02.05.1949
Neðri deild: 96. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í B-deild Alþingistíðinda. (752)

16. mál, áburðarverksmiðja

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það hafa í Ed. verið gerðar allmikilvægar breyt. á þessu frv., og þykir mér því hlýða, að það verði athugað, hvaða þýðingu þessar breyt. hafa. Í þessum breyt. er ákveðið, að svo framarlega sem einstaklingar eða félög vilji leggja fé til verksmiðjunnar, þá skuli hún rekin sem hlutafélag, og skuli vera breytt öllu því formi, sem hingað til hefur verið rætt um, að reka þessa áburðarverksmiðju sem ríkisfyrirtæki, hún skuli verða hlutafélag. Þar er gengið út frá því, að svo framarlega sem það náist í slíkt framlag, 4 millj. kr., þá skuli hlutaféð vera 10 millj. kr. alls, ríkið leggi fram 6 millj. kr., en einstaklingar eða félög 4 millj. kr., enn fremur að einstaklingar eða hlutafélög skuli kjósa tvo stjórnarnefndarmenn, en sameinað Alþingi þrjá. Ég verð að segja það, að þessi breyt. er í fyrsta lagi breyt., sem er alveg nýtt fyrirkomulag í okkar landi, og þess vegna er full ástæða til þess að athuga þetta mjög vel. Í öðru lagi er sýnt, að afleiðingin af því að taka upp svona skipulag getur orðið ákaflega athugaverð í því formi, sem hér er lagt til. Ríkið mun fram að þessu ekki hafa tekið þátt nema í einu hlutafélagi, sem ég veit af, þar sem ríkið á meiri hlutann af hlutafénu, þ.e. í Útvegsbanka Íslands h.f. Í því hlutafélagi var, þegar það var stofnað, ákveðið að hafa 21/2 millj. kr. hlutafé, ríkið skyldi leggja fram 11/2 millj. kr., eða 3/5, en einstaklingar 1 millj. kr., eða 2/5. Hins vegar hefur ríkissjóður í því hlutafélagi, Útvegsbanka Íslands, þar sem hann á meiri hl. hlutafjárins, öll völd í félaginu, hann kýs alla stjórnina samkvæmt því, að hann á meiri hl. hlutafjárins, og ræður þar með alveg félaginu. Þetta er það eina hlutafélag, sem ég veit af, þar sem ríkið á meiri hl., en ríkið mun taka þátt í örfáum öðrum hlutafélögum. En þarna er það samþ. í Ed., að ríkið skuli, ef einstaklingar og félög vilja leggja fram 4 millj. kr., breyta þessu í hlutafélag, og þá skuli hlutaféð vera 10 millj. kr. Nú vitum við, að þessi áburðarverksmiðja á að kosta samkvæmt útreikningi 46 millj. kr. og mun að öllum líkindum kosta það a.m.k. Það þýðir, að það mun vera gengið út frá því, að það verði ríkið, sem kemur til með að ábyrgjast skuldir þessarar verksmiðju, því að ég býst ekki við, að hlutaféð, þessar 10 millj., verði tekið gilt sem ábyrgð fyrir öllu því, sem keypt verður inn. Ég er hræddur um, að það hljóti að vera gengið út frá því eftir sem áður, að það verði ríkið fyrst og fremst, sem ábyrgðin kemur til með að hvíla á, þegar fyrirtækið væri komið upp og kostar 40–50 millj. kr., en eignir þessa hlutafélags eru 10 millj. kr. hlutafé. Þá getur afleiðingin orðið sú, að ríkið sem slíkt verði þar í ábyrgðum, sem geta numið 30–40 millj. kr. fram yfir hlutaféð, og hins vegar munu þeir einstaklingar, sem þarna eiga hlut í, ef ekki eru gerðar sérstakar breyt., ekki taka á sig meiri ábyrgð en þá, sem felst í því, að þeim er ætlað að setja hlutafé í þetta. Þetta þýðir hins vegar; að einstaklingar, sem þarna leggja fram fé, taka að öllum líkindum ekki á sig neina áhættu fram yfir sitt hlutafé, en ríkið kemur til með að verða sá fjárhagslegi grundvöllur, sem lánstraust þessa fyrirtækis kemur til með að hvíla á. Hins vegar völdin í félaginu, — hvernig koma þau til með að vera? Eins og þetta hefur verið samþ. í Ed., þá eiga þessir einstaklingar og félög, sem þarna taka þátt í, að fá 2 menn í stjórn af 5. Í venjulegu hlutafélagi mundi ríkið hafa hreinan meiri hl. og geta ráðið allri