06.12.1948
Neðri deild: 27. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 530 í B-deild Alþingistíðinda. (825)

8. mál, Landsbókasafn

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Við 2. umr. málsins benti ég á, að í þessu frv. væri ekkert, sem gæfi til kynna, að ætlað væri að gera skipulagsbreyt. á starfsháttum safnsins. Ég benti á, að í frv. væri gert ráð fyrir, að reglugerð yrði sett um stjórn og starfshætti safnsins og allt, sem lýtur að skipulagi safnsins sjálfs, en n. var ekki kunnugt um, að það væri nein fyrirætlun um að breyta starfsháttum þess, enda mun ekki vera heimilt að setja í reglugerð annað en það, sem l. taka fram í stórum dráttum. Til viðbótar þessu lýsti hæstv. menntmrh. yfir við 2. umr., að í þessu frv. felist ekki nein fyrirætlun um breyt. á starfsháttum safnsins. Þetta taldi hv. þm. Ísaf. þá raunar ófullnægjandi svör og jafnvel engin svör. Hitt tók ég fram að gefnu tilefni frá hv. þm. Ísaf. og bar landsbókavörð fyrir því, að undanfarin missiri og ár hefur nokkuð borið á því, að á safnið kæmi fólk utan úr bæ, sem kæmi ekki til að nota bókakost safnsins sjálfs, heldur eigin bækur, og vildu nota lestrarsalinn sem lesstofu, aðallega skólalesstofu. Ég vil taka það fram, að landsbókavörður hefur látið í ljós, að ef svo færi síðar meir, að safnið gæti ekki tekið á móti þeim, sem vildu nota bókasafnið sjálft í lestrarsal, vegna aðsóknar annarra manna, þá gæti komið til þess, að þyrfti að reisa skorður við því, að lestrarsalur safnsins væri, notaður sem lesstofa, því að fyrst og fremst er honum ætlað það hlutverk að vera til afnota þeim mönnum, sem vilja nota bókakost safnsins og afla sér fróðleiks á þann hátt. Mér skilst, að þetta, ef til þess þyrfti að koma síðar meir, að reisa skorður í þessu efni, þá snerti það ekki það frv., sem hér liggur fyrir, því að það liggur í augum uppi, að yfirstjórn safnsins á hverjum tíma hlyti að geta gert slíkar ráðstafanir sem þessar. Það er í raun og veru stjórnarráðstöfun, sem yfirstjórn safnsins hefur í hendi sinni hvenær sem er.

Þegar þetta liggur fyrir, er ekki óeðlilegt, að kæmi sú spurning: Til hvers er verið að breyta löggjöfinni um landsbókasafn? Mér hefur skilizt, að tilgangurinn með þessari lagasetningu sé aðallega tvenns konar: Í fyrsta lagi á að færa löggjöfina til samræmis við þá starfshætti, sem nú þegar eru fyrir hendi í landsbókasafninu, en l. um landsbókasafn eru frá 1907, meira en 40 ára gömul, og segja í raun og veru afar lítið. Eins og að líkur lætur, hefur þessi stofnun eins og fjölmargar aðrar stofnanir þróazt og vaxið í síðustu 40 ár. Safnið er nú rekið í fullu samræmi við það, sem frv. tekur fram. Þetta er þá höfuðtilgangur frv., að færa löggjöfina til samræmis við þá starfsemi, sem þegar er fyrir hendi í landsbókasafninu. Að þessu lúta 1.–5. gr. frv., sem segja til um, að safnið sé Landsbókasafn Íslands, og svo tiltekið nánar um hlutverk þess, að safna og varðveita prentuð rit og handrit o.fl. þess háttar. Það má í raun og veru segja, að 8.–10. gr. lúti að þessu líka, þar sem tiltekið er um starfsmenn safnsins og ráðunauta, sem landsbókavörður kveður til, þegar velja skal fyrir safnið bækur í vissum fræðigreinum.

Þá kem ég að því, sem kom fram hjá hv. þm. Ísaf. og hv. 2. þm. Rang., hvort fyrirhugað sé með þessu frv. að stofna til starfsmannafjölgunar í safninu í samræmi við það, sem 8. gr. segir. Þeirri fyrirspurn get ég svarað á þann hátt, að menntmn. spurði landsbókavörð um þetta á fundi sínum, og gaf hann n. þau svör, að sá mannfjöldi, sem tiltekinn er í 8. gr. frv., sé starfandi við safnið nú, en þetta sé aðeins lögfesting á því, sem fyrir sé í safninu og hafi verið undanfarin ár. Þessi svör landsbókavarðar tók n. gild og hefur ekki látið fara fram aðra og frekari rannsókn í þessu efni, og ég hygg, að þetta sé sannleikanum samkvæmt. Hinu er ég ekki tilbúinn að svara, á hvaða tíma fjölgun starfsmanna hefur farið fram frá því, sem l. frá 1907 gerðu ráð fyrir, því að það er rétt, sem hv. þm. Ísaf. tók fram, að í l. frá 1907 er ekki gert ráð fyrir svona miklu starfsliði, en þetta hefur þróazt eins og annað og verið samþ. á vissan hátt, t.d. með samþ. fjárl., þar sem veitt hefur verið fé í samræmi við þetta starfsmannalið, sem þar er nú.

