23.04.1949
Efri deild: 87. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í B-deild Alþingistíðinda. (727)

16. mál, áburðarverksmiðja

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Það voru nokkur atriði, sem ég vildi ræða og svara, af því, sem fram kom í ræðu hv. þm. Barð. Þm. hélt langa ræðu, kom víða við og lagði fram margar spurningar. Fyrstu spurningunni er mjög örðugt að svara, svo að öruggt sé. Þar ræddi þm. um og spurði, hvort 7.500–10.000 smálesta verksmiðja gæti borið sig. Það hefur verið tekið fram og liggur reyndar ljóst fyrir, að hlutfallsleg afkastageta eykst með stærri verksmiðjum og munar mestu á fyrstu stigum, en hve lengi þessi aukning eykur aðstöðuna til framleiðslu stöðugt ódýrari áburðar, er ekki hægt um að segja með neinni vissu. Það segir sig þó sjálft, að ekki er hægt að framleiða stöðugt ódýrari áburð, þótt verksmiðjan stækki, einhver takmörk hljóta því að vera sett. Þótt um væri að ræða 30.000 smál. verksmiðju, gæti maður spurt: Ber hún sig, miðað við 10.0000 smál. verksmiðju? Hins vegar, þegar verksmiðjan er komin í fullkomið vinnsluhæft ástand, verður hún fyllilega samkeppnisfær við hliðstæðar verksmiðjur í nágrannalöndunum, svo að eigi þarf að óttast vandræði í sambandi við sölu afurða hennar. Í Noregi eru t.d. mest 5–10 þús. smál. verksmiðjur, svo að í samkeppni við þær ætti að vera öruggt, að hún gæti borið sig.

Það hafa verið fengnir færustu sérfræðingar í Bandaríkjunum til þess að reikna út stofn- og rekstrarkostnað þessarar verksmiðju, en verið farið yfir þá útreikninga af íslenzkum kunnáttumönnum og þeim breytt í samræmi við íslenzka staðhætti. Samkvæmt niðurstöðum þessara manna ætti 7.500–10.000 smál. verksmiðja að geta framleitt eitt tonn fyrir 470 kr. Innkaupsverð sams konar áburðar í Kanada er 674 kr. tonnið og í Noregi 726 kr. tonnið, svo að verðmunur er þarna æði mikill, og þó er athugandi, að eftir er að leggja við þetta verð flutningskostnað, sem alls ekki er svo lítill. Enn fremur er athugandi, að í þessu framleiðsluverði er reiknað með þeim vinnulaunum og verðlagi, sem nú er í landinu, en það er svo hátt, að Íslendingar geta ekki framleitt sína aðalútflutningsvöru án þess, að ríkið verði að hlaupa undir bagga. Það er því útilokað annað, en við verðum að laga verðlagið í landinu, svo að við séum fær að stunda okkar aðalútflutningsatvinnuveg, ella mun illa fara. Rekstrargrundvöll atvinnutækjanna verður því að öryggja og bæta, en um leið batnar framleiðsluaðstaða áburðarverksmiðjunnar og afurðir hennar lækka samsvarandi við framleiðslukostnaðinn. Þetta teljum við sjálfsagt, ekki aðeins vegna bændanna, sem þurfa að nota áburðinn, heldur líka fyrir þjóðfélagið í heild, því að nú verðum við að flytja áburðinn inn, og gæti þannig þetta fyrirtæki sparað okkur mikinn gjaldeyri, en einnig skapað hann, ef við færum að flytja áburð út. Hve mikið öryggi felst í því að framleiða vöruna hjá sjálfum sér, er svo augljóst, að um það þarf ekki að ræða. Á þessum líkum er þetta frv. flutt, þótt ekkert sé hægt um það að segja, hvort ár og ár sé ekki hægt að fá áburð ódýrari annars staðar.

