29.04.1949
Efri deild: 91. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 490 í B-deild Alþingistíðinda. (746)

16. mál, áburðarverksmiðja

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Ég vil eindregið mæla gegn því, að þessi till. verði samþ., um, að hluthafar samkvæmt till. á þskj. 596 fái bara einn af fimm mönnum í stj. verksmiðjunnar í stað tveggja. Ef þessi till. verður samþ., gerir það brtt. tilgangslausa. Ég get ekki séð, að nokkur muni hafa áhuga á því að leggja peninga í fyrirtæki. jafnvel þó að það sé eins vinsælt og nauðsynlegt og þetta, ef sýnilegt er, að löggjafinn gengur þannig frá málinu, að leggja á fram fé, en engin ráð eða áhrif í stj. fyrirtækisins koma á móti. Það, sem vakti fyrir mér, var að komast fram hjá hreinum ríkisrekstri og fá persónulega gagnrýni frá þeim, er hagsmuna hefðu að gæta í fyrirtækinu. Með því móti yrði fyrirtækið rekið betur en tíðkast um ríkisfyrirtæki. Við höfum reynslu af ríkisfyrirtækjum og vitum, að þau eru öll illa rekin og með tapi. Það er ekkert nýtt, að ríkið taki þátt í hlutafélögum með einstaklingum, ég get nefnt sem dæmi raftækjaverksmiðjuna í Hafnarfirði. Það er talsvert stórt fyrirtæki, en það vill svo til, að ríkið hefur þar lítil áhrif, og það er kannske ástæðan fyrir því, hvað fyrirtækið gengur vel. Þau tvö ár, sem ég var fjmrh., kom aldrei til kasta ráðuneytisins um áhrif á fyrirtækið. Að vísu var einn maður skipaður til þess að hafa þessi mál með höndum, en ríkissjóður virðist hafa gleymt fyrirtækinu, og það er kostur. Þetta er myndarlegt fyrirtæki, sem gengið hefur prýðilega, og ég vænti þess, að það eigi eftir að eflast. Þá má líka nefna Útvegsbankann. Að vísu er það svo, því miður, að ríkissjóður hefur of sterk ítök í Útvegsbankanum, og væri betra, að ríkissjóður hefði ekki bæði tögl og hagldir þar, en þó er um hlutafélag að ræða, þar sem talsverður hluti fjármagnsins er í höndum einstaklinga. Það hefur ekki borið á því, að þetta skemmdi rekstur bankans nema síður væri.