19.04.1949
Efri deild: 85. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 459 í B-deild Alþingistíðinda. (714)

16. mál, áburðarverksmiðja

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég hef ekki hingað til tekið hér til máls út af frv. til l. um áburðarverksmiðju. En á sínum tíma, þegar ég var í nýbyggingarráði, þá lagði sú stofnun sitt lið til þess, að stigið yrði frekara spor til rannsóknar á þessu máli, en þá lá fyrir, að stigið hefði verið. Og ég held, að það hafi sýnt sig við þá rannsókn, að það var ekki að ófyrirsynju. Nú hefur síðan, undir forustu og handleiðslu hæstv. landbrh., verið haldið áfram þessum rannsóknum, og mun nú enn svo komið, að þrátt fyrir það að þær allar hafi borið góðan árangur, mun nú enn svo horfa, að ýmislegt sé athugavert að því er snertir framkvæmd þessa stórmáls, fyrir utan sjálfa fjáröflunina.

Hv. þm. Barð. benti réttilega á þá nýtingu, sem annars staðar sums staðar fer fram á svokölluðu límvatni frá síldarverksmiðjum og verksmiðjum af líkri gerð. Þetta límvatn hefur ekki verið hagnýtt hér á landi. En alveg nýlega hefur síldarverksmiðjum ríkisins borizt tilboð um, að lagðar væru til vélar til hagnýtingar á limvatninu, og var talið, að kostnaður af því mundi verða á fjórðu millj. kr. Stjórn síldarverksmiðjanna sendi málaleitun um þetta mál til ríkisstj., og ríkisstj. eða sjútvmrh. leitaðist fyrir um lánsútvegun til þess að gera síldarverksmiðjum ríkisins þetta mögulegt, en Landsbankinn sá sér ekki fært að verða við þeirri beiðni. Í því sambandi er náttúrlega rétt að benda á það, að síldarverksmiðjur ríkisins eru, má segja, í botnlausum skuldum við Landsbankann, sem stafar af þeirri miklu þenslu, sem verið hefur hjá því fyrirtæki í byggingu verksmiðja undir stjórn síldarverksmiðja ríkisins, og þó einkum við hinar mjög svo dýru framkvæmdir á Skagaströnd og Siglufirði, sem fram fóru í tíð fyrrv. atvmrh., eins og kunnugt er. Þetta, ásamt aflabresti og illri afkomu hjá síldarverksmiðjunum undanfarin síldarleysisár, hefur skert þeirra hag svo mjög, að Landsbankinn sá sér ekki fært að lána þessa tiltölulega lágu upphæð til limvatnsvinnslunnar, a.m.k. ekki á þessu stigi málsins. Annars vil ég taka undir þær ábendingar, sem hv. þm. Barð. kom með á sviði límvatnsvinnslunnar, og tel það vissulega þess vert, hvað sem hér verður samþ. í þessu efni nú sem heimild handa ríkisstj., að vel sé athugað, hvaða spor verði stigin á þessu sviði.

Menn muna, að fyrir stríðið síðasta var mjög þröngt um afsetningu á ýmsum okkar afurðum, þar á meðal fiski, og þá varð að selja, eins og reyndar enn, mikið af fiskinum, togarafiskinum, í vörujöfnunarviðskiptum. Og þá var næstum allur áburður, sem til landsins var fluttur, keyptur í vörujöfnunarviðskiptum, og þóttu þó ekki nein ókjör. Að þessu gæti náttúrlega vel rekið síðar, að landsmenn verði að leita eftir hagnýtum og góðum vörum til þess að geta haldið uppi viðskiptunum við þau lönd með fisk, sem annars geta ekki borgað í peningum. — Ég vildi aðeins um leið benda á þetta í sambandi við málið. Þetta er ekki nema ein hliðin á því. En vissulega er þetta hlið á málinu, sem rétt er m.a. að taka til athugunar.