Þá ræddi hv. þm. um raforkuna til verksmiðjunnar á svipaðan hátt og frsm. hv. minni hl. landbn. Um það mætti auðvitað deila, hvort raforka úr Soginu væri nægileg til allra nauðsynlegra framkvæmda næstu árin. En hitt er fullvíst, að nægileg orka er í því eins og er. Þá höfum við bæði hér syðra og eins uppi í Borgarfirði gnótt hentugra fossa til að virkja, ef þörf krefur, og ber ég því engan kviðboga fyrir því, að við getum ekki fengið nægilegt rafmagn til almennra nota, þótt verksmiðjan komi.

Síðan spurði hv. þm., hvort athugaðir hefðu verið möguleikar á að framleiða áburð úr límvatni því, sem forgörðum fer hjá síldarverksmiðjunum. Ég hygg, að það hafi verið fyrir rúmu ári, að þessu var hreyft í Sþ., og lét ég þá þegar athuga málið. Niðurstaðan varð sú, að ekki mundi svara kostnaði að framleiða úr því áburð, þótt í því væri hann ágætur, nema taka vatnið við verksmiðjuvegg, sökum þess, hve flutningskostnaður límvatnsins væri mikill. Hins vegar var mér skýrt frá því fyrir nokkru, að í Englandi og Bandaríkjunum væri hafin framleiðsla fóðurbætis úr límvatni með því að þétta það og væri það nefnt soðkjarni, en eftir þessa meðhöndlan er það líka orðið of dýrt til að nota það sem áburð, en það er prýðilegur áburður, mestmegnis köfnunarefnisáburður, en aðeins mjög lítið af kalí og fosfór. Þetta er einhver sá bezti fóðurbætir, sem hægt er að fá og samsvarar undanrennu eða þurrmjólk að fóðurgildi. Það var byrjað að framleiða þetta í Bandaríkjunum og Þýzkalandi fyrir stríð. Það var gerð tilraun með þessa framleiðslu á Hjalteyri fyrir stríð, en það þótti ekki svara kostnaði þar, og áhöldin voru endursend til Þýzkalands, en þau voru mjög ófullkomin á þessu fyrsta stigi. Þessi aðferð hefur síðan verið aukin mjög og endurbætt í Bandaríkjunum, fullkomnari áhöld komizt í notkun og mjög mikið verið gert að þessu. Mér hefur verið tjáð, að í ráði væri, að svona tæki af fullkomnustu gerð yrðu fengin í verksmiðjuna í Örfirisey, og ætti þá að fást reynsla fyrir því, hvort þessi framleiðsla borgar sig. Verði þessi reynsla hagkvæm, virðist sjálfsagt að yfirfæra slík tæki í aðrar verksmiðjur. En það verður ekki til að leysa úr áburðarvandamálinu, soðkjarni er allt of dýr sem áburður, þó að hann kunni að reynast kaupandi sem fóðurbætir.

