21.03.1949
Efri deild: 80. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 509 í B-deild Alþingistíðinda. (777)

137. mál, erfðalög

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að fagna þessu frv. og þakka þeim, sem standa að flutningi þess. Að vísu flyt ég allmargar brtt., því að ég tel þær til bóta, en mun samt fylgja frv., þó að þær verði ekki samþ. Brtt. mínar eru flestar fram bornar af því, að ég tel frv. ná of skammt í breytingum á þeim úreltu l., sem nú eru í gildi um þetta efni. Aðalbreyt., sem ég legg til, að gerð verði, er sú, að takmarka arfleiðsluna við beina liði, við börn og barnabörn í aðra áttina og foreldra og afa og ömmu í hina áttina. Í grg. fyrir frv. þessu segir m.a., með leyfi hæstv. forseta: „Á þeim tímum, þegar ættarböndin voru meiri og sterkari en nú og framfærsluskylda náði einnig til fjórmenninga, var líka sjálfsagt, að skyldum fylgdu réttindi. Nú, þegar framfærsluskyldan er nær horfin nema foreldra gagnvart börnum sínum innan 16 ára aldurs, horfir mál þetta allt öðruvísi við.“ Þegar þetta er athugað með hliðsjón af því tryggingakerfi, sem við höfum byggt upp, þá getum við ekki miðað erfðalöggjöf vora við bræðraþjóðirnar á Norðurlöndum. þar sem við stöndum miklu framar í þessum málum. Það verður t.d. ekki deilt hér lengur um rétt utanhjónabandsbarna til arfs, þó að það þætti hrein goðgá áður og er enn þá vefengt hjá mörgum þjóðum, en slíkar úreltar venjur höfum við algerlega kveðið niður. Vegna þessarar sérstöðu okkar verðum við að samræma erfðalöggjöf okkar við það kerfi, sem við höfum byggt upp, en ekki fylgja ósamstæðu og gamaldags fyrirkomulagi annarra þjóða. Þar sem Tryggingastofnun ríkisins á að taka við þeirri framfærslu, sem áður hvíldi á ættingjum, og sjá um, að hver maður sé öruggur, þá legg ég til, að sú stofnun sé látin njóta þess arfs, sem til fellur og ekki eru aðrir erfingjar að eftir mínum tillögum. Ég ætla ekki að fara að lýsa deilum, sem arfskipti hafa valdið, en þær eru margar og harðar eins og kunnugt er og ekki óeðlilegar, þegar skipta þarf arfi í 138 staði, eins og dæmi eru til um, en slíkt er auðvitað fráleitt. Hins vegar viðurkenni ég, að það er til millileið milli till. minna á þskj. 380 og frv. eins og það liggur fyrir, og er ég fús til viðræðna um samræmingu. Fáist n. hins vegar ekki til að breyta sinni afstöðu, þá mun ég láta mínar brtt. ganga undir atkv., og þó að þær verði ekki samþ. nú, er ég sannfærður um, að þær verða aftur bornar fram áður en langt um líður og verða samþ. fyrr eða síðar, því að aukin félagsmálaþróun breytir viðhorfinu í þessum málum. Í sambandi við ósk frsm. um, að ég taki brtt. aftur til 3. umr., þá virðist mér erfitt að verða við þeirri beiðni, nema ég fái tryggingu fyrir samþykkt þeirra, því að verði aðeins eitthvað samþ., þá raskast heildin og þarf lagfæringar við, við 3. umr. En verði hins vegar allar brtt. felldar, þá mun ég bera fram aðrar brtt. við 3. umr.

Ég ætla þá að lýsa nokkuð einstökum brtt. Fyrsta brtt. á þskj. 380 er við 1. gr. frv., og legg ég þar til. að 3. málsl. falli niður. Þetta er sjálfsögð breyt., því að eftir mínum till. eru þessir aðilar ekki löglegir erfingjar. Önnur brtt. á þskj. 380 er við 3. gr., og er lagt til, að gr. orðist svo: „Ef hinn látni á engin börn eða barnabörn á lífi, en faðir og móðir hans lifandi, erfa þau hann að jöfnu. Kjörbörn og börn þeirra teljast hér sem börn og barnabörn arftaka.“ Þessi breyting er líka í samræmi við aðrar þær breytingar, sem lagt er til, að gerðar verði á frv. Þá er lagt til, að 4. gr. frv. orðist

