23.04.1949
Efri deild: 87. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í B-deild Alþingistíðinda. (730)

16. mál, áburðarverksmiðja

Frsm. minni hl. (Ásmundur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að tala langt mál, því að það eru aðeins örfáar aths. út af ræðu hæstv. landbrh. — Ráðh. hélt því fram í síðustu ræðu sinni, að þegar verksmiðjustærðin væri orðin sú, sem hér er um að ræða, mundi verksmiðjan vera orðin samkeppnisfær hvað stærð og lágan framleiðslukostnað snertir við það, sem gerist erlendis nú á þessum tímum. Ég hef leyft mér að halda hinu fram, að þetta takmark mundi ekki nándar nærri vera komið, þó að verksmiðjan kæmist upp í 7500–10000 tonn, og ég kalla það útúrsnúning, þegar hæstv. ráðh. segir, að ég hafi haldið því fram, að það mundi ekki verða fyrr en við 200 þús. tonn. Ég tók fram og hafði það eftir opinberu skjali, sænskum sérfræðingi, að hann teldi framleiðslukostnaðinn vera að lækka, þangað til verksmiðjustærðin er orðin 200 þús. tonn, þó að vitanlegt sé, að hann lækkar ekki eins ört, þegar verksmiðjustærðin er mikil, og þegar hún er lítil. Það má yfirleitt fullyrða, að langt upp fyrir þá verksmiðjustærð, sem hér er um að ræða, haldi framleiðslukostnaðurinn áfram að lækka. Ég tel, að ráðh. hafi ekki fært sönnur fyrir því, að hin eðlilega stærð væri komin, miðað við það, sem frv. gerir ráð fyrir, og því hafi hann ekki hrakið þau rök, sem ég hef haldið fram, að stærðin þyrfti að vera meiri, eigi verksmiðjan örugglega að geta verið samkeppnisfær hvað lágt verð snertir.

Þá kem ég að því, sem hæstv. ráðh. minntist á í sambandi við rafmagnið, þ.e. hvort nægilegt rafmagn fengist frá Soginu til jafnvel ekki stærri verksmiðju en hér er um að ræða. Þetta hefur verið rætt af fleiri þm. en mér, þ. á m. af hv. þm. Barð., sem var á sama máli og ég, og hv. 1. þm. N-M. Það virðist því vera allmjög útbreidd skoðun í d., að teflt sé á tæpasta vaðið með því að gera ráð fyrir, að þessi rekstur geti fengið nóg rafmagn frá Soginu. Ráðh. reyndi að snúa sig út úr þessu með því að segja, að því væri ekki að neita, að hægt væri að fá nóg rafmagn frá Soginu til þessarar verksmiðju, og það er vitanlega rétt. En hins vegar vildi hann reikna með því, að það rafmagn yrði tekið til verksmiðjunnar, þó að skortur yrði á rafmagni til annarra hluta, en reyndi ekki að afsanna það, sem ég sagði, að þegar um það væri að ræða, hvort nota ætti hið fáanlega rafmagn til verksmiðjunnar eða nota það til annarra hluta, þar sem hærra verð byðist fyrir það, væru miklu minni líkur til, að það fengist til verksmiðjunnar en til annarra þarfa. Hæstv. ráðh. reyndi ekki að afsanna þetta, en reyndi að víkja sér undan málinu og sagði, að þegar skortur væri á rafmagni til annarra hluta, yrði að grípa til annarra ráða til að leysa það mál. — Hann svaraði þeirri spurningu hv. þm. Barð., sem var náskyld þessu og á þá leið, hvort ekki væri rétt að tryggja verksmiðjunni rafmagn með samningum, áður en hafizt yrði handa um bygginguna. En ég vildi bera fram þessa spurningu: Er víst, að þeir samningar næðust? Er víst, að þeir aðilar mundu lofa fyrir fram að selja svo og svo mikinn hluta af rafmagni á ákveðnu verði og eiga þannig á hættu að skaða sig fjárhagslega? Mér skilst, að meðan ekki er búið að ná þessum samningum, sé hér um að ræða atriði, sem gæti komið í veg fyrir, að hægt væri að ráðast í bygginguna, svo framarlega sem byggingin á að vera háð þessu atriði.

Spurningu minni um það, hvort ætlazt væri til, að íslenzkir bændur greiddu áburðinn á kostnaðarverði, þó að hann vegna mikils framleiðslukostnaður yrði dýrari en innfluttur áburður, svaraði ráðh. vægast sagt út í hött. Ræddi hann langt mál um það, að ekki væri óalgengt í heiminum, að offramleiðsla yrði á einhverri vörutegund, og væri hún þá seld á lágu verði til þess að losna við hana, þó að íbúar landsins yrðu að kaupa það, sem þeir þyrftu, á háu verði. Það er rétt, að oft hefur verið offramleiðsla á ýmsum vörum í heiminum. En þær eru ekki alltaf seldar á lágu verði, heldur eru þær stundum eyðilagðar til þess að halda verðinu uppi, þannig að þetta geta ekki talizt fullgild rök hjá hæstv. ráðh. — Ég vil svo að lokum spyrja hæstv. ráðh., ef íslenzkur landbúnaður á að greiða áburðinn á yfirverði, hvort það eigi þá að koma fram í verði landbúnaðarvara, sem mundi þýða, að þær yrðu dýrari, en með þarf. Og mundi þá ekki í sambandi við það vakna annað vandamál, sem leysa þarf síðar meir?