Þá ræddi hv. þm. um það, hve miklu fé væri búið að kosta til rannsókna á þessu áburðarverksmiðjumáli. Ég get ekki gefið upplýsingar um það, hverju hefur verið til þess kostað frá upphafi. Nú í seinni tíð voru upptök þessa máls þau, að þáverandi atvmrh., Vilhjálmur Þór, fékk hingað amerískan sérfræðing til landsins til þess að ráðfæra sig við um þessi mál. Ég hef ekki getað aflað mér upplýsinga um það, hvað það hefur kostað. Næsta stigið var það, að nýbyggingarráð fól dr. Birni Jóhannessyni að ferðast til Norðurlanda til rannsókna vegna þessa máls, en ég hef heldur ekki getað aflað mér upplýsinga um, hvað sú ferð hefur kostað. Þá var sett upp verksmiðjunefnd að tilstuðlan nýbyggingarráðs, sem starfaði í nokkurn tíma og skilaði áliti til ráðsins. Ég hef ekki getað aflað upplýsinga um það, hvað sú n. hefur kostað ríkið. Hins vegar get ég skýrt frá því, hverju hefur verið varið til þessa máls í minni stjórnartíð. Fyrst er að geta þess, að eftir að hugmyndinni skaut upp um það, að hagkvæmara mundi verða að framleiða hér aðeins ammoniak, að það mundi verða ódýrara og minni stofnkostnaður verða við það, sendi ég dr. Björn Jóhannesson til Bandaríkjanna til þess að afla allra fáanlegra upplýsinga um framleiðsluaðferðir, notkun og kostnað við þessa framleiðslu. Sú ferð kostaði 8.365.00 kr. Þá hélt atvinnudeildin áfram að gera tilraunir með þennan loftáburð, ammoniakáburð, og er sumum þeirra enn ekki lokið. Kostnaðurinn við þær tilraunir hefur orðið 10.122.00 kr. Þá sendi ég Jóhannes Bjarnason til Bandaríkjanna á s.l. sumri til þess að afla upplýsinga um þessi mál í Bandaríkjunum. Dvaldi hann þar um tíma, og varð kostnaðurinn við þá ferð 11.441.00 kr. Enn fremur sendi ég sama mann í vetur til Evrópu í sambandi við Marshallráðstefnuna, sem þar var, þar sem þess var mjög krafizt af Marshallráðinu í Evrópu, að ef til þessara framkvæmda kæmi hjá okkur, þá yrðu vélarnar keyptar í Evrópu, en ekki í Bandaríkjunum. Ég sendi þennan mann þá til að afla vitneskju um það, hvaða líkur væru til þess, að við fengjum vélar og tæki í svona verksmiðju í Evrópu með svipuðum kjörum og annars staðar, og sama var að segja um sementsverksmiðjuna. Sá kostnaður af ferð hans, sem reiknaðist áburðarverksmiðjunni, var 8.486.00 kr. Þessi kostnaður allur saman er því orðinn 38.415.89 kr. En því miður geri ég ráð fyrir því, að allur sá kostnaður, sem farið hefur í það að rannsaka gæði og notkun fljótandi ammoníaks, honum hafi verið eytt fyrir ekki neitt, því að niðurstöðurnar sýna, að útilokað er að ætla að byggja okkar áburðarframleiðslu á því fyrirkomulagi. Sá kostnaður hefur þannig farið í súginn, en hins vegar voru þetta rannsóknir, sem við urðum að gera til þess að fá úr þessu skorið, og sé ég í sjálfu sér ekki eftir því, að sú athugun hefur verið gerð. Hins vegar eru nú að koma niðurstöður af tilboðum, sem aflað var víðs vegar í Evrópu fyrir tilstuðlan Jóhannesar Bjarnasonar. Eru nú þegar komin tilboð frá Ítalíu, Sviss, Frakklandi og Englandi um áburðarverksmiðju af þessari stærð. Þau tilboð sýna öll, að útilokað er að ætla að kaupa verksmiðju af þessari stærð í Evrópu. Þær eru allar stórum dýrari og þurfa miklu fleiri menn, en amerísku verksmiðjurnar og miklu stærri húsakynni. Það sýnir sig þannig, að Bandaríkjamenn eru, eins og vitanlegt var áður, komnir langlengst í því að reisa og framleiða fullkomnar verksmiðjur af þessari tegund, svo að það er ekki sambærilegt. Það er því vafalaust, að ef við reisum þessa verksmiðju, þá eigum við að fá vélar frá Bandaríkjunum, og takist okkur að koma upp verksmiðju með vélum þaðan, þá er tryggt, að við fáum verksmiðju, sem er á toppi þess fullkomnasta, sem nú þekkist í heiminum. Þessar rannsóknir eru nú þegar búnar að leiða það í ljós.

Þá spurði hv. þm. um það, hvort strax yrði skipuð verksmiðjustjórn. Ég sé nú, að í brtt. frá hv. landbn. er gert ráð fyrir því, að hún verði kosin á því sama þingi, sem l. verða samþ. á, og þá væntanlega á þessu þingi. Tel ég það vera rétt, en hins vegar kemur það af sjálfu sér, að ekki verður farið að greiða þeirri verksmiðjustjórn fullt kaup fyrr en hún tekur til starfa. Aftur á móti getur það verið nauðsynlegt, að þessir menn, sem í þetta verða kosnir, fari að byrja á undirbúningi og athugunum við framkvæmd málsins, og verður þá náttúrlega að greiða þeim eitthvað fyrir þau störf.

