03.12.1948
Neðri deild: 26. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í B-deild Alþingistíðinda. (812)

8. mál, Landsbókasafn

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Ég saknaði þess í ræðu hv. frsm. menntmn., að ekkert var þar á það minnzt, að hve miklu leyti á að breyta hlutverki landsbókasafnsins með þessu frv. frá því, sem nú er. Þetta kemur ekki fram í frv. sjálfu, en ég sé, að í grg. þess stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Starfssvið safnsins og notkun verður eingöngu miðuð við fræðimenn. Það getur ekki gegnt hlutverki almannabókasafns.“

Nú hefur það verið svo, hygg ég, að landsbókasafnið hefur verið notað nokkuð jöfnum höndum sem almannabókasafn og bókasafn fyrir fræðimenn. Og þó að svo kynni að vera, að e.t.v. væri æskilegast, að safnið væri eingöngu fyrir fræðimenn, þá langar mig til að fá að vita hjá nefndinni, hverja hún telur þá fræðimenn og hverja ekki. Er aðeins átt við viðurkennda fræðimenn, eða er ekki greint á milli þeirra og fróðleiksfúsra manna? Ef þar á að greina á milli, þarf að breyta fyrirkomulagi safnsins mjög frá því, sem nú er, t.d. koma í veg fyrir, að menn, sem eiga lítinn kost húsnæðis, fari inn á safnið til að lesa þar sér til skemmtunar eða fróðleiks, nema hvort tveggja sé, og slíkt væri afleitt og mjög illa farið, meðan önnur söfn eru ekki fyrir hendi til að taka við því hlutverki, þ.e. taka við þessu fróðleiksfúsa fólki. Háskólabókasafnið er einnig sérstaklega ætlað fræðimönnum, og ég bendi á, að það er mikið í lagt að hafa bæði þessi söfn nokkurn veginn lokuð öðrum en fræðimönnum eða þeim, sem hafa þann stimpil, á meðan ekki er neinn kostur nægilegra safna í bænum fyrir almenning. Það eru því eindregin tilmæli mín, að hv. frsm. upplýsi, hverjar breytingar eiga að verða á starfssviði landsbókasafnsins.