stjórn. En með þessum l. yrði minni hl., einstaklingar og félög, sem leggja fram 4 millj. kr., mjög afgerandi í fyrirtæki, sem að öllum líkindum með aðstoð ríkisins mundi kosta 40–50 millj. kr., hvað stofnkostnað snertir. Það hefur a.m.k. verið gengið út frá því, þegar fyrirtæki hafa verið stofnuð, þar sem það opinbera og einstaklingar að einhverju leyti starfa saman, að það skiptist í jöfnum hlutföllum völd og ábyrgðir, þannig að, að sama skapi sem aðilarnir taka á sig ábyrgðir, að sama skapi fari líka þeirra völd. Nú skulum við enn fremur gera okkur ljóst, að ekki er einu sinni víst, að þegar ætti að fara að gera þetta að raunverulegri framkvæmd, að mönnum mundi þykja rétt að halda við þessa hluti hvað áburðarverksmiðjuna snertir. Ef til vill mundi mönnum þykja rétt, ekki sízt, ef fjárríkir menn kæmu þarna inn, að hafa verksmiðjuna stærri, en gert er ráð fyrir í þessum l., t.d. með 30–40 þús. tonna framleiðslugetu, og ef hlutafélagsfyrirkomulaginu, sem hér er rætt um, yrði haldið, hver yrði þá afleiðingin? Hún yrði sú, að með 10–20 millj. kr. hlutafé væri hægt að ráða verksmiðju, sem máske með ábyrgð ríkissjóðs kostaði 100 millj. kr. Einstaklingar, sem legðu fram 4 millj. kr., gætu fengið afgerandi áhrif á rekstur og umráð þessa fyrirtækis. Þetta er ákaflega hættulegt atriði. Ef ríkið ætlaði að fara inn á samstarf við einstaklinga í svona rekstri, sem er atriði, sem ég vil ekki fortaka, að gæti verið heppilegt, þá verður að skiptast að jöfnu völd og ábyrgðir. Ef ríkið á að ábyrgjast og leggja fram féð, þá verður vald ríkisins að vera í samræmi við það.

Nú skulum við hins vegar hugsa okkur alveg praktískt, hvernig þessu mundi vera fyrir komið. Við skulum athuga tvenna möguleika, af því að við þekkjum, hvernig fjárhag er háttað í okkar landi. Við skulum hugsa okkur það atriði, að það væri t.d. í öðru tilfellinu S.Í.S. og stjórn í einhverju kaupfélagi landsins, sem legði fram hlutafé upp á 4 millj. og ríkið legði fram 6 millj. Það mundi þýða, ef þessi l. væru samþ., að með hlutfallskosningu hér í sameinuðu þingi fengi Framsfl. einn mann, og mér skilst, að þessir hluthafar fái 2 menn, og útkoman mundi svo vera sú, með þeim valdahlutföllum, sem eru í landinu, að Framsfl. hefði í rauninni meiri hl. í stjórn þessa fyrirtækis. Býst ég við, að ýmsir mundu máske álita, að það væri ekki sérstaklega varhugavert, þó að Sambandið, með þeim áhrifum sem það hefur í Framsfl., mundi geta ráðið þessu fyrirtæki. En við skulum hugsa okkur annan möguleika. Við skulum hugsa okkur þann möguleika, að ríkir menn, sem ef til vill fengju erlendis lán frá þeim amerísku hringum eða evrópsku hringum, sem áhuga hafa fyrir áburðarframleiðslu, kæmu fram hjá okkur í sambandi við slíkt fyrirtæki. Við skulum hugsa okkur, að þeir legðu fram þessar 4 millj. kr. og það væru kunnustu heildsalar hér úr Reykjavík, dugandi forvígismenn Sjálfstfl. Og svo yrðu kosnir hér í þinginu 3 menn í stjórn. Sjálfstfl. fengi einn mann, sem mundi þýða, að þessir heildsalar í Sjálfstfl. hefðu hreinan meiri hl. í stjórn þessa fyrirtækis. Þá væri það komið þannig, með þeirri tilhneigingu, sem virðist ríkja hjá þessum aðilum, að það, sem þeir mundu kalla einkaframtak, réði algerlega yfir þessu fyrirtæki. Það væri ríkið, sem ábyrgðist fyrirtækið að mestu eða öllu, en þeir, sem réðu því, það væru auðmenn í Reykjavík og þeirra flokkur, sem ef til vill stæðu í nánu sambandi við volduga hringa erlendis, sem hefðu sérstakan áhuga fyrir þessari framleiðslu. Slíkt gæti þá orðið aðferð fyrir þessa útlendu hringa til þess að ná tökum á þessari íslenzku áburðarverksmiðju, annars vegar í gegnum þessa einstaklinga, sem þarna