Þegar maður lítur á nál. frá hv. meiri hl. landbn. um þetta mál, þá finnst mér, að það nál. beri þess ekki vott, að n. hafi tekið þetta mál mjög gaumgæfilega til athugunar. Þar er t.d. sagt um brtt. á þskj. 412 frá hv. 1. þm. Reykv., sem fer ekki fram á annað, en að ríkisstj. sé heimilt að leita eftir lántöku félaga og einstaklinga um fjárframlög til stofnunar verksmiðjunnar o.s.frv., um þá till. segir n. bara, að hún sjái sér ekki fært að mæla með því, að svona brtt. verði felld inn í frv. Ég verð nú að játa, að ég á dálítið erfitt með að skilja þessa varúð hjá hv. meiri hl. landbn., því að hér er ekki verið að skylda neinn til þess að gera eitt eða annað, heldur aðeins lagt til, að því verði haldið opnu sem leið fyrir ríkisstj., hver sem hún verður, sem við slíku máli kann að taka, að fé verði ekki einvörðungu aflað til stofnunar þessarar verksmiðju með því að fá það að láni fyrir hönd ríkissjóðs. Ég verð hins vegar að taka undir það með þeim hv. 1. þm. Reykv. og hv. þm. Barð., sem flytur brtt. á þskj. 534, sem fer að vísu í svipaða átt og brtt. hv. 1. þm. Reykv., að þetta fyrirkomulag tel ég eðlilegt, sem þeir benda hér á, þó að brtt. hv. þm. Barð. sé þannig gerð, að hægara er út frá henni að skilja þá varúð, sem hv. meiri hl. landbn. hefur í málinu gagnvart brtt. á þskj. 412, því að í brtt. hv. þm. Barð. er sagt, að það skuli svo fram farið eins og þar segir. Það gæti verið eðlilegt, að menn hnytu um þess háttar ákvæði fremur en það, er aðeins er till. um, að um heimild sé að ræða, eins og til er tekið í brtt. á þskj. 412. Á hinn bóginn er með brtt. hv. þm. Barð. ekki stefnt í neitt óvit að mínum dómi, heldur þvert á móti bent á leiðir í þessu máli, sem eru viðkunnanlegri og sennilega viðráðanlegri, en sú eina leið, að ríkið standi eingöngu undir byggingu slíkrar verksmiðju, annaðhvort með ríkisfé eða með því að taka til þess lán. Við getum reyndar alveg sleppt út úr umr. um þetta mál í bili möguleikanum til þess að byggja áburðarverksmiðju með þeim feikna kostnaði, sem henni fylgir, jafnvel þótt ekki sé að ræða um nema þá stærð, sem meiri hl. n. talar um, — við getum alveg sleppt því út úr umr., að það verði tekið af ríkisfé, eins og nú horfir. Við mundum þurfa a.m.k. að draga saman á mjög mörgum sviðum útgjöld ríkisins, áður en við getum látið okkur til hugar koma að hægt verði að ætla í fjárl. nokkuð sem heitir upp í þann kostnað, sem bygging áburðarverksmiðju hefði í för með sér. Eftir er þá sá möguleiki, sem oftast er gert ráð fyrir, þegar út í það er farið að reisa fyrirtæki, hvort sem eru síldarverksmiðjur eða áburðarverksmiðja eða annað, heimildin til að taka lán. Og þegar athugað er, hve erfitt er um lánsfé, þá finnst mér það ekki vera nema mjög eðlilegt, að eitthvað heyrist um það að safna nokkru fé til stofnkostnaðarins utan þess að taka lán og þá hjá þeim, sem mestan áhuga hafa fyrir því að þetta fyrirtæki komist á fót, og sá áhugi er vissulega mikill hjá bændum landsins og þeirra forsvarsmönnum, því að annars mundi ekki áburðarverksmiðjumálið vera sótt af eins miklum dugnaði og raun ber vitni um, að átt hefur sér stað á undanförnum árum og á sér stað enn. En lánsmöguleikarnir eru nú farnir að verða, a.m.k. innanlands, af mjög skornum skammti. Það liggja heimildir hjá ríkisstj. til lántöku til ýmissa þarfra fyrirtækja, — a.m.k. hafa þau verið þörf að dómi hins háa Alþ., þegar það hefur samþ. að fara út í fyrirtækin, — heimildir, sem fjmrh. og ráðuneytin yfir höfuð hafa ekki getað notað sér af þeirri einföldu ástæðu, að fjárins hefur ekki verið hægt að afla: Til strandferðaskipanna, byggingar þeirra, var heimilað að taka 7 millj. kr. lán. Þau voru svo byggð, án þess að þessi lán væru tekin, með framlagi beint úr ríkissjóði, þ.e.a.s. með yfirdrætti á hlaupareikningi ríkissjóðs í Landsbankanum, þangað til svo var komið, að Landsbankinn sá sér ekki annað fært, nú um áramótin síðustu, en að breyta þessu í fast lán. Til byggingar Arnarhváls var heimiluð lántaka, óákveðin. Allar Arnarhválsbyggingarnar hafa verið leystar af hendi. Lánið hefur ekki verið tekið til þeirra, af því að það hefur ekki fengizt, og ríkissjóður hefur sjálfur orðið að standa þar undir kostnaðinum. Með l. nr. 52 frá 1945 var heimiluð 12 millj. kr. lántaka til að byggja nokkrar rafveitur, svo sem á Reykjanesi, Eyrarbakka, Stokkseyri, Hveragerði og Selfossi. Þetta lán hefur heldur ekki fengizt, en raforkumálasjóður hefur verið notaður í framkvæmdirnar. Ég sagði álíka sögu af því hér við umr. um fjárlagafrv., hvernig fór með lánið handa landssímanum eftir lögum nr. 19 frá 1946. Sú lánsheimild var 12 millj. kr., og Landsbankinn lánaði sex, en hitt var saglað út úr ríkissjóði, eiginlega án þess að fjmrh. eða aðrir í ríkisstj. vissu fyrr til en Landssíminn var búinn að brúka þetta fé, og 6 millj. af þessum 12 millj. ekki notað sem lánsheimild. 5 millj. kr. heimild til Skagastrandar hafði heldur ekki verið notuð. Þegar ríkisstj. tók við, varð hún að leggja nær 1 millj. þar í og bæta tveim við síðar, því að til stórtjóns hefði getað komið, ef ekki hefði verið haldið áfram. Til lýsisherzluverksmiðju var heimilað 7 millj. kr. lán samkv. l. nr. 82 frá 1946, þó að heimildin verði kannske aldrei notuð, fyrirrennari minn neitaði að nota hana, en hæstv. fyrrv. atvmrh. gerði samt sem áður vélapöntun í Englandi, og stendur á okkur fyrir þær 40 þús. punda krafa, sem við erum í vandræðum með að leysa út. — Ég hef hér drepið á nokkrar lánsheimildir, sem ekki hafa verið notaðar, en það stafar ekki af því, að við höfum ekki viljað það, heldur af því að lánsfé hefur ekki verið fyrir hendi hér innanlands, nema mjög knappt, eins og hv. dm. vita. Þess vegna finnst mér í þessu máli, sem er svo mikið óskabarn allra, sem landbúnað stunda, og raunar allrar þjóðarinnar, þá sé skynsamlegt og sjálfsagt að leyfa þátttöku almennings í fyrirtækinu, en einskorða sig ekki við, að ríkið eitt kosti og stjórni fyrirtækinu.

