26.04.1949
Efri deild: 89. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í B-deild Alþingistíðinda. (791)

137. mál, erfðalög

Brynjólfur Bjarnason:

Það er vissulega ekki hæstv. forseta að kenna, að þessar till. voru teknar aftur. Ég óskaði þess, að hv. þm. gerði það. Ég gerði það í trausti þess, að n. vildi taka þessar till. til athugunar og samræma þær við frv. Ég vonaði, að það mundi ef til vill verða vilji fyrir því í n. Nú reyndist, að það var ekki. Ég bið hv. þm. Barð. afsökunar á, að ég skyldi fá hann til að taka þessar till. aftur og tilraunin skyldi mistakast. Það var ekki að mínum óskum. Mín skoðun er mjög í samræmi við skoðun hv. þm. Barð. Ég er sammála þeirri meginhugsun, sem felst í flestum till. hans. Ég er sammála honum um það, að erfðarétturinn og framfærsluskyldan eigi sem mest að fara saman, og sömuleiðis um það, að féð renni til tryggingastofnunarinnar. Það er sýnilegt, að nokkrar af þessum till. eru í mótsögn við frv., og kannske eru þar fleiri mótsagnir, en ég eða n. hafa komið auga á, af því að málið hefur ekki fengið þá athugun sem skyldi. Hins vegar lít ég svo á, að það skipti ekki mjög miklu máli, hvort þessar till. koma til atkv. við 2. eða 3. umr., vegna þess að þetta er fyrri d. og nægur tími í Nd. að gera þær samræmingar, sem nauðsynlegar eru vegna þess, að eitthvað af þessum till. kynni að verða samþ. Ég mun greiða atkv. með mörgum af þessum till., fyrst og fremst þeim, sem fela í sér þá meginstefnu, sem hv. þm. Barð. hefur gerzt talsmaður fyrir og ég er í höfuðatriðunum sammála.