svo: „Ef annað foreldri arfleiðanda er andað, tekur hitt, sem á lífi er, allan arf eftir hann.“ Þessi breyting leiðir af fyrstu brtt. Sömuleiðis er með fjórðu brtt., við 5. gr. Þar er gert ráð fyrir, að afar og ömmur arfleiðanda, sem á lífi eru, taki allan arf eftir hann að jöfnu, séu báðir foreldrar látnir. Í sambandi við brtt. mínar við 6. og 7. gr. hélt frsm. fram, að þær stöfuðu af misskilningi, og tók svo til orða, að hann hefði ekki þekkt það ranglæti í mínu fari, að ég mundi af ásettu ráði vilja svipta bláfátæka foreldra arfi. Ég vil strax taka fram, að hér er ekki um neinn misskilning að ræða og að mínum dómi ekkert ranglæti heldur, því að ég verð að biðja frsm. að athuga, að ég byggi á þeirri staðreynd, sem fyrir hendi er, en hún er sú, að Tryggingastofnun ríkisins á að sjá þessum öldruðu foreldrum fyrir lífeyri, og það, sem vakir fyrir mér, er að gera þessa stofnun betur færa til að gegna sínum skyldum. Ég sé ekkert ranglæti í þessu sjónarmiði mínu, nema síður sé, því að í mörgum tilfellum eru öldruðu foreldrarnir betur tryggðir með sinn lífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins en frá misjafnlega ræktarsömum ættingjum. Þetta er svar mitt til frsm., og tel ég ekki hægt að líkja því við ranglæti í mínu fari. Hins vegar er ég til viðtals um breyt. á þessum till. og gæti þá ef til vill fallizt á til samkomulags, að einhver hluti þess arfs, sem um væri að ræða, færi til foreldranna. Þá legg ég til, að 8. gr. falli niður, og er það eðlileg afleiðing af því, að eftir mínum till. á arfur eftir henni að falla til annarra aðila. Ég get heldur ekki fallizt á sjónarmið 11. gr. og legg til, að hún falli niður. Það kann að vera rangt, en ég lít þannig á, að sá maður, sem dæmdur hefur verið og tekið út sína hegningu, sé aftur frjáls borgari með jöfn réttindi og aðrir menn. Þessi skoðun mín byggist á því, að með því að hinn dæmdi tekur út refsingu, þá afpláni hann sekt sína, en eftir þessari gr. virðist, að afbrotamanninum sé ætlað að bera sektina alla ævi. En auk þess er það enn fjarstæðara, sem kemur fram í umræddri grein, að vandamenn afbrotamannsins, börn eða foreldrar, eigi að gjalda þess, þó að honum hafi orðið eitthvað á og hlotið dóm fyrir. Ég get fullvissað frsm. um, að þessi skoðun mín á málinu er ekki byggð á misskilningi eða gáleysi, heldur hef ég athugað þetta mál gaumgæfilega og komizt að þessari niðurstöðu. En hins vegar er ég undrandi yfir, að hann sem bæði dómari og lögreglustjóri skuli líta á þessi mál eins og greinin gefur tilefni til að ætla.

Um II. kafla er það að segja, að ég legg til, að hann falli niður ásamt fyrirsögn, og er það vegna þess, að ég vil gefa kjörbörnum sama rétt og blóðbörnum. Og í sambandi við þessa gr. vil ég benda á, að það er mjög erfitt að taka þessar brtt. aftur til 3. umr., því að verði þessi kafli ekki felldur niður, tel ég nauðsynlegt að bera fram brtt. við greinina. Ég sé ekki ástæðu til, að ættingjar barns, sem þeir hafa gefið og leyst sig af öllum skyldum við, séu látnir erfa það eða gagnkvæmt. Það verður að teljast eðlilegt í þessu máli, að foreldrar, sem tekið hafa að sér barn, hafi við það allar skyldur og fái um leið öll réttindi, og þess vegna tel ég ekki rétt, að erfðarétturinn hafi neina sérstöðu. Ég tel ekkert við það að athuga, þó að við fylgjum ekki erfðavenjum frænda okkar á Norðurlöndum nákvæmlega, enda erum við á margan hátt komnir lengra í þessum efnum.

Við 19. gr. legg ég til, að gerð verði sú breyt., að í stað orðanna „18 ára“ komi: 21 árs. Ég get ekki skilið, hvers vegna maður, sem ekki er fjárráða, hefur heimild til að ráðstafa stórum fjárupphæðum með erfðaskrá. Mér finnst hníga alveg sömu rök til þess, að ekki sé rétt að heimila manni að ráðstafa erfðafé með erfðaskrá fyrr en hann er 21 árs, og hins, að ekki sé rétt að láta hann hafa forræði fjár síns fyrr, eins og lögræðislögin mæla fyrir. Það er líka dálítið skrýtið, að 18 ára unglingur skuli hafa heimild til að gefa stórfé, en vitundarvotturinn, til þess að þessi ráðstöfun sé gild, skuli þurfa að vera 21 árs. Ég get ekki fengið mig til að greiða atkvæði með slíku ósamræmi og legg því til, að í stað „18 ára“ í 19. gr. komi: 21 árs. Brtt. mín við 20. gr. miðar að því, að ekki verði hægt að kippa þeim rétti af Tryggingastofnun ríkisins, sem ég á öðrum stað geri ráð fyrir. Í samræmi við breyt. á 19. gr. legg ég til, að í stað orðanna „18 ára“ í 21. gr. komi: 21 árs. Þá legg ég til, að 28. gr. falli niður, en þar segir m.a.: „Verði maður snögglega og hættulega veikur eða lendi í bráðri hættu og vilji gera erfðaskrá, má víkja frá þeirri reglu, að erfðaskráin sé skrifleg,“ o. s. frv. Ég álít þennan hátt hvorki nauðsynlegan né réttan. Maður, sem á miklar eigur, hefur aðstöðu til að ráðstafa þeim eftir sinn dag hvenær sem er. Hins vegar er varla, að maður, sem er í bráðri hættu, hugsi um slíka hluti, og væru þá líkur fyrir, að aðrir réðu meiru um þá ráðstöfun, sem undir slíkum kringumstæðum væri gerð. Ég tel, að það sé óeðlilegt og að þar geti komið ýmislegt annað til greina, aðrir aðilar, sem geti haft þar áhrif á, þó að við séum ekki undir þeim áhrifum, sem voru, að því er sagnir herma, þegar kirkjan var við völd hér í landinu, og í því sambandi er kunnugt orðtakið: „Gefur hún enn blessuð“, — þó að við séum ekki undir þeim áhrifum, þá sé ég ekki, að það sé rétt að hafa þetta ákvæði í gr. Síðasta brtt. mín er við 33. gr., um, að í stað orðsins „ríkissjóður“ í lok gr. komi: Tryggingastofnun ríkisins. Hv. frsm. allshn. taldi, að ekki væri rétt af mér að samþ. þetta, „enda mundi sá hlutinn af mér, sem kunnugastur væri fjármálunum, vera á annarri skoðun, eins og hann orðaði það, en að það væri svo breitt bakið á ríkissjóði, að það væri fært að sneiða þetta af tekjum hans. En þessi brtt. er borin fram einmitt vegna þeirrar þekkingar, sem ég hef á ríkissjóði. h.`g legg þetta til af því, að það er ekki hægt, eins og búið er að ganga frá tryggingamálunum, annað en að gera greiðslukröfur til trygginganna á ríkissjóðinn. ef ekki eru gerðar sérstakar ráðstafanir í því efni. Og það er kjarninn í minni brtt. að létta á ríkissjóði með því að láta allt erfðaféð ganga til tryggingastofnunarinnar, til þess að skapa tryggingastofnuninni þá fjárhagsaðstöðu, að hún sé ekki háð veikleika ríkissjóð, eins og hún er í dag. Og brtt. mín í þessu efni er fram komin einmitt vegna þess, að „sá hlutinn af mér, sem er kunnugastur“ þessum málum, hefur sannfært mig um, að þetta sé nauðsynleg breyt. á l. Hins vegar vil ég segja hv. frsm., að það er ekki ríkissjóður einn, sem ber þessar byrðar nú. Ríkissjóður gerir það að nokkru leyti, hinir tryggðu að nokkru leyti og sveitarsjóðir að nokkru leyti. Mín ósk er sú, að þessi sjóður, sem myndaðist þannig hjá tryggingastofnuninni, væri það öflugur, að jafnvel aðeins vextir af honum gætu í framtíðinni á hverjum tíma staðið undir meginþunga trygginganna. En mínar vonir standa ekki til þess, að það geti orðið á næstunni. Hinu er ekki vafi á, að ef Tryggingastofnun ríkisins fær allt erfðaféð á þann hátt, sem ég legg til, þá mun Tryggingastofnun ríkisins geta uppfyllt mörgum tugum ára fyrr sitt hlutverk til blessunar fátæku fólki í landinu. Og þess vegna ber ég brtt. þessa fram. — Vil ég vænta þess, að hv. allshn. vilji mæta að einhverju leyti mínum brtt., þó að hún sjái sér ekki fært á fyrsta stigi málsins að ganga inn á þær allar.