17.03.1949
Efri deild: 79. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í B-deild Alþingistíðinda. (856)

8. mál, Landsbókasafn

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég leyfði mér að segja það, sem ég sagði, af því, að í launaskránni stendur, að það séu sjö bókaverðir við landsbókasafnið, og er einn þeirra kallaður aðalbókavörður. Þar að auki er ein stúlka. Þess vegna sagði ég, að n. hefði ekki vitað, að þeir væru aðeins sex. Hér er skráin yfir þá. Þeir heita: Finnur Sigmundsson, Lárus H. Blöndal, Guðbrandur Jónsson, Þórhallur Þorgilsson, Geir Jónasson, Haraldur Sigurðsson, Ásgeir Hjartarson, Erna Finnsdóttir og Agnar Þórðarson. Þeir eru sex skipaðir, og svo er sá sjöundi kominn inn fyrir utan l. Og n. virðist enn ekki hafa áttað sig á þessu. Þetta var annað atriðið, sem hæstv. dómsmrh. var að tala um og spyrja, hvort það væri ástæða til þess að festa sex bókaverði í frv., þar sem áður er gert ráð fyrir í eldri lögum, að þeir séu miklu færri, og sumir þeirra, sem eru nú, eru bara ólöglega skipaðir. Mér hefur skilizt á n., að hún hafi ekki athugað þetta. Hefur hún gert það? Það kom ekki fram hjá hv. form. n. og ekki hjá hv. frsm. hennar, að hún hefði athugað þetta. Þeir ætla kannske að gera það við 3. umr., þegar það er orðið of seint að bera fram nokkrar brtt. nema kannske skrifl. — Hitt var það, sem nú upplýstist hjá hv. form. n., að þeir séu búnir að athuga það, sem hæstv. ráðh. var líka að tala um, möguleikana fyrir að sameina að einhverju leyti bókavarðarstarfið við landsbókasafnið við bókavarðarstarfið við háskólabókasafnið. Um þetta vil ég vita nokkru nánar, áður en ég greiði atkv. um frv. Og mér þykir það yfirleitt slæmur siður hér á Alþ. að láta mál þannig fara til síðustu umr. þeirra, að menn viti, að það þurfi svo og svo mikið að breyta þeim við síðustu umr., sem oft er þá gert í flaustri, þegar allt er komið í eindaga. Við höfum oft fengið hingað mál frá hv. Nd. þannig, að alls ekki hefur verið tími til þess svo mikið sem að ræða þau. Og mér þykir það vera ósiður að leika sér að því að láta mál þannig fara til 3. umr., að vitað sé, að þá muni koma fram margar brtt. við þau. Ég vil því, að þetta mál sé ekki afgr. þannig, þó að sumir vilji geyma allt til síðustu stundar.