13.12.1948
Neðri deild: 33. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 535 í B-deild Alþingistíðinda. (831)

8. mál, Landsbókasafn

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Ég er ánægður með, að hv. þm. A-Sk. skuli nú loks hafa kynnt sér l. frá 1907 og komizt að þeirri niðurstöðu, sem hann hlaut að gera, að í þeim l. er ekkert tekið fram um hlutverk landsbókasafnsins, heldur sé ætlazt til, að því atriði séu gerð skil í reglugerð. Í þessu nýja frv. er hins vegar getið hluta af hlutverki þess, en ég mun vera svo barnalegur að halda, að aðalhlutverk safnsins sé að kynna mönnum bækur safnsins. Ég hef það álit, að landsbókasafn eigi að þjóna þessum tveim hlutverkum: safna bókum og gefa almenningi kost á að kynna sér þær. Er það kallað dirfska af mér, ókunnugum þessum efnum, að ég skuli leyfa mér að benda á, að í þessu frv. sé það fellt niður, er til þessa hefur verið talið aðalhlutverk safnsins. Ég þykist vita, að hv. þm. segi þetta eigi vera ætlunina. En hvers vegna er ekki talinn upp nema annar hlutinn af því, er talið er hlutverk safnmannanna? Mér er e.t.v. líkt farið og fleirum, að hv. þm. A-Sk. geti talið upp marga menn, sem séð hafi frv., en fyrir mínum augum er þessi galli á frv. Þeim góðu mönnum hefur e.t.v. farið á þann veg, að þeir hafi talið þetta of sjálfsagt, til þess að taka þyrfti það fram. Hví er þá verið að taka fram, að safna þurfi bókum? Ef hitt er of sjálfsagt, til að þurfi að taka það fram, þá hefði eigi fremur þurft að taka þetta fram. Landsbókasafnið getur orðið eins konar heimildastofnun og eingöngu fyrir fræðimenn. Hvað reglugerðina varðar, mun þá vera ætlunin að loka safninu að meira eða minna leyti? Ég veit, að hæstv. menntmrh. segir það eigi vera ætlan sína, en hann er nú ekki eilífur augnakarl. En ég held fast við brtt. mína. Og þó að svo sé að orði kveðið, að hlutverk safnsins sé að efla „bókfræðiiðkanir,“ þá held ég það sé enginn hortittur, þegar jafnframt er tekið fram, að gefa skuli mönnum kost á að kynnast erlendum og innlendum bókum. Vel má vera, að einhver íslenzkufróður maður hefði orðað þetta eitthvað öðruvísi. Er ég tilbúinn að taka við og fylgja fram till: um að orða þetta betur. En á meðan eigi er annað haft í frammi en bláber neitun við því að taka brtt. mína til greina, þá stend ég við hana. Sé ég ekki, að hið virðulega Alþ. geti ekki skorið úr um það, hvert hlutverk landsbókasafnsins eigi að vera.