17.03.1949
Efri deild: 79. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í B-deild Alþingistíðinda. (853)

8. mál, Landsbókasafn

Frsm. (Eiríkur Einarsson):

Herra forseti. Eins og hv. dm. mun reka minni til, þá var hreyft aths. við frv. við 2. umr., og var henni þá frestað, til þess að þeir, sem hafa haft þetta til meðferðar, ættu kost á því að bera fram brtt. sínar eða gera frekari grein fyrir skoðun sinni og jafnframt afla sér þeirra upplýsinga, sem fáanlegar kynnu að vera og lytu að málinu. En nú hefur meiri hl. n. kvatt þá háskólabókavörð og landsbókavörð á sinn fund til að fræðast af þeim um málið og er að því leyti reiðubúinn að gefa skýrslu um það. En er það er athugað, að þeir, sem mótmælt hafa, m.a. hæstv. dómsmrh., er nú dvelst erlendis, eru nú fjarverandi og eiga þess því engan kost að gera grein fyrir aths. sínum, þá vildum við að vísu ekki seinka gangi málsins, en hins vegar fylgja því á eftir, að menn þeir, sem hæstv. ráðh. nefndi, og hv. þm. Barð. ættu kost á því að fylgja sínum skoðunum eftir. Við, sem í menntmn. sitjum, álitum, að það gæti samrýmzt, ef þessi hv. d. gæti leyft 2. umr. frv. að ljúka í dag til þess að seinka ekki málinu, en hins vegar láta það bíða, til þess að mótmælin gætu komið fram við 3. umr. Ég geri ráð fyrir, að þá þyrfti að skýra málið nánar. Vil ég því mælast til þess, að d. fallist á samþykkt frv. til 3. umr. eins og það liggur fyrir núna og beðið verði með fræðslu embættismannanna til þeirrar umr. En þá opnast dyr fyrir allar skoðanir. Ég er tilbúinn að koma fram með skýrsluna strax, en hitt er praktískari meðferð, hvort sem hlýr hugur eða kali kemur þá í ljós. — Þetta er m.ö.o. skýrsla mín og tilmæli. (PZ: Á að fara að greiða atkv.?) Hv. þm. á kost á að ganga út á meðan.