05.05.1949
Neðri deild: 101. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 499 í B-deild Alþingistíðinda. (758)

16. mál, áburðarverksmiðja

Finnur Jónsson:

Mér eru það nokkur vonbrigði, að landbn. skuli ekki hafa fengizt til að setja nokkru fyllri ákvæði um greiðslur til hluthafa, en gert er í frv. Það er ágætt að fá slíka yfirlýsingu frá n. eins og hv. 1. þm. Skagf. gaf hér. En nokkur vafi getur leikið á því, hvort þær hafi lagalegt gildi. Ef þetta á annað borð kynni að verða gott fyrirtæki og gefa góðan arð, má ætla, að leitað verði á það að fá útgreiddan arð og e.t.v. meiri, en heppilegt væri fyrir fyrirtækið. Ég hygg, að í löggjöfina um Eimskipafélag Íslands hafi einhvern tíma verið sett það skilyrði fyrir arðsúthlutun, að það greiddi ekki meira en fjóra af hundraði í arð. Nú er hér gert ráð fyrir, að greiða megi sex af hundraði, og engin ákvæði í frv. um það, að áður skuli greiða nauðsynlegan rekstrarkostnað verksmiðjunnar né heldur nauðsynleg sjóðsgjöld. Raunar stendur, að af þessu skuli greiða vissa upphæð til fyrningarsjóðs og varasjóðs. En þegar búið er að setja inn í heimildina um arðsúthlutunina, virðist vera nokkuð erfitt fyrir stj. þessa fyrirtækis að vita, hvaða greiðsla á að ganga fyrir.

Þá er dálítið einkennilega til orða tekið í 13. gr. um það framlag, sem gert er ráð fyrir, að Áburðareinkasala ríkisins leggi til verksmiðjunnar. Það er ekki sagt, að framlagið skuli vera hlutafé, heldur óafturkræft framlag. Það er ekki venja að kalla hlutafé framlag, og eins og allir vita, er ekki hlutafé óafturkræft.

Ég hef enga löngun til að tefja fyrir þessu máli eða hrekja það á milli deilda, en vildi spyrja frsm., hvort hann áliti, að það mundi tefja málið, þótt skýrar væri kveðið á um þau fyrirmæli, sem sett eru með 13. gr. frv., ef ekki væri um neina efnisbreyt. að ræða. Mér finnst nauðsynlegt að gera á þessu breyt. og hefði gjarna viljað fá tækifæri til að semja um þetta brtt., fyrst landbn. hefur ekki treyst sér til þess, í því trausti, að ekki verði um neina töf að ræða.