17.03.1949
Efri deild: 79. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í B-deild Alþingistíðinda. (855)

8. mál, Landsbókasafn

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Mér þykir nú þessar aths. hv. 1. þm. N-M. harla einkennilegar. En það mun vera vegna þess, a.m.k. að sumu leyti, að honum mun eigi vera kunnugt um þá athugun málsins, sem n. hefur gert. Hann sagði, að n. hefði ekki hugmynd um, hve margir starfsmenn væru við safnið. Það kom strax fram, að n. vissi þetta, a.m.k. hve margir bókaverðirnir væru, því að grennslazt var eftir, þegar n. hafði frv. til meðferðar, hvort um fjölgun bókavarða mundi vera að ræða eða ekki. Sex skipaðir bókaverðir eru nú starfandi við safnið skv. upplýsingum frá landsbókaverði, og í frv. er gert ráð fyrir „allt að sex“. Einhver var að tala um kvenmann. En óvíða mun tiltekið sérstaklega í lögum um þvottakonur. En mér vitanlega er enginn kvenmaður nema vélritunarstúlka við safnið, enda tekur frv. eigi til þess, heldur aðeins um tölu bókavarða. N. hefur því gert sér þetta ljóst frá upphafi. Nú talar þessi hv. þm. um það, að hæstv. dómsmrh. sé ekki viðstaddur. Ja, hefði málið heyrt undir hann, þá hefði mér ekki komið til hugar að taka það á dagskrá, nema því aðeins að hann væri við. En það heyrir bara ekki undir hann. Ég lít á það, sem hann hefur sagt, á sama hátt og er við aðrir þdm. látum í ljós skoðun okkar. Hann talaði sem hver annar þdm. Síðan gætti d. orða hæstv. ráðh., því að hún tók þau til athugunar. og hæstv. ráðh. hreyfði eigi andmælum. Beindi hann tilmælum til n. um að athuga nánar ákvæðin um bókaverðina og starfsskiptinguna, sem n. athugaði einnig, því að bæði háskólabókavörður og landsbókavörður voru á fundi hennar, og er gert ráð fyrir, að sú starfsskipting verði viðhöfð, sem um ræðir. Auk þess er, eins og hv. frsm. gat um, ekki öll nótt úti enn. Ef hæstv. dómsmrh. vill hafa áhrif á málið, þá er enn tækifæri til að ræða það. Sem forseti get ég lýst yfir því, að ég mun ekki taka frv. til 3. umr., fyrr en hann getur verið viðstaddur. En málið heyrir undir hæstv. menntmrh., þó að það heyri undir hæstv. fjmrh., hvað fjármálin snertir. Og leit ég því á það, sem hæstv. dómsmrh. sagði þá í þessu máli, svo sem hann segði það sem þm. aðeins, en ekki sem ráðh.