29.04.1949
Efri deild: 91. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 483 í B-deild Alþingistíðinda. (735)

16. mál, áburðarverksmiðja

Frsm. meiri hl. (Eiríkur Einarsson):

Herra forseti. Brtt. sú, sem hér liggur fyrir á þskj. 596 frá meiri hl. landbn., er árangur þeirrar viðleitni, sem síðasta umr. þessa máls gaf tilefni til, og laut að brtt., sem þá voru lagðar fram í þessu máli. Ég þarf ekki að rekja hér frekar aðdraganda þess máls, en brtt. er fram komin, m.a. fyrir ósk hæstv. fjmrh. um, að n. sæi sér fært að gera till. um, að skotið væri inn í frv. heimild til fjársöfnunar meðal almennings til þess að standast stofnkostnað áburðarverksmiðjunnar, og athugaði, hvort ekki væri möguleiki fyrir stofnun hlutafélags í sambandi við það. Brtt. er árangur af samstarfi landbn. og þeirra hæstv. ráðh., sem hér eiga helzt hlut að máli, en einn hv. nm. hefur óskað, að hafa óbundnar hendur með sína afstöðu í málinu. Ég þarf ekki að ræða till. mikið eða málefnið, þó að mælgin sé hér í hávegum höfð, því að málið skýrir sig sjálft. Það má ef til vill deila um það atriði, hvort það sé eðlileg hlutföll, að væntanlegir hlutafjáreigendur hafi tvo af fimm stjórnarmeðlimum, en það sýnir m.a., að hæstv. ríkisstj. hefur ekki sýnt ágengni í því að varna þeim að hafa stjórnaraðstöðu í fyllstu hlutföllum við framlög þeirra. Í brtt. er gert ráð fyrir, að framlög skuli nema minnst 4 millj. kr., að meðtaldri 1 millj. kr. úr rekstrarsjóði áburðarsölu ríkisins, til þess að verksmiðjan skuli rekin sem hlutafélag. Það kunna að vera einhverjir, sem vilja hafa þetta öðruvísi, en þeir munu þá gera grein fyrir sinni afstöðu nú við umr. málsins, en það varð að samkomulagi hjá þeim aðilum, sem um þetta hafa fjallað, að standa að þessari brtt. Það er þess vegna ósk meiri hl. landbn., að frv. nál fram að ganga með þessu innskoti.