22.04.1949
Efri deild: 86. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í B-deild Alþingistíðinda. (721)

16. mál, áburðarverksmiðja

Frsm. meiri hl. (Eiríkur Einarsson):

Herra forseti. Það er nú búið að færa fram mörg orð til andmæla þessu frv. Hv. minni hl. landbn. vill líta öðrum og stærri eða meir stórhuga augum á þetta áburðarverksmiðjumál en meiri hl. n. gerir, og vill hv. minni hl. n., að tekin sé til nýtingar í þágu verksmiðjunnar mikil vatnsorka til rafmagnsframleiðslu og á öðrum stað, en átt er við samkv. þessu frv. Að vera að fara mörgum orðum um þessa skoðun hér til viðbótar því, sem áður hefur sagt verið hér, er í raun og veru alveg þýðingarlaust.

Það, sem meiri hl. landbn. hefur tekið fram og hefur stuðzt við, það er frv. í meginatriðum eins og það hefur komið frá hv. Nd. Og þar koma frá mínu sjónarmiði þau rök til greina, að þetta mál fremur flýti fyrir því, að Sogið í heild verði virkjað, heldur en ef virkjun þess miðaðist eingöngu við þarfir einstaklinga. Og ef miðað er við tímann 1960–70, þá er það víst, að rafmagnsframleiðslan í Soginu getur ekki orðið svo mikil, að hún fullnægi bæði almannaþörfinni og áburðarverksmiðju líka. Er þetta í samræmi við það, sem þeir fræðimenn segja, sem fengizt hafa við athugun þessara mála, sem og hitt, að þær staðhæfingar fylgja því líka, að allt, sem gert verði til þess að auka rafmagnsorkuna, komi að fullum notum og sé ekki verið að vinna fyrir gíg, þó að þróunin í þessum efnum verði til þess, að það þurfi að færa út kvíarnar til stórorkuvinnslu. Og hvort sem um stóra virkjun væri að ræða við Urriðafoss eða hjá Búrfelli, þá þarf slík framkvæmd ákaflega mikinn og víðtækan undirbúning, og má þar um segja, að ekki sé ráð, nema í tíma sé tekið, því að sá undirbúningur mun að líkindum kosta allverulegan tíma.

Ég gef ekki svo mikið fyrir það, hvort þetta mál er nú rætt meira eða minna. Hér er um heimildarlög að ræða, og höfuðatriðin hafa komið fram, sem hægt er að vita í málinu. Og eins hafa þau atriði málsins komið fram, sem hljóta að byggjast á ágizkunum, t.d. um aukningu á almennri rafmagnsþörf fólksins.

Ég tók eftir því, þegar þetta mál var rætt hér síðast og bárust í tal þær brtt., sem liggja hér fyrir til umr., að hæstv. fjmrh. hafði orð á því, að nál. okkar í meiri hl. landbn. væri fáort og lítið á því að græða og m.a. létum við ekki annars getið um brtt. hv. 1. þm. Reykv., en að við sæjum okkur ekki fært að fallast á hana — og rétt er það — og að við hefðum ekki gert grein fyrir ástæðunum fyrir því, að við féllumst ekki á hana. Ég vildi, að það hljóð bærist til hæstv. fjmrh., að það að semja langt nál. um frv. um áburðarverksmiðju, það virtist ekkert vera annað, en að gera leik að því að prenta mikið af þingskjölum, sem nóg er til af, og teygja lopann sem mest. Við byggðum á sömu rökum og lágu fyrir í Nd., og hefur enga þýðingu að endurtaka þau, það er bara mærðartugga.

Þá gat hæstv. fjmrh. um annað, að við skyldum ekki í nefndinni hafa rætt þær brtt., er þá lágu fyrir. En við ræddum brtt. hv. 1. þm. Reykv., en brtt. hv. þm. Barð. kom ekki fyrr en seinna, svo að það leiddi af sjálfu sér, að hún var ekki rædd. En varðandi brtt. á þskj. 412 vil ég segja þetta: Þetta frv. er eitthvert stórbrotnasta mál þessa þings, og skildist mér á hæstv. ráðh., að honum fyndist fátt um, að við skyldum ekki fallast á þá brtt., er ég nefndi. En við nm. gerðum þetta vísvitandi, af því að ef fara ætti að þessu leyti að breyta grundvelli frv., sem er stjfrv., þá tel ég fyrir mitt leyti tæplega gerlegt, að nefndin raski fjáröflunargrundvellinum nema á þann veg, að það sé gert í beinu samráði við ríkisstj. Þetta er frv. hennar og stærsta málið, sem lengi hefur verið fyrir Alþ., og fjáröflunargrundvöllurinn er ekkert aukaatriði. Það má sjálfsagt margt segja um fjáröflunarleiðir, en ég tel sjálfsagt, að leitað sé samráðs við stjórnina varðandi þau undirstöðuatriði. Ef stjórnin stendur ekki einhuga að frv., tel ég, að ýmislegt hljóti að vera bogið við það. Ég er svo einfaldur, að ég held, að frv. hafi verið lagt fram til að fá framgang, og ég vildi, að stjórnin fyndi samleið í þessu mikilsverða máli, svo að það fengi eðlilegan framgang.

Ég geri ráð fyrir, að þau boð hafi borizt til eyrna flm. brtt., hvort ekki mætti láta þær bíða og taka þær aftur til 3. umr. í trausti þess, að allt yrði þetta kannað betur í beinu samráði við ráðherrana alla, en ekki aðeins þann eina, sem nú er hérna megin við þilið. Ég ætla því ekki að svo stöddu að ræða um kosti og galla þessara brtt., sem geta átt rétt á sér, það skal ég láta ósagt, en feður frv., ríkisstj., eiga sannarlega að láta sitt álit í ljós áður en hamarinn fellur.

Ég vænti þess nú að hv. form. landbn. stuðli að því, að hæstv. ráðherrar láti í þessum efnum til sín heyra þingmönnum til stuðnings og leiðbeiningar um það, hvað stjórnin vill í þessu máli, sem hún hefur borið fram. Ég vil fyrir mitt leyti vinna að því, að nefndin geti haldið fund með ráðherrunum til að taka afstöðu til þessa mikla máls.