Út af ummælum og sérstaklega út af ræðu hv. 1. þm. Reykv., sem tók stjórn fiskiðjuversins í Reykjavík sem dæmi um óheppilegan ríkisrekstur, þá tel ég ekki rétt að ásaka stjórn fiskiðjuversins fyrir ástandið þar. Ég vil bera blak af þeim, sem í stjórninni sitja, og tel, að þeir eigi ekki ádeilu skilið sem slíkir. Það, sem er gallinn á fyrirtækinu, er það, að farið var út í það án þess, að fjárhagslegur grundvöllur væri fyrir hendi, og það ætti að veita mönnum aðvörun að stofna ekki til slíkra fyrirtækja í framtíðinni. Hæstv. atvmrh. og fiskimálan. ráðast í þetta 1945, og menn byggja loftkastala um framleiðslu- og sölumöguleika, en hinu atriðinu, að hafa traustan fjárhagsgrundvöll, er vikið til hliðar. Þetta var mjög óheppilegt, en samt sem áður ekki eina ástæðan fyrir því, hvernig fór, því að fyrirtækið var algerlega rangt staðsett við Reykjavíkurhöfn. Allt átti að byggjast á bátafiski, en hér voru hraðfrystihús fyrir, og var þessa því ekki þörf, enda sýnir grg. fyrir frv. um fiskiðjuverið, sem er samin af þeim mönnum, sem út í þetta fóru, að þeir höfðu fleira fyrir augum. En eins og ég sagði, var þetta ekki aðeins byggt í lausu lofti fjárhagslega, heldur vantaði einnig hráefni og getugrundvöll til að starfa. Hér hefur það orðið að samkeppnisfyrirtæki við hraðfrystihúsin og dregið fram lífið af veikum mætti og þó varla gert það, því að enginn rekstrargrundvöllur er fyrir hendi, og mér hefur því verið ómögulegt að fá rekstrarfé til þess, og bankarnir vita, að það getur ekki borið sig, og hef ég því komið að daufum eyrum hjá þeim. Eftir að ég tók við, gat ég útvegað nokkurt lánsfé, en ekki nema lítinn hluta af þeim 7 millj. kr., sem fyrirtækið er búið að kosta. Það er því ekki stjórn fyrirtækisins, sem ber að áfellast, heldur sú ríkisstj., sem fer út í svona fyrirtæki, sem er byggt á sandi. Þetta vildi ég segja af því, að mér fannst ádeila hv. 1. þm. Reykv. beinast um of að þeim mönnum, sem ég hef falið stjórn fyrirtækisins. Ég tel, að þessi spor eigi að hræða og fá menn til að grundvalla fyrirtæki á heilbrigðari hátt. Það má vera, að ég mæli hér fyrir daufum eyrum, því að hér hefur verið samþ. að byggja annað fiskiðjuver á enn þá aflaminni stað, svo að ekki lítur út fyrir, að hv. þm. hafi lært mikið af þessu.

