15.11.1948
Efri deild: 15. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í B-deild Alþingistíðinda. (72)

15. mál, virkjun Sogsins

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Mér finnst rétt að fylgja þessu frv. úr hlaði með nokkrum orðum. Eins og hv. þm. sjá, þá er sú breyting, sem farið er fram á, að verði gerð á þessum l., að víkja við einni grein gildandi laga um virkjun Sogsins, frá 1946. Í þeim l. er svo kveðið á, að ríkinu sé heimilað að vera meðeigandi Reykjavíkurbæjar að Soginu og þeim mannvirkjum, sem þar rísa. Nú hafa ríkisstjórnin og bæjarstjórnin staðið á annað ár í samningum til þess að komast á grundvöll með það, hvernig slíkt gæti orðið. Í l. frá 1946 er svo kveðið á, að gert er ráð fyrir, að ríkið kaupi helming eigna Reykjavíkurbæjar í Sogsvirkjuninni, og er greint frá þessu í 8. gr. l., að þegar ríkissjóður er orðinn eigandi að hálfu fyrirtækinu, tilnefnir bæjarstjórnin 2 menn í stjórnina, ríkisstjórnin 2, en hæstiréttur tilnefnir þá fimmta manninn. Lagt er til, að stjórnin skuli vera skipuð til þriggja ára í senn. Það þótti eðlilegt, að Reykjavíkurbær hefði helming fulltrúanna í stjórn fyrirtækisins, enda er hér um sameiginlega eign ríkis og bæjar að ræða, og svipuð leið mun vera farin viða annars staðar, þar sem líkt er ástatt, t.d. í Noregi á milli Oslóborgar og ríkisins.

Hv. Nd. tók þessu máli vel, og leyfi ég mér að vænta, að þessi hv. d. afgr. málið með skilningi og velvild og að málinu verði vísað til hv. iðnn. að þessari umr. lokinni.