Þá ræddi hv. þm. um það, að nauðsynlegt væri að tryggja sér með samningi nægilegt rafmagn þegar í upphafi, og er ég honum sammála um það. Það er eitt hið fyrsta, sem stjórnin þarf að gera, þegar hún hefst handa um framkvæmdir þessar.

Þá vil ég með nokkrum orðum svara hv. frsm. minni hl. landbn. Ég hef að sumu leyti komið inn á það atriði í sambandi við svar mitt til hv. þm. Barð., þ.e.a.s. um stofnkostnaðarhlutföllin milli minni og stærri verksmiðju, og svara ég því ekki miklu frekar, en vegna þess, sem hann sagði um rafmagn, vil ég endurtaka það, að ég tel, að enginn ágreiningur ætti að þurfa að vera um það, að hægt sé að fá nægilegt rafmagn frá Soginu til þess að reka þessa verksmiðju. Deilan verður þá um hitt, að takmörkuð verði þá um of önnur rafmagnsnotkun í landinu. Verði það, þá verðum við að leita þeirra úrlausna annars staðar, og við höfum nægileg vatnsföll til þess að virkja til slíkra hluta. Það yrði alltaf léttara, en að ráðast í stórvirkjun, eins og sakir standa.

Þá er hér enn eitt atriði, sem hv. 8. landsk. spurði um, og það var þetta: Er ætlazt til að íslenzkir bændur greiði áburðinn með kostnaðarverði, hvað sem það verður og jafnvel þó að hægt verði að fá áburðinn ódýrari erlendis frá? Ég var spurður um þetta í hv. Nd. líka, og ætla ég að svara þessu eins hér. Álit mitt er það, að íslenzkir bændur hljóti að sjálfsögðu að verða að greiða áburðinn með því kostnaðarverði, sem á honum er á hverjum tíma. Annað er útilokað. Ég get eins spurt hv. þm. um það, ef hann hefur hugsað sér að reisa hér 30 þús. tonna áburðarverksmiðju, — en hann hefur haldið því fram, að með 100–200 þús. tonna verksmiðju yrði hægt að framleiða ódýrari áburð, — mundi hann þá ætlast til þess, ef það sýndi sig, að ódýrari áburð yrði hægt að fá erlendis frá, en þessi 30 þús. tonna verksmiðja gæti framleitt, að ríkið borgi niður áburðinn frá henni? Það liggur í hlutarins eðli, að landsmenn verða að bera kostnaðinn af þeirri vöru eins og kostar að framleiða hana, sem við Íslendingar framleiðum. Það er útilokað annað. Ég veit ekki betur, en að sú venja sé alls staðar í verksmiðjulöndum, þar sem vara er framleidd til notkunar innanlands og til útflutnings, að þá sé hún alltaf seld í landinu með fullu kostnaðarverði. Ég hef fengið upplýsingar um þetta frá Englandi í sambandi við sementsframleiðsluna. Það er eðlilegt, að það komi fyrir, að offramleiðsla verði á sementi. Þá grípa verksmiðjurnar til þeirra ráða að lækka verðið til þess að koma því út og selja það oft langt undir kostnaðarverði út úr landinu, en innlendir kaupendur kaupa það á kostnaðarverði. Við verðum að hafa þá sömu reglu, bæði við framleiðslu og sölu áburðar og sements, sem sé þá, að fólkið í landinu verði að borga fyrir þessa vöru eins og hún kostar og eins og nauðsynlegt er að leggja á hana til þess að halda starfrækslunni uppi, jafnvel þó að það komi ár og ár, sem sementshringirnir í heiminum búa við offramleiðslu og vildu selja framleiðslu sína fyrir slikk, þá verðum við að sætta okkur við það að nota okkar innlenda sement, ef við ekki þyrftum meira en það, sem við framleiddum sjálfir. Við verðum að gera okkur grein fyrir þessu fyrir fram, og þannig er það með aðrar vörur, sem við framleiðum. Tryggingin, sem er fólgin í því að framleiða vöruna í landinu sjálfu, og ágóðinn, þegar verðlagið fer hátt og upp úr öllu valdi úti í löndum, verður að koma á móti og jafna áhættuna, sem orsakast af því, að við einstöku sinnum höfum hærri framleiðslukostnað og þar af leiðandi hærra verð, en hægt er að fá með skyndiverzlun erlendis frá af óviðráðanlegum orsökum.

