29.04.1949
Efri deild: 91. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 487 í B-deild Alþingistíðinda. (739)

16. mál, áburðarverksmiðja

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Ég sé, að meiri hl. hv. landbn. hefur tekið upp að mestu leyti brtt. mína á þskj. 412, að vísu með nokkrum breyt., en þó ekki miklum. Ég fyrir mitt leyti get vel gengið inn á þessar breyt., sem eru fólgnar í því, að þarna í brtt. er ætlazt til þess, að lagt sé fram úr rekstrarsjóði Áburðarsölu ríkisins óafturkræft fé, sem nemi einni millj. kr., og þá komi þrjár millj. sem framlag frá einstaklingum eða félögum í stað 2,5 millj. kr., sem ég lagði til í minni till. Enn fremur er hér í þessari brtt. heimilað að greiða hluthöfum arð af fé þeirra allt að 6%, en ég hafði lagt til, að það yrðu greidd 7%. Mér þykir þetta að vísu nokkuð lágt til tekið í brtt. meiri hl. hv. n. Þó er það ekki frágangssök. Það, sem vakir fyrir mér í þessu efni, er ekki það fyrst og fremst, að einstaklingar og félög geti haft miklar tekjur af þessu fé, sem þessir aðilar leggja þarna fram, heldur það, að sá ágóðahluti, sem viðkomandi fyrirtæki geti greitt undir þessum kringumstæðum og þegar það getur gert það, sé þó það mikill, að fé einstaklingsframtaksins sæki í slík fyrirtæki, en að það sé ekki þannig, að það forðist þau. Og mér hefði þótt hæfilegt, að þetta hefði orðið 7%. Og svipuð fyrirtæki í Danmörku, sem danska ríkið á í, minnir mig, að greiði 10% sem hámark í arð á ári til hluthafa. Þess ber að gæta, að slík fyrirtæki greiða ekki þennan arð, nema fyrirtækin beri sig svo vel, að arðinn sé hægt að greiða. — Þá er nokkur breyt. í brtt. n. á tölu þeirra manna, sem skipa eiga stjórn verksmiðjunnar, og er hér lagt til, að þeir séu fimm í stað þriggja, og sé ég ekkert við það að athuga út af fyrir sig. En kannske er þetta heppilegt að því leyti, að ef ekkert verður úr þessu, þá þarf ekki að gera breyt. á þeirri gr. frv., sem um þetta fjallar.