03.12.1948
Neðri deild: 26. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 526 í B-deild Alþingistíðinda. (814)

8. mál, Landsbókasafn

Finnur Jónsson:

Ég hef nú við þessa fyrirspurn til hv. frsm. fengið að nokkru upplýst það, sem ég óttaðist, sem sé að landsbókavörður gæti, ef honum sýndist, takmarkað verulega afnot safnsins, þannig að það kæmi ekki til almennra afnota eins og hingað til hefur verið. Frsm. komst svo að orði, að eins og safnið væri, gegndi það ekki að öllu leyti hlutverki almannabókasafns. Það er rétt. En að nokkru leyti gerir það það, og með því hefur safnið eflaust haft meiri menningaráhrif og þýðingu fyrir bókmenntirnar í landinu en ella. — Þá gat hv. frsm. þess, að nokkuð bæri á því, að menn kæmu með eigin bækur á safnið, svo að þar væri stundum jafnvel ekki rúm fyrir fræðimenn. Ég verð nú að segja, að ég teldi rúmi safnsins vel varið, þótt menn kæmu þangað með eigin bækur, á meðan þeir eru ekki verulega fyrir öðrum, og yfirleitt held ég, að það væri örðugt að „sortera“ þá, sem ættu að fá aðgang, og hina, sem ættu ekki að fá aðgang. Frsm. sagði, að frv. bæri ekki með sér neina breytingu á skipulagi safnsins, en ég tel, að grg. frv. beri það með sér ótvírætt. — Ég hef því miður ekki haft tækifæri eða tíma til að bera saman þetta frv. og þau lög, sem ætlazt er til, að felld verði úr gildi með því, og vil ég því mælast til, að hv. frsm. upplýsi, hvaða breytingar eru fyrirhugaðar á starfssviði safnsins frá því, sem er í gildandi lögum, ella verði málinu frestað.