22.02.1949
Efri deild: 64. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 539 í B-deild Alþingistíðinda. (845)

8. mál, Landsbókasafn

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Til athugunar fyrir 3. umr. málsins vil ég minnast. á nokkur atriði. - Ég tek undir þau ummæli hæstv. dómsmrh. og hæstv. forseta, að málið þarf nánari athugunar við. Sumt getur að vísu orðið reglugerðaratriði, eins og t.d. að lagfæra þær aðstæður, sem nú eru sagðar vera, að lesstofur séu alltaf fullsetnar af skólafólki, svo að engin sæti séu fyrir þá, sem óska eftir að nota bækur safnsins, og fer ég ekki nánar út í það.

Meðal ákvæða í þessu frv. er eitt atriði þess efnis, að lögskipað sé, að hver útgefandi sé skyldur að láta af hendi eintök af öllu, sem hann gefur út. Þetta er út af fyrir sig gott, en þó tel ég, að við þetta ætti að bæta því, sem kemur út ljósprentað, fjölritað og steinprentað, eða yfirleitt af öllu, sem prentsmiðjur setja. Það kann að vera, að þetta sé ekki mikils virði fyrst í stað, en þeir tímar geta komið, að slík prentverk geymi mikinn fróðleik. Ég sé ekki ástæðu til að flytja brtt. um þessi atriði, en vænti, að n. taki þau til athugunar fyrir 3. umr. Varðandi starfsmannafjöldann á safninu, þá virðist hann nokkuð mikill og óþarflega mikill, ef allt er í röð og reglu á safninu, en hins vegar getur verið, að nokkur starfsmannaaukning hafi átt sér stað í sambandi við flutning handritasafnsins austur í Árnessýslu og við að koma því í gott lag aftur.