horfið væri frá minni verksmiðju til stærri, að það væri sama og að leggja fyrirtækið niður. Hv. þm. kvað hægt fyrir okkur að semja við þjóðir, er skortir áburð, um lán til verksmiðjunnar og virkjunar í Þjórsá gegn því að fá tilbúinn áburð, er þar yrði framleiddur. Ja, ég hef nú litla von um, að við gætum samið um þvílík viðskipti með því að setja áburðinn á fast verð, er við þyrftum, til að fyrirtækið bæri sig. En sé sá möguleiki til, þá gegnir sama máli, þó að við byggjum verksmiðju við okkar þarfir á næstu árum, og hefðum við eigi kastað frá okkur samningum við aðrar þjóðir eða kastað neinu á glæ. Málið er tröllaukið. Það þarf undirbúning, ýtarlega rannsókn og helzt varðandi það að tryggja markaði, svo að það tekur ærinn tíma að undirbúa þetta allt, ef telja á verjandi að leggja út í það. Því tel ég, þó að þessi brtt. virðist á yfirborðinu lýsa áhuga og bjartsýni, þá sé það að samþykkja hana í rauninni að jarða málið um ófyrirsjáanlegan tíma. Ég skal ekkert um það fullyrða, hvort það vakir fyrir minni hl., en árangurinn verður sá. Ég mælist því til, að hv. d. sjái sér fært að ganga frá málinu í því aðalformi, sem það hefur komið í frá hv. Nd. Ég tel nauðsynlegt að fá l. um þetta, en engin vissa er fyrir hendi um, að við höfum fjármuni til að reisa hana á þessu ári. En hægara er að gera ráðstafanir til fjáröflunar og nær framkvæmdum, ef l. verða samþ. á þessu þ., heldur en ef það er látið dragast. En hitt yrði líkkista málsins.