Þá kem ég að hinum þætti þessa máls, en mér skilst, að annar þáttur þessarar lagasetningar sé að afmarka skýrar, en verið hefur, stöðu safnsins og afstöðu þess gagnvart öðrum söfnum landsins. Á þetta ekki sízt við um háskólabókasafnið. Ég get bent á, að í grg. frv., efst á bls. 3, segir svo: „Fram til síðustu áratuga hefur landsbókasafn verið hið eina vísindalega bókasafn þjóðarinnar. En nú hafa risið upp eða eru að rísa nokkur önnur vísindaleg bókasöfn. Stærst þeirra er háskólabókasafn. En auk þess hafa ýmsar stofnanir efnt til bókasafna vegna starfsemi sinnar eða rannsókna, svo sem atvinnudeild háskólans, rannsóknastofa háskólans, náttúrugripasafnið o.fl.“ En það er einmitt annar höfuðtilgangur þessa frv. að afmarka starfssvið landsbókasafnsins gagnvart öðrum söfnum. En það er ekki ætlunin, að landsbókasafnið hverfi frá því, sem það hefur verið, að vera vísindalegt bókasafn, og það, sem hv. þm. Ísaf. benti á við 2. umr., er aðeins í samræmi við þetta, að landsbókasafnið haldi áfram að vera vísindalegt bókasafn, þrátt fyrir það að önnur vísindaleg bókasöfn rísi upp. Á það má benda, að einmitt þetta kemur fram í því, að landsbókasafninu er lögð sú skylda á herðar að hafa á hendi gagngerðari söfnun og varðveizlu bóka en öðrum söfnum og landsbókasafnið hefur reist skorður við því að lána bækur út til manna almennt, heldur geymir það bækurnar og lánar til afnota í lestrarsal, en t.d. bæjarbókasafnið og söfn úti á landi eru frekar rekin til að annast útlánastarfsemi til almennings.

Hv. þm. Ísaf. benti á í ræðu sinni áðan, að landsbókasafnið ætti skv. frv. að vinna að kynningu íslenzkra bókmennta og íslenzkrar menningar á erlendum vettvangi, en það væri ekki tekið fram skýrum orðum, að það skyldi gegna sama hlutverki um kynningu bókmennta innanlands, og lét hv. þm. einnig þau orð falla, að ekki yrði séð af frv., hvernig landsbókasafnið ætlaði sér að framkvæma þessa kynningu íslenzkra bókmennta á erlendum vettvangi. Út af þessu þykir mér ástæða til að segja það, að um kynninguna innanlands verður auðvitað haldið í svipuðu horfi og verið hefur hingað til. Það hefur einmitt verið höfuðstarfssvið landsbókasafnsins að safna bókum og varðveita þær og lána þær svo safngestum til afnota í lestrarsal. Á þennan hátt vinnur landsbókasafnið að kynningu íslenzkra bókmennta innanlands, og dregur það að sjálfsögðu ekkert úr því, þótt þetta frv. verði að lögum. En um það, hvernig koma á í framkvæmd kynningu íslenzkra bókmennta erlendis, þá bendi ég á, að í 6. gr. frv. er nýmæli, sem segir, að landsbókasafnið skuli reka miðstöð bókaskipta við erlend söfn og vísindastofnanir. Í öðru frv., sem er fylgifiskur þessa frv., frv. til l. um afhending skyldueintaka til bókasafna, er gert ráð fyrir, að allar prentsmiðjur og öll fyrirtæki, sem margfalda prentað mál, afhendi skyldueintök til landsbókasafnsins og landsbókasafnið á síðan að ráðstafa þeim og annast bókaskipti við erlendar stofnanir, og er þetta nýmæli í þessu máli.

Út af brtt. hv. þm. Ísaf. þá tek ég fram, að menntmn. hefur nú á stundinni ekki aðstöðu til að íhuga hana, og get því ekki fyrir hönd n. sagt neitt um till., en mér finnst eðlilegt, að n. verði gefinn kostur á að athuga hana, og væri því ef til vill rétt, að hæstv. forseti frestaði afgreiðslu málsins, t.d. þangað til á næsta fundi d., þar sem þetta er 3. umr. málsins og ekki hægt að athuga till. milli umr.