Þá vildi ég segja nokkur orð, áður en hæstv. fjmrh. fer af fundi. Hann minntist hér á brtt., sem hefðu komið fram frá hv. 1. þm. Reykv. og hv. þm. Barð., og lagði allmikla áherzlu á það, að a.m.k. brtt. frá hv. 1. þm. Reykv. yrði samþ. Ég verð nú að segja það, að þó að ég bæri þetta frv. fram sem ríkisfyrirtæki einvörðungu, þá er það ekki vegna þess, að ég sé sjálfur neinn sérstakur ríkisrekstrarpostuli, eins og það er kallað, þótt ég viðurkenni það, að eðlilegt og rétt sé, að sum fyrirtæki séu rekin af ríkinu, en ekki einstaklingum. Hins vegar þætti mér eðlilegt og æskilegt, að bein atvinnufyrirtæki væru rekin af einstaklingum, en ekki ríkinu. Hér er þó um svo stórkostlegt fyrirtæki að ræða á íslenzka fjármálavísu, að ég taldi það ekki nokkra leið, að fyrirtækinu yrði komið upp nema með aðstoð ríkisins, á sama hátt og ríkið á undanförnum árum hefur haft með rekstur síldarverksmiðjanna að gera, sem þó eru í eðli sínu atvinnutæki sjávarútvegsins, taldi ég að ríkið yrði að hlaupa undir bagga með þessu atvinnufyrirtæki landbúnaðarins, og taldi ég þessi fyrirtæki að nokkru leyti hliðstæð. Hins vegar dettur mér ekki í hug að banda hendinni á móti því, ef líkur eru til þess, að hægt sé að fá viðbótarfjármagn, einkafjármagn, inn í þetta fyrirtæki. Ég vil alls ekki slá hendinni á móti því að fá í frv. heimild svipaða því, sem felst í till. hv. 1. þm. Reykv., og þá sérstaklega eftir að hæstv. fjmrh. hefur mælt mjög eindregið með þessu, en í þeirri till. er það fram tekið, að ríkið skuli leggja á móti framlögum einstaklinga sem hlutafé allt að 71/2 millj. kr. Ég verð að viðurkenna, að það yrði geysilega mikill styrkur fyrir fyrirtækið, þó að það sé ekki nema hluti af kostnaðinum, ef það gæti fengið 10 millj. kr. í eigin höfuðstól, sem þarna ætti að vera fastur, og þyrfti þá ekki að byggja algerlega á lánum. Ég mun því mjög gjarna taka þessa till. til athugunar og mun óska eftir því, að flm. taki hana aftur til 3. umr., svo að hægt verði að ræða hana við hann og n. Það eru ýmis atriði í till., sem ég tel, að ekki geti staðið óbreytt, aðallega formsatriði, enda þótt hún verði samþ. efnislega. Svipað get ég sagt um till. hv. þm. Barð., að ég vildi óska eftir því, að hann tæki till. sína aftur, því að jafnvel þó að hún ætti að geta fengið samþykki d., mundi hún þurfa ýmiss konar endurbóta við. Yrði hún samþ., teldi ég nauðsynlegt að breyta að einhverju leyti stj. verksmiðjunnar. Ég tel ekki mikil líkindi til þess, að það fengist mikið prívatkapítal inn í verksmiðjuna, ef þeir, sem legðu fram fé, fengju engin áhrif að hafa á stj. hennar. — Það er fleira í sambandi við þessar till., sem ég mun ekki ræða nú, þegar ég heyri, að þær eru báðar teknar aftur til 3. umr., og gefst þó tími til þess að ræða við hv. flm. till. um þær. Að síðustu vildi ég svo óska eftir því við hæstv. forseta, að d. hraði afgreiðslu málsins.