Ég tel sjálfsagt, að til sé heimild til að þiggja styrk frá öðrum en ríkissjóði eða lán, sem ábyrgzt er af ríkissjóði. Það getur aldrei skaðað, að svona heimild sé til, og væri óskandi, að hlutafjár- og samvinnuþátttaka í svona fyrirtæki væri nokkuð almenn, en ef fyrirtækið fengi þetta snið á sig, vinnst það, að þeir, sem stjórna því, fengju meiri ábyrgð, en almennt gerist um ríkisfyrirtæki, að öllum stjórnendum þar ólöstuðum. Þarna er möguleiki fyrir samvinnu ríkis og einstaklinga, að félagsskapur, sem þessir aðilar stæðu að, stæði að byggingu og rekstri áburðarverksmiðjunnar.

Það getur verið, að brtt. á þskj. 534 frá hv. þm. Barð. sé góð, en mér virðist, að verði brtt. á þskj. 412 samþ., þá sé opin leið að nota alla eða einhverja af möguleikum þeim, sem hv. þm. Barð. nefndi, án þess að binda sig fyrir fram, og það er kostur á brtt. á þskj. 412, að hæstv. ríkisstj. hefur frjálsar hendur í því, hvaða leiðir hún velur. Ég vil taka undir með þeim röddum, sem vilja, að fyrirtækið sé ekki einungis grundvallað á ríkisrekstri, heldur á samfélagi einstaklinga og ríkis. Ég tel hitt heldur ekki rétt, að áfellast stjórn fiskiðjuversins í Rvík fyrir þau vandræði, sem það fyrirtæki er komið í og hefur alltaf verið í. Ég veit ekki, hvað hv. þm. halda farsælast til samkomulags eða skynsamlegasta grundvöllinn, en einn hv. nm. úr landbn. sagði, að búið hefði verið að ganga frá nál., þegar brtt. á þskj. 412 kom fram, og ef hv. nm. þykja till. aðgengilegar, þá vil ég benda á, að opin leið er til að nota till., því að það er naumast frambærilegt, að segjast ekki geta fallizt á till. á þskj. 412. Þær eru í engu bindandi, en halda bara opinni leið til að tryggja framgang málsins betur, og sé till. felld, þá er þeirri leið lokað, a.m.k. í bili.