03.12.1948
Neðri deild: 26. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í B-deild Alþingistíðinda. (811)

8. mál, Landsbókasafn

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er undirbúið af sérstakri nefnd, sem menntmrh. skipaði til þess haustið 1947. Í nefnd þessari áttu sæti: Landsbókavörður, háskólabókavörður, tveir prófessorar við norrænudeild háskólans, þeir Sigurður Nordal og Þorkell Jóhannesson, og fimmti maðurinn í nefndinni var Jakob Benediktsson ritstjóri. Menntmn. hefur nú fjallað um þetta mál og rætt það við landsbókavörð, háskólabókavörð og varaformann nefndar þeirrar, er samdi frumvarpið. Enn fremur sat fulltrúi frá Tónskáldafélagi Íslands fund nefndarinnar og túlkaði sjónarmið tónlistarmanna.

Eftir þessa athugun leggur menntmn. til, að frv. verði samþ. með tveimur smábreytingum, sem prentaðar eru á þskj. 155. Fyrri breytingin er við 4. gr., að orðin „sem erlendis eru“ í 2. málsl. falli burt. Í greininni segir, að landsbókasafnið skuli vinna að öflun eftirrita eða mynda af íslenzkum handritum, sem erlendis séu, ef frumritin eru eigi fáanleg. Það virðist of takmarkað að binda þessa skyldu safnsins við handrit erlendis eingöngu og réttara að leggja safninu þessa skyldu á herðar, ef frumritin eru eigi fáanleg, jafnt hvort sem frumritin eru erlendis eða innanlands í eigu einstakra manna.

Þó þótti rétt að verða við ósk Tónskáldafélagsins um það að taka í lögunum af öll tvímæli um það, að tónverk heyrðu undir ákvæði þeirra, eins og fram kemur í 2. brtt. n. á þskj. 155. Menntmn. telur nú raunar, að þetta felist í frv. eins og það er, en til þess að taka af öll tvímæli um það, varð hún við þeirri ósk Tónskáldafélagsins að leggja til að bæta nýrri grein inn í frv., þar sem þetta er beint tekið fram. — Ég hef svo ekki fleira fram að færa fyrir hönd nefndarinnar að svo stöddu, en vænti, að þetta frv. verði samþ.