26.04.1949
Efri deild: 89. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 517 í B-deild Alþingistíðinda. (789)

137. mál, erfðalög

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil ýmislegt gera fyrir minn ágæta flokksbróður, hv. þm. Dal., ekki sízt eftir að hafa fengið siðferðis- og gáfnavottorð hjá honum, en svo langt treysti ég mér ekki til að ganga að taka aftur jafnveigamiklar till., sem eru hreint prinsipatriði, og þykir mér hann ætlast til helzt til mikils og ætla mig heimskari, en ég er, ef hann heldur, að hann fái mig til að taka aftur slíkar grundvallartill. Heldur hann, að ég hafi verið að leggja vinnu í að semja 14 till. til þess eins að sýna þær? Þá þekkir hann ekki mikið mína lyndiseinkunn. Nei, mér eru þessar till. ákaflega mikið áhugamál. Ég er alveg undrandi yfir n. Einn nm. fær mig til að taka till. til baka. Ég geri það í trausti þess, að n. muni samræma till. og frv. Nú kemur það fram, að vegna þess að ég varð við þessum áskorunum, að láta frv. ganga til 3. umr. án þess að láta mínar till. koma til afgreiðslu, þá er ómögulegt að samþ. mínar till. við 3. umr., af því að þá þarf að breyta frv. svo mikið. Þetta benti ég hæstv. forseta á. Svona má ekki fara með mál, en það er hvað eftir annað gert hér í d. Menn eru fengnir til að taka aftur till., sem gerbreyta málinu, svo að þær koma ekki til afgreiðslu fyrr en við 3. umr., og þá getur verið erfitt að ganga frá frv. eins og þarf. Það er áreiðanlegt, að ef einhver af þessum till. fer inn, þá þarf að samræma það við það, sem eftir stendur í frv., og það átti n. og hæstv. forseti að gera sér ljóst, áður en atkvgr. gekk um málið til 3. umr.

Ég get því miður ekki tekið þessar till. aftur. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé langbezt fyrir þjóðfélagið, að arfur gangi til trygginganna, að tryggingarnar verði gerðar svo sterkar, að það sé hægt að létta byrði af ríkissjóði, svo að hann þurfi ekki að bera byrðarnar að fullu, og ekki heldur, að það þurfi að vera sú áhætta, að ríkissjóður geti ekki látið til trygginganna það, sem þarf að láta til þeirra ár hvert. Ég tel það stórkostlega gerbyltingu í þjóðfélaginu, ef það er hægt að byggja tryggingarnar upp fjárhagslega svo sterkar, að þær þyrftu ekki að eiga undir afkomu ríkissjóðs. Þetta er eitt af meðulunum, til að svo geti orðið. Ég hefði ekki unnið að tryggingamálinu í 10 vikur með Haraldi Guðmundssyni og barizt fyrir þessu máli þannig, ef það hefði ekki eitthvað markað skoðun mína á málinu. Ég álít, eins og einn hv. þm. sagði á sínum tíma, að það valdi gerbyltingu og skapi nýtt og betra líf í landinu, þegar tryggingarnar eru búnar að ná fótfestu. Og að ætlast til, að ég taki til baka till., sem eru meginatriði í því, að þetta geti skeð, það er útilokað. Ég hef þvert á móti hugsað mér að óska eftir að fá nafnakall um flestar till., svo að segja hverja einustu, til þess að fá það virkilega fram, hverjir eru með því í d. að halda því við, að allt að 138 erfingjar geti rifizt um arf í stað þess að láta það fé renna til þeirra, sem bágast eiga í þjóðfélaginu, því að það er upplýst, að allt að 138 erfingjar hafa verið að krukka í arf, svo að skiptaráðandinn varð í vandræðum. Ég mun því óska, að nafnakall verði viðhaft um langflesta liðina. Ég þykist blekktur af n., að hún skuli hafa fengið mig til að taka aftur þessar till. Hún hafði fullkomlega tækifæri til að ræða þær við mig, áður en 2. umr. lauk. Í þess stað er ég beðinn að taka till. aftur til 3. umr., og ég geri það í því trausti, að reynt verði að ná samkomulagi og eitthvað af till. tekið inn. Svo kemur það fram, að það hafi ekki þótt gerlegt, og ég beðinn að taka till. fullkomlega aftur. Hv. þm. Dal. segist vera fús til að fylgja málinu síðar. En hefur hann nokkra tryggingu fyrir að verða þá á þingi, þegar málið kæmi hér aftur? Ég hef það ekki. Við skulum segja, að málið fari gegnum Nd. og verði að l. Hvaða tryggingu hefur hann fyrir að vera hér, þegar málið kæmi hér næst, til að fylgja þessum till.? (ÞÞ: Ég hef aldrei lofað að fylgja þessum till.) Hann lét þau orð falla, að hann vildi ekki fylgja þessum till. nú, því að þá yrði að gerbreyta frv. í Nd., en sagðist vera fús til að ljá málinu lið næst. Hvenær næst? Ég hef enga tryggingu fyrir, að hann verði þá lifandi. Og ég hef enga tryggingu fyrir, að ég verði þá á lífi. Ég hef enga líftryggingu eða lífstíðarábúð hér í d., — sem betur fer, hugsa ég, að hv. þm. segi.

Það er langt frá því, að ég fáist til að taka aftur af fullu þær till., sem eru mér kannske þær hjartfólgnustu af öllum málum, sem hér eru. Þær eru mér mjög mikið áhugamál.