29.04.1949
Efri deild: 91. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 484 í B-deild Alþingistíðinda. (737)

16. mál, áburðarverksmiðja

Frsm. minni hl. (Ásmundur Sigurðsson):

Herra forseti. Eins og hv. frsm. landbn. tók fram, þá er ég ekki flm. þessarar brtt., og vil ég með nokkrum orðum gera grein fyrir minni afstöðu. Í frv., eins og það var lagt fyrir Alþ. af hæstv. ríkisstj. og eins og það er nú, er gert ráð fyrir, að ríkissjóður leggi fram eða útvegi algerlega stofnfé fyrirtækisins og að það sé rekið sem ríkisfyrirtæki að öllu leyti og á ábyrgð ríkisins. En með brtt. hv. 1. þm. Reykv., sem hér er flutt á þskj. 412, er gert ráð fyrir því, að leitað sé eftir framlögum einstakra manna eða félagsstofnana innanlands og ef ákveðin upphæð hlutafjár fáist, þá skuli ríkið leggja fram það, sem á vantar; og fyrirtækið þannig gert að hlutafélagi. Enn fremur er gert ráð fyrir því í sömu till., að heimilt sé að greiða öðrum hluthöfum, en ríkinu 7% í arð. Þessi brtt. hefur verið tekin upp af meiri hl. landbn., að verulega miklu leyti. Að vísu er ekki gert ráð fyrir því ákvæði nú í brtt. meiri hl. n., að þeir hluthafar, sem leggja fram fé á móti ríkissjóði, séu rétthærri, en ríkissjóður, með sitt hlutafé, eins og gert er í till. á þskj. 412. Hins vegar verð ég að segja það, að mér finnst, að hér sé þeim hluthöfum, sem ætlað er að leggja fram mjög lítinn hluta af heildarstofnfé verksmiðjunnar, gert mjög hátt undir höfði með rekstur hennar, eins og þetta er í till. á þskj. 596. Ég skal taka það fram, að ég er út af fyrir sig ekki á móti því að athuga alla hugsanlega möguleika á því að fá einstaklinga eða stofnanir til að leggja fé í þetta fyrirtæki, en það verða að mínum dómi að vera einhver takmörk fyrir því, hvað þessir aðilar, sem leggja fram sáralítið brot af stofnfénu, fái mikinn rétt á móti ríkinu um stjórn þessa fyrirtækis. Og ég sé ekki betur, eins og gengið er frá þessu á þskj. 596, en það sé til þess ætlazt, að þeir menn, sem aðeins láta þetta litla brot af stofnfénu, fái 2 menn í stjórnina af 5, sem þar eiga að vera. Þykir mér með því of lítið tryggður réttur ríkisins, þó að það sé meiri hluti. Með því að gera áburðarverksmiðjuna að hlutafélagi. er grundvallaratriðinu, sem málið byggist á, breytt. Það er gert ráð fyrir því í þessari brtt., að leitað sé eftir hlutafé innanlands, hjá stofnunum og einstaklingum, og að ríkissjóði sé heimilt að leggja fram fé úr rekstrarsjóði áburðarsölu ríkisins, eina millj. kr. Út af fyrir sig hef ég ekki á móti því, ef áburðarsala ríkisins getur misst þetta fé, að hún leggi það fram, og tel þetta ekki stórt atriði, en þar með er líka gert ráð fyrir því, að þeir aðilar aðrir en ríkissjóður, sem leggja fram fé, þurfi ekki að leggja fram nema 3 millj. kr. í hlutafé af 44 millj. kr., sem fyrirtækið á að kosta. Auk þess á ríkið að taka. lán eða leggja fram á einhvern hátt og ábyrgjast 34 millj. kr. í viðbót, og fyrir því á ríkissjóður að vísu að fá þá tryggingu, að Alþ. á að kjósa 3 menn í stj. Hins vegar eiga svo þessir aðilar, sem leggja fram þessar 3 millj. kr., að geta fengið allt að 6% vexti af sínu hlutafé, sem þeir leggja fram. Ég gat ekki fallizt á, að fyrirkomulaginu væri breytt á þennan hátt, að fyrir svona lítið hlutafjárframlag frá einstaklingum og stofnunum skyldi því grundvallaratriði breytt að gera verksmiðjuna að hlutar félagi og reka hana sem slíka og ríkið skyldi þá þurfa að ábyrgjast 41 millj. kr., en svo fengju þeir aðilar, sem aðeins legðu fram 3 millj. kr. af 44, réttinn til þess að ráða stjórninni að 2/5 hlutum. Af þessum ástæðum gat ég ekki fallizt á það að verða fim. þessarar till.