legðu fram fé, og hins vegar gegnum Sjálfstfl. hér á Alþ. Ég vil vekja eftirtekt á þessu vegna þess, að svo framarlega sem þannig er farið að, þá er komin hér upp alveg ný tegund af ríkisrekstri, sem sé að ríkið leggi til peningana og ábyrgðirnar, en einstakir auðmenn ráði fyrirtækinu. Þetta gæti, eins og liggur í augum uppi, haft óheppilegar afleiðingar. Við höfum orðið varir við það undanfarið, að það hafa komið fram nokkrar till. hér á Alþ. frá sjálfstæðismönnum um að selja ýmis ríkisfyrirtæki — ríkið byði þau upp þeim, sem byði bezt. Þeir, sem byðu bezt og keyptu, legðu fram peninga eins og þau hefðu kostað og borguðu það til ríkissjóðs. Ef þessi leið yrði farin, sem nú er lagt fyrir af Ed. með áburðarverksmiðjuna, þá mundi hin nýja aðferð með ríkisfyrirtækin vera praktískari fyrir kaupendur. en lagt er til í þeim till., sem Sjálfstfl. hefur verið að koma fram með hér á Alþ. Eftir þeim till. þurfa einstakir auðmenn að borga fyrirtækin, sem þeir ætla að kaupa af ríkinu, til þess að fá að ráða þeim, en eftir þessu fyrirkomulagi á ríkið að borga, en einstaklingarnir að fá þau í hendur og ráða þeim. Það er praktísk aðferð fyrir auðmenn Reykjavíkur, því að það er munur að fá t.d. tóbakseinkasölunni breytt í hlutafélag, þar sem ríkið á 3/5, en einstaklingar 2/5, og með hlutfallskosningu í Alþ. og með því, að helztu heildsalar keyptu 2/5 í tóbakseinkasölunni, þá hefði Sjálfstfl. 3 menn af 5 í stjórn fyrirtækisins. Þá er komin upp stjórn einkaframtaksins án þess að leggja fram mikla peninga til þess, en ríkið ábyrgist reksturinn, sem er nú ekki hættulegt, þegar um tóbakseinkasöluna er að ræða. Ég held þess vegna að þessar till., sem hér koma til okkar frá Ed., þurfi nákvæmrar rannsóknar við. Ef við ætlum að hafa þá aðferð, sem þar er lagt til, þá er skapað með því fordæmi, sem er ómögulegt að sjá, hvaða afleiðingar hefur hér á Íslandi. Ég held, að það sé skylda okkar, sem eigum að ráðstafa fé ríkisins, að hafa mikla gát á, þegar farið er inn á slíkar leiðir sem hér er gert, og athuga vel okkar gang, ekki sízt þegar einkaframtakið á hér mikla gróðavon, eins og hefur sýnt sig í Ed., en ef gert er eins og gert er ráð fyrir hér, þá er einkaframtakinu og e.t.v. erlendum auðhringum gefinn kostur á að ráða mestu um fyrirtækið allt frá byrjun. Ég vildi því óska upplýsinga hjá hæstv. ráðh.: Í fyrsta lagi, hvaða áhugi sé fyrir ákvæðunum í 13. gr. hjá einstaklingum og þá hjá hverjum, og í öðru lagi tel ég, að við í þessari hv. d. verðum að taka málið til endurskoðunar. Ég tel ekki rétt, að málið fari út úr d. eftir slíka stórbreytingu, án þess að það fari aftur til n., því að með því er skapað nýtt fordæmi um meðferð á fé ríkisins, sem gæti orðið hættulegt. Ég álít, ef tekið verður upp samstarf við þá, sem raunverulegan áhuga hafa á þessu máli, svo sem samtök bænda og S.Í.S., þá verði að hafa annað form á því en hlutafélag og enn fremur, að ákveðið verði um ábyrgð viðkomandi eigenda hlutafjárins, sem nái lengra, en samkv. almennu hlutafélagal. En hér þarf að ábyrgjast meira og þarf að krefjast ábyrgðar af fleirum en ríkinu, þar sem svo mikil völd og ítök eru veitt. Ég álít því, að athuga þurfi þetta nánar, ekki af því, að ég vilji tefja málið, heldur af því, að ég tel, að málið þurfi nánari yfirvegun, en það hefur þegar fengið eftir breytinguna, þar sem það hefur aðeins gengið í gegnum eina umr. í Ed. og á að ganga í gegnum eina umr. hér. Ég veit ekki, hvort landbn. ætti að athuga málið, en þegar um svona ráðstöfun á eignum ríkisins er að ræða, tel ég heppilegast, að fjhn. fjalli um það, hvort sem hún hefur samstarf um það við landbn. eða hvernig sem því yrði komið fyrir.