26.04.1949
Efri deild: 89. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í B-deild Alþingistíðinda. (788)

137. mál, erfðalög

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Hv. þm. Barð. tók aftur margar till., sem hann flutti við þetta frv. við 2. umr., og þær till. voru nú í gær athugaðar á fundi allshn. N. kom saman um, þótt skoðanir væru skiptar um meiningu till. og það prinsip, sem þar kemur fram, að ýmsar af þessum till. stönguðust á við frv. sjálft, jafnvel þó að þær næðu allar fram að ganga, þannig að það varð enginn af nm., sem vildi taka þessar till. beinlínis upp, en n. kom saman um að hafa óbundnar hendur um till., þegar þær kæmu fram, ef henni sýndist svo.

Ég verð að segja það, að hv. þm. Barð. hefur bæði prívat og eins hér á þingi látið uppi, að hann teldi stóra bót að þessu frv., eins og það er, þó að hans till. næðu ekki fram að ganga. Í þessu frv. er farið lengra, en nú er gert annars staðar á Norðurlöndum, þannig að erfðarétturinn nær ekki eins langt hér og í annarri Norðurlandalöggjöf. Í raun og veru er það svo með ýmsa löggjöf, svo sem erfðaréttinn og fjölskylduréttinn, að það liggur í loftinu, að norrænar þjóðir skapi sér sameiginlega löggjöf, sem verði samræmd hjá þeim öllum um þessi atriði. Þessar þjóðir eru svo skyldar, að bezt færi á, að þetta væri gert. En nokkur tími líður, þar til hægt er að gera það, en það verður sennilega ekki langt til, að það yrði. Hér verður því sennilega ekki tjaldað til fjölmargra ára, en auðvitað er það rétt, að allt þarf að fara sem bezt úr hendi, þó að skammt eigi að standa. Ég geri ráð fyrir, að þegar til reynslunnar kemur, verði ýmsir skavankar á þessu frv., þegar það verður að l., og verður þá að leiðrétta það, ef svo reynist. Mun þá verða frekar gengið í gegnum þessa hluti.

Hv. þm. Barð. þóttu þeir menn of ungir, sem mættu gera erfðaskrá, þ.e. 18 ára, og gerir till. um, að þeir megi ekki vera yngri en 21 árs. Ég hef sýnt fram á, að í öðrum löndum, eins og í Þýzkalandi, mega menn gera erfðaskrá, er þeir eru orðnir 16 ára. Það er annað að gera erfðaskrá, en gera kaupsamning, og hefur löggjafinn því ekkert séð því til fyrirstöðu að setja hér þetta aldurstakmark, 18 ár.

Ég sem sagt var búinn að lýsa þessu máli við 2. umr. og álít ástæðulaust að ganga frekar í það starf. En ég vil geta þess, að það liggja hér fyrir brtt. frá allshn., sem ég gerði eiginlega án þess að spyrja hana beinlínis að, en ég hygg, að hún sé þeim fylgjandi. Þær eru aðeins til að fá réttara orðalag, úr því að ekki mátti leiðrétta þessi atriði í prentun, skrifstofustjóri taldi það ekki rétt, a.m.k. með aðra leiðréttinguna. Það er við 26. gr. Upphaf 2. málsgr. er svo: „Einnig er rétt að geta atriða,“ en n. leggur til, að í þess stað komi: „Einnig er rétt að geta annarra atriða“. Hin breyt. er aðeins málfarsbreyt. til að færa til betra máls.

Ég hefði helzt viljað fara fram á það til þess að sjá, hverju fram yndi og hvort málið mundi ná fram að ganga, að hv. þm. Barð. nú í þetta skipti léti till. sínar biða og sjá, hvað setur í þetta skipti, því að ef miklar breyt. koma fram, þá tefur það málið, því að þá yrði að umbreyta frv. á ný, en þess þyrfti ekki, eins og það liggur fyrir nú. (Forseti og GJ: Þetta er 3. umr.) Hæstv. forseti og hv. þm. hafa misskilið mig. Ég meinti að taka till. aftur í þetta skipti, en þegar reynsla væri komin á þessa löggjöf, þá skal ég ekki verða meinsmaður þeirra breyt., sem til bóta væru. Það, sem fyrir mér vakir, er, að l. verði sem bezt úr garði gerð og sem hagsælust fyrir þjóðina, og ef fram koma breyt., sem eru til bóta, þá er sjálfsagt að fylgja þeim.