19.04.1949
Efri deild: 85. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 450 í B-deild Alþingistíðinda. (712)

16. mál, áburðarverksmiðja

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Á þskj. 412 á ég brtt. við frv., sem gengur í þá átt, að ríkisstj. sé heimilt „að leita eftir þátttöku félaga og einstaklinga um fjárframlög til stofnunar verksmiðjunnar. Ef slík framlög nema minnst 21/2 millj. kr., skal verksmiðjan rekin sem hlutafélag, en hlutaféð ákveðið 10 millj. kr., og leggur ríkissjóður fram það fé, sem á vantar.“ Ástæðan fyrir því, að ég kem fram með þessa till., er sú, að ég hef megna vantrú á því formi stórra fyrirtækja, sem lagt er út í með þessu frv. Slíkt hefur þó viðgengizt fyrr hér á landi. En segja má í þeim efnum, að sporin hræða. Það hefur komið hér í ljós, að stórfyrirtækjum, sem eru eign ríkisins og rekin af nefndum eða stjórnum, sem skipaðar hafa verið af ríkisstj. eða valdar af Alþ., hefur verið illa stjórnað, og eitt átakanlegasta dæmið er stjórnin á Fiskiðjuveri ríkisins. Þar er stofnað fyrirtæki, sem búið er að leggja í um 7 millj. kr., en er kastað í hendurnar á stj. fiskimálasjóðs að ég held, — er hefur haft misjafnan orðstír, en stj. hefur unnið að þessu í hjáverkum, — og sú stj. á því næst að taka við Fiskiðjuverinu. En reksturinn varð með ódæmum, eins og kunnugt er. En þetta er mjög gott dæmi um, hversu rekstur fyrirtækis fer úr hendi, þegar engar „interessur“ koma til greina nema hagsmunir ríkisins og þjóðarheildarinnar. Þessu álít ég, að eigi að hverfa frá: að kasta fyrirtækjum í hendurnar á stjórn- eða þingskipuðum nefndum. Og þessir menn, sem eru án áhuga og hafa eigi hagsmuna að gæta, eiga að sjá þessum rekstri farborða.

Má og minna á síldarverksmiðjur ríkisins, hvernig rekstur þess fyrirtækis er. Þær eiga að hafa framkvæmdastjóra. Hann er ekki nefndur, og menn þeir, sem í stj. eru og eiga að sjá um framkvæmdir, eru önnum kafnir við allt annað. Skulda verksmiðjurnar nú um 70 millj. kr. Ég álít, að hverfa eigi frá þessu fyrirkomulagi og ríkið eigi ekki að hafa stjórn á þessu, heldur eigi einkaframtakið að vera þar þátttakendur, og komi þar fram áhugi og framsýni einstaklinganna, sem vilja, að fyrirtækið gangi. — Mér skildist á ræðu hæstv. atvmrh. áðan, að eigi mundi of mikið fé vera fyrir hendi. Ég hygg, að eins og stendur viti enginn, hvernig koma eigi verksmiðjunni á fót. Það kunna að standa vonir til, að úr rætist, þó að þær virðist veikt undirbyggðar. En hvers vegna má ekki láta einstaklingsframtakið og félög leggja fram féð? Við verðum að fá einhverja, sem geta rekið fyrirtækið, en það getur ríkið ekki. Að fela því reksturinn væri að fara úr öskunni í eldinn, og það er að stofna stórkostlegum fjármunum í stórkostlega hættu. — Ég veit ekki, hvort einstaklingar vildu leggja í fyrirtæki með ríkinu. Menn og félög vilja yfirleitt ekki vinna sem félagar ríkisvaldsins. En þessum hugsunarhætti verður að útrýma. Danska ríkið á t.d. um 50% í nokkrum stórfyrirtækjum, en á þó aðeins fulltrúa í stj. þeirra og rekstrarráði, en annars eru þau rekin sem einkafyrirtæki. Má t.a.m. nefna dönsku spíritusverksmiðjurnar, þar sem ríkið á 51% af hlutafénu. Í Danmörku voru þó jafnaðarmenn við völd, þegar þetta gerðist, og hafa enga ástæðu séð til að taka stjórnina úr hendi einstaklingsframtaksins, álíta þetta eigi óhaganlegt fyrir ríkið. Ég væri ekki undrandi, þótt S.Í.S. vildi vera hluthafi. Mér þætti það eðlilegt, þó að ekki væri til annars, en hafa hönd í bagga um, hvernig fyrirtækið væri rekið. En ef það er illa rekið, hlýtur það fyrst og fremst að bitna á bændastétt landsins. Það er því ekki einkennilegt, þótt Sambandið vildi e. t. v. vera hluthafi. Aðrir einstaklingar kynnu og að vilja hið sama.

Hv. n. hefur eigi séð sér fært að mæla með þessari brtt., þó að hún sé eðlileg og skynsamlegasta leiðin, sem þ. getur farið. En ég vænti þess, að d. verði á annarri skoðun og samþykki till.