23.04.1949
Efri deild: 87. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 478 í B-deild Alþingistíðinda. (728)

16. mál, áburðarverksmiðja

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég gerði ráð fyrir því í gær að þurfa ekki að tala miklu meira í þessu máli, en ég þá talaði, en að gefnu tilefni verð ég að segja hér nokkur orð, m.a. til að svara til saka fyrir mig og þá n., sem ég er formaður fyrir, og kem ég að því síðar. Fyrst ætla ég að koma að efni málsins. — Ég skal játa það, að ég er ekki með ríkisrekstri stofnana, nema nauðsyn krefji, en það var annað, sem hér gerði það, að ég ekki vildi, eins og sakir stóðu, mæla með till. hv. 1. þm. Reykv. Það var vegna þess, að eftir því, sem málið lá fyrir frá hæstv. ríkisstj., var ekki neitt um þessa hlið málsins greint og ekki líkindi fyrir því, að það mundi verða til mikils árangurs að fara út í hlutafjársöfnun til verksmiðjunnar hér innanlands. En úr því að hæstv. ríkisstj. er nú komin í aðra átt og hyggur það einhvern árangur hafa, þá vil ég ekki vera á móti því. Ég vil sérstaklega beina því til hæstv. ríkisstj., að sá meginstólpi, sem þar ætti að standa undir, ef til slíkra framlaga kæmi, er auðvitað Samband íslenzkra samvinnufélaga, og ætti hún þá að herja á þann garð, þar sem bæði ætti að vera vilji til að gera eitthvað og áreiðanlega eru til efni til þess. En ef ætti að leita til bænda með þetta, þá er það svo, að þeir eiga margir nóg með sjálfa sig, að koma sér fyrir á sínum jörðum, svo að vel fari, og þeir mundu ekki ófúsari að lána sitt fé beint til þessa en að láta sitt fé til að stofna hlutafélag. En sem sagt, fyrst ríkisstj. hefur tekið þessa stefnu og óskar að athuga þetta mál, er það sjálfsagt, að við í landbn. förum ekki að vera á móti því, en hins vænti ég, að hún verði dálítið betur undirbúin en hún nú virðist vera um það, hvað fram undan muni vera, ef þessi leið væri farin. Þessu vildi ég beina til ríkisstj.

Í öðru lagi þarf ég aðeins að ávarpa vin minn, hv. þm. Barð. Þó að þetta sé prýðismaður, — ekki innan gæsalappa, — þá er hann farinn að gerast svo umsvifamikill, að meira að segja hæstv. forseti er farinn að hverfa í skuggann fyrir honum, því að hann er farinn að átelja vinnubrögð okkar í n., en ég hafði nú haldið, að hæstv. forseti væri verkstjóri þar. Ég hef látið þetta afskiptalaust til þessa, en vil þó gera við þetta örfáar aths. Ég veit, að ég hefði verið betur upplagður að svara honum í gær, þegar runan kom úr honum. Ég vil þá fyrst taka fram, að hann minntist á athugunarleysi hjá okkur. Þetta mál var mjög rækilega undirbúið og fylgdi því þriggja blaða grg. frá ríkisstj. Við fórum í gegnum þetta mál og tókum á okkar fund ágæta sérfræðinga, m.a. mann, sem er hv. þm. Barð. miklu fremri bæði að greind og þekkingu á þessu máli, og það er mágur hans, Ásgeir Þorsteinsson. Lögðum við mikið upp úr því, er hann sagði, að vísu kannske ekki beinlínis vegna mágsemdanna, en hann benti okkur á það, að fram til ársins 1960 mundum við hafa nægilegt rafmagn til verksmiðjunnar, ef Sogið væri virkjað allt eins og hægt væri. Við álitum ekki neina þörf á að skila frá okkur mjög löngu nál., og m.a. var það líka. að þessi framkvæmdanna forkólfur, hv. þm. Barð., var ekki kominn fram með neinar brtt., þegar við héldum okkar fund og gáfum út nál., þó að útgáfa nál. frá okkur drægist hjá frsm. um nokkra daga eftir að við vorum búnir að ákveða fundinn. Álit hv. þm. kemur ekki fyrr en löngu, löngu seinna. Hvers vegna var hann að draga það? Ég taldi réttast að láta nál. fara, úr því að það var komið, og ræða það hér við 2. umr. eins og það lá fyrir, en taka svo málið allt til athugunar milli 2. og 3. umr. Og ég sný ekki aftur með það, að ég álít þetta vera mjög sæmileg vinnubrögð í alla staði. Ég vil benda hv. þm. Barð. á það, að ekki er allt undir því komið að skrifa löng nál. Og ég verð að segja það honum til hróss, að hann hefur alveg nýlega í máli, þar sem hann er bæði form. og frsm., gefið út nál., sem er aðeins ein lína, og er það mikill kostur.

Hv. þm. Barð. ræddi um, að óþolandi væri að líða það, að þm. tækju aftur till. sínar. Ég fór hér að nokkru leyti með umboð frá hv. 1. þm. Reykv. (BÓ), þar sem ég las upp tilkynningu frá honum, og endurtek það nú, að hann tekur aftur till. sína í þessu máli til 3. umr. En ég vil segja hv. þm. Barð. það, að enginn hv. þdm. er svo vesall, að hann ráði ekki sjálfur, hvort hann tekur aftur till. sínar eða frestar þeim eða ekki. — Ég get sem sagt lýst því yfir, að ég mun ekki þjarka lengi við hv. þm. Barð. um vinnubrögð landbn. Ég veit ekki betur en að hún hafi leyst störf sín eins fljótt og vel af hendi og sumar aðrar n., sem hv. þm. Barð. hefur verið við riðinn. Mér finnst ekki sitja á þeim, sem í glerhúsi búa, að kasta steinum að okkur hinum. Ef hæstv. forseti kynni að óska eftir, að aðrir taki við formennskunni í landbn., mun ég taka tillit til þess, en ekki frá öðrum en viðkomandi mönnum.