19.04.1949
Efri deild: 85. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í B-deild Alþingistíðinda. (864)

8. mál, Landsbókasafn

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég hreyfði nokkrum athugasemdum varðandi þetta frv. við 2. umr. þess. Bar það til, að þm. virðast hafa lítinn áhuga fyrir því að reyna að draga úr útgjöldum ríkissjóðs og horfa oft ekki í að lögfesta frv., sem fela í sér stórkostlega aukningu starfsmannahalds hjá því opinbera, og það mjög oft áður en ýtarlegar upplýsingar liggja fyrir um gagn þess og nauðsyn, að slíkt verði gert. Það er ekki það, að ég telji mig vera fullkomlega færan til að dæma um það, hvort nauðsynlegt sé að fjölga mönnum við þær stofnanir, sem hér er verið að ræða um, en ég tel vera óheppilegt, að þegar hæstv. fjmrh. er að afgreiða fjárlögin og mikil þörf er á að reyna að lækka kostnaðinn við ríkisreksturinn, að þá sé komið fram með frv., sem mjög líkleg eru til að auka hann, fremur en lækka, án þess að frekari athugun fari fram á því, hver sé þörfin. Að vísu er þetta flest smátt, en það er ekki bent á það, hvert starfssvið þessara manna verði. Við þennan hugsanagang má ekki lengur una. Ég sé ekki neina nauðsyn bera til þess að fara að lögskipa þessa tölu bókavarða að svo komnu máli, en ég tek fram, að ég hef enga andúð á þessu máli. Það er síður en svo, en hér er um að ræða eitt fárra mála, sem bera þess glöggan vott, hvernig kostnaðurinn við ríkisreksturinn hefur þanizt út á undanförnum árum. Landsbókasafnið er ekki eina stofnunin, sem hefur tútnað mjög út á undanförnum árum. Svo er um flestar þær stofnanir, sem ríkissjóður kostar, en það virðist vera nokkuð erfiðara að losna við fólkið aftur, þegar þess gerist ekki lengur þörf. Landsbókavörður veigrar sér auðvitað við að fækka við sig fólki, en hví skyldi þurfa að lögfesta þá stöðuaukningu, sem orðin er við safníð? Nú hefur það verið upplýst, að háskólabókavörður hefur 1–2 menn í þjónustu sinni, en hann segir, að þeir fái laun sín úr sáttmálasjóði. Hvað lengi á það að ganga svo? Þeir þekkja illa gang mála á undanförnum árum, sem sjá ekki, að þarna er um að ræða verk, sem krafizt verður greiðslu fyrir úr ríkissjóði, áður en mörg ár liða. Hins vegar er það auðvitað verkefni sáttmálasjóðs að stuðla að og sinna vísindalegum verkefnum, en ekki að halda mönnum á launum við safnið. Svona hefur það verið við landsbókasafnið. Tala bókavarða er aukin, og svo er farið fram á, að sú aukning verði lögfest. Nú langar mig til að spyrja: Hvenær varð þessi aukning við safnið, og hver er vinnutími þessara manna, sem þar vinna? Það væri ekki alls ófróðlegt að heyra um það. Og ég vil taka það fram, að ég er ekki út af fyrir sig að amast við þessu litla frv., sem hér liggur fyrir, heldur ræði ég um þetta eingöngu vegna þeirrar tilfinningar, sem ég hef fyrir því, að ríkisbáknið sé orðið of stórt, en ég sé, að hér er enn verið að gera það stærra með því að lögfesta þetta. Það er því ekki óeðlilegt, að menn taki sig til og reyni að kryfja þetta litla dæmi til mergjar, hvort hér á að lögfesta þá mestu útþenslu, sem orðið hefur á stríðsárunum, og hvort ekki væri réttara að nota tækifærið til að skera hér eitthvað niður og það án þess, að menningu landsmanna væri stefnt í verulega hættu.