02.05.1949
Neðri deild: 96. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í B-deild Alþingistíðinda. (753)

16. mál, áburðarverksmiðja

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Ég vildi með örfáum orðum skýra afstöðu mína til breyt. á frv. síðan það fór úr hv. deild. Frv. var upphaflega borið fram á þeim grundvelli, að það yrði eingöngu ríkisfyrirtæki, og var þá haft fyrir augum sem fordæmi, þegar ríkið hljóp undir bagga með sjávarútveginum, þegar það reisti síldarverksmiðjur ríkisins, og þegar um svo stórt fyrirtæki var að ræða, a.m.k. á íslenzkan mælikvarða, þá var gert ráð fyrir því, að því yrði ekki komið upp nema af ríkisheildinni. Hins vegar var gengið svo frá frv. í Ed., að gert var ráð fyrir, að fjármagn frá félögum og einstaklingum gæti komið inn í fyrirtækið til viðbótar við framlag ríkisins. Nú var það vitanlegt, að allmiklir örðugleikar mundu verða á því að afla nægilegs fjármagns til að koma fyrirtækinu upp á skömmum tíma, og þegar till. kom fram um það að veita einkafjármagni inn í fyrirtækið og ríkið legði fram allt að 6 millj. króna sem óafturkræft framlag til verksmiðjunnar, var það ljóst, að með þessu móti yrði fyrirtækið fjárhagslega sterkara, og vildi ég því ekki bægja þessu fjármagni frá, svo að ekki væri hægt að segja síðar, ef fyrirtækið strandaði á fjárskorti, að ekki hefði verið gert allt, sem hægt var, til að koma því upp. Ég vildi því ekki eiga hlut að því, að þessu yrði hafnað fyrir fram, ef þetta yrði ef til vill eini möguleikinn til þess að tryggja fyrirtækið fjárhagslega, sérstaklega eftir að hæstv. fjmrh. hafði mælt með því, en það kemur í hans hlut að afla þeirra 6 millj., sem samþ. var að ríkið legði til. Ég vil því taka á móti þessari heimild, eins og ég hef áður sagt. Hvað viðvíkur fyrirspurn hv. 2. þm. Reykv., þá skal ég geta þess, að mér er ekki kunnugt um, að fyrir hendi sé fé til þessa fyrirtækis frá öðrum en ríkissjóði, en ég veit hins vegar, að S.Í.S. hefur haft áhuga á þessu máli, en mér er ekki kunnugt um, hvort það vill leggja fram fé í þessu skyni. Ég er því ekki trúaður á, að þetta muni takast, þó að svo kunni að fara. En fari svo, að ekki takist að fá fé samkvæmt 13. gr., þá gengur málið sinn upphaflega gang.

Út af ræðu hv. 2. þm. Reykv. um yfirráðahlutföllin, þá finnst mér þau ekki ósanngjörn. Það er ætlazt til, að 2/5 hlutar hlutafjárins komi annars staðar frá, en frá ríkinu, og þeir fá 2/5 stjórnarinnar, og eru þá hlutföllin svipuð og eðlilegt mætti þykja, og af þessum 4 millj. má gera ráð fyrir, að 1/4 hluti eða 1 millj. geti komið frá varasjóði Áburðarsölunnar, en það fé er í höndum ríkisins og gefur ríkinu hlutdeild í kosningunum sem því svarar. Þá er það ekki rétt hjá hv. þm., að hér sé verið að fara út á nýjar og áður óþekktar brautir, því að þess eru dæmi áður, að ríkið hafi gerzt hluthafi í félögum einstaklinga, t.d. Rafha í Hafnarfirði og Skallagrími í Borgarnesi, þar sem það hefur ekki einu sinni meiri hluta í stjórn, og til viðbótar þessu verður oft að ætlazt til, að ríkissjóður gangi í ábyrgð fyrir lánsfé, og er ekki óalgengt, að ríkið gangi í ábyrgð fyrir hlutafélög. Það er því ekkert einsdæmi, að ríkið gerist hluthafi í félögum einstaklinga beint eða óbeint, en hér er um stærra fyrirtæki að ræða, en ríkið hefur áður gerzt hluthafi í eða gengið í ábyrgð fyrir. Hér er því ekki verið að fara inn á nýjar brautir. Um það, hvernig yfirráðum yfir fyrirtækinu verði háttað, ef reiknað er eftir pólitískum flokkum, er ómögulegt að segja og fer eftir ýmsu, og fer það m.a. eftir styrktarhlutföllum flokkanna í framtíðinni, en það sama gildir, þótt fyrirtækið sé rekið af ríkinu og Alþ. tilnefni stjórnina, þá er ekki hægt að komast hjá því, að hinir pólitísku flokkar ráði fyrirtækinu á einhvern hátt. Þetta vildi ég aðeins segja um afstöðu mína til þessa máls eins og það stendur nú.