21.03.1949
Efri deild: 80. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 513 í B-deild Alþingistíðinda. (778)

137. mál, erfðalög

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Við það að hlusta á ræðu hv. þm. Barð. varð ég var við það, að það hafa orðið nokkur veðrabrigði hjá honum í þessu máli, sem ég tel ekki óeðlilegt. Það var margt rétt í því, sem hann sagði um það, að það er kannske óhægara að bíða með brtt. til 3. umr., enda eru þessar brtt. þannig vaxnar, að þær þyrftu lagfæringar við, ef þær ætti að samþykkja. Og því virðist mér, að réttast muni vera — og vil fara fram á það við hæstv. forseta —, að hann frestaði þá umr. um málið í bili, þannig að athuga mætti þetta mál. Mál þetta er búið að taka töluverðan tíma, sem að vísu hefur ekki farið til ónýtis. Og þó að nú væri frestað umr., álít ég það rétt, til þess að við í n. gætum borið okkar bækur saman við till. hv. þm. Barð. Ætla ég samt lítillega að minnast á hans ræðu nú.

Ég held, að með samþykkt þessa frv. væri höggvið svo mjög í erfðarétt manna, að nóg væri að gert, þó að ekki væri í því efni farið eftir till. hv. þm. Barð. og ekki lengra gengið en frv. gerir ráð fyrir, því að þar eru tvær greinar, sem hafa gilt um erfðarétt, höggnar af í því tilliti. Aðeins 5. gr. er látin halda sér óskert hér í frv. Það má deila um það, og hefur hver sína skoðun um það, hve langt á að fara í þessu atriði. En þó að framfærsluskylda sé mjög takmörkuð nú, — og hv. þm. virðist helzt vilja fella hana niður, — þá er annað, sem kemur til athugunar, það að slíta ekki sundur þau fjölskyldubönd, sem enn þá eru til í þjóðfélaginu. Það er nógu mikil ringulreiðin í öllu, sem við kemur ættar- og fjölskylduböndum hér hjá okkur, þó að ekki sé unnið að því að kippa burt þeim böndum, sem enn tengja fjölskyldur saman gegnum erfðaréttinn, því að frændur hafa venjulega verið taldir með í fjölskylduliði. Algengt er að kalla föður- eða móðursystkini frænda eða frænku. Og bróður- og systrabörn hafa venjulega verið skoðuð sem nokkurs konar meðlimir fjölskyldu þeirra, sem eiga þessa ættingja. Og svo er einnig um mann, sem á systkinabörn, að þau líta upp til hans í mörgum tilfellum eins og föður eða fóstra. Stundum er þetta að vísu tætt í burtu. En að ýmsu leyti er það svo, að meðan réttur til erfða milli þessara ættingja er lögákveðinn, þá er eins og þetta fólk hafi meiri skyldur hvort gagnvart öðru, en annars væri. Og þessi bönd vil ég fyrir mitt leyti ógjarna höggva á. Það er nóg lausungin samt komin í þjóðfélag vort. Og ég held, að það yrði ekki til góðs fyrir þjóðfélagið, þó að það væri gert.

Þá minntist hv. þm. Barð. á það í sambandi við 6. brtt. sína, að vel gæti verið, að barnabörn gætu verið jafnerfið afa og ömmu eins og tengdadóttir. Það eru dæmi um þetta. En hitt er líklegra, að barnabörnin beri meiri ástúð til og umhyggju fyrir afa og ömmu heldur en tengdadóttir, sem lítið hefur átt saman við þau að sælda og kannske er gift aftur og komin inn í aðra fjölskyldu. En um þetta mál má deila. Og þess vegna vil ég segja, að ef stórefnaður maður deyr og ef hann á ekki börn, þá sé ekki rétt að láta foreldra hans verða afskipta. Það gæti verið rétt að láta þau fá eitthvað af arfinum, jafnvel þótt einhver börn væru, ef efnahagur foreldra mannsins væri svo bágur, að útlit væri fyrir, að þau þyrftu á framfærsluhjálp að halda.

Um 8. gr. er það að segja, að ég held, að hv.. þm. Barð. hafi misskilið þar. Uppistaðan í þeirri gr. er það, að ef annar maki, sem lengur lifir en hinn, fær meginféð við skipti dánarbús og erfingjar hins látna fá tiltölulega lítinn afskammtaðan hluta, þá geti þeir fengið nokkuð af þeim arfi sem þeirra raunverulega réttborið fé, þannig að þeir fá tækifæri til þess að fá það aftur í sínar hendur, eins og þeir hefðu fengið, ef báðir makar hefðu dáið jafnt.

Um 8. brtt. hv. þm. Barð. verð ég að segja það, að ég tel hana fjarstæðu eina. Það hafa verið lögð viss víti við vissum verknaði og viss réttindamissir hefur verið lagður þar við sem víti. Sjálfa líkamlegu refsinguna geta menn í þessu tilfelli afplánað, eftir að dómur hefur gengið um verknaðinn. En þessi víti, þ.e. þessi réttindamissir, geta fylgt, ef viss verknaður er framinn, og í þessum l. eru ákvæði um það, þannig að þetta sé ein af lögákveðnum refsingum mannsins, sem ekki verður afplánuð á sama hátt eins og sú refsing, sem maðurinn hlýtur með dómi, því að það þarf ekki dóm um þennan réttindamissi.

Um II. kafla er það að segja, að kjörbarn fær ekki nú, eins og sakir standa, - og það verða að koma sérstök lög um það, ef því ætti að breyta, — en nú fær kjörbarn ekki frekari erfðarétt til þeirra, sem taka það í fjölskyldu sína, heldur en til kjörforeldranna sjálfra. Og þegar svo er, þá er rétt, að kjörbarn missi ekki alveg rétt til arfs eftir holdlega foreldra sína og ættingja, þegar þessu er þannig varið, að kjörbarn er miklu verr sett um arf eftir kjörforeldra sína, en niðjar kjörforeldranna, ef einhverjir eru, sem kemur til af erfðarétti gagnvart ættingjum kjörforeldra, sem kjörbarn hefur ekki. Við verðum, býst ég við, hv. þm. Barð. og við í allshn., á sama máli um, að það verði að setja alveg sérstaka löggjöf um þetta fólk og hana rækilega. Og ég tel það, sem er í þessu frv. ákveðið um erfðarétt kjörbarna, ekki nema bráðabirgðalausn, og hefur mér skilizt á hæstv. dómsmrh., að hann ætli að gera gangskör að því að leggja fyrir næsta Alþ. frv. til l. um afstöðu kjörbarna til kjörforeldra. En í þessu frv. verður maður að setja eitthvað í bráðina. Og mér finnst það, sem í frv. er um þetta efni, ekki vera fjarri sanni. — Það er vitanlega allt annað að vera arfleiðandi en að gera samning við mann, sem bindur báða aðila. Og það hefur verið litið þannig á frá gömlum tíma, að það væri rétt að heimila 18 ára manni að gera sína arfleiðsluskrá. En ég get vel skilið, að ólögfróðum manni komi það kátlega fyrir sjónir að hafa hærra aldurstakmark fyrir vottana, sem skrifa undir arfleiðsluskrá, heldur en fyrir arfleiðanda sjálfan. En það er til tekið, að vottarnir eigi að vera valinkunnir og samvizkusamir menn. Og að fara lengra niður með aldur þessara manna en í 21 ár, það er vafasamt. Þá fara menn fyrst að þekkjast, þegar þeir eru komnir yfir tvítugt, sumir hverjir a.m.k.

Það, að 28. gr. frv. falli niður, nær ekki nokkurri átt, því að svo váveifleg atvik getur að höndum borið, að ekkert ráðrúm verði til þess að koma arfleiðsluskrá á framfæri á annan hátt en þann, sem gert er ráð fyrir í þessari gr. Hv. þm. Barð. var eitthvað að tala í þá átt, að það væri ekki nema réttlát refsing fyrir þessa menn, ef þeir hefðu ekki hugsað fyrir erfðaskrá sinni fyrr, að þá félli niður réttur þeirra til þess að gera hana, ef þeir þá fyrst í slíkum kringumstæðum sem gert er ráð fyrir í 28. gr. ætluðu að gera erfðaskrá sína. Menn, sem eru á milli tvítugs og þrítugs, eru oft ekki farnir að hugsa svo fyrir sínu andláti, án þess að það sé talið þeim sérstaklega til saka yfirleitt sem hugsunarleysi, þannig að það kemur að mínum dómi alls ekki til mála, að það verði farið að fella þessa grein niður.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta meira í þetta skipti. En verði þessari umr. frestað nú, teldi ég rétt við framhald umr., að við gætum haft hæstv. dómsmrh. hér viðstaddan, svo að við gætum fengið að vita álit hans á því, sem okkur hv. þm. Barð. og mér ber